Sími  4415600 / 8666926

Rjóður

Fréttir af Rjóðri

Mars

Það er búið að vera mikið að gera hjá okkur undanfarið en eftir daginn í dag fara hlutirni aðeins að róast, í bili allavegana. Á mánudögum og miðvikudögum blandast deildirnar Hlíð og Rjóður, við munum halda áfram að vinna með Lubba og málhljóðin á þriðjudögum, rólegheit og verkefna vinna á Rjóðri á fimmtudögum og  vináttuverkefnið, turninn og slökun á föstudögum.

Foreldraviðtölun verða fimmtudaginn 16. mars og mun ég og Tinna skipta þeim á milli okkar.  Ég mun senda ykkur tímasetningar þegar nær dregur.

Á þriðjudaginn í NÆSTU viku eða þann 7. mars förum við í skólaheimsókn út í Hörðuvallaskóla, börnin þurfa að koma með nesti þann daginn. Minni á að það er barn á deildinni með hnetuofnæmi og að Hörðuvallaskóli er hnetulaus skóli.

Þið getið alltaf sent á mig póst ef þið hafið einhverjar spurningar.

Kv. Arna Lind.


Ágúst

Ofsalega var gaman að sjá alla eftir sumarfrí og börnin glöð að koma aftur. Aðlögun á deildinni er búin og hafa tvær stelpur bæst í hópinn, verðum við því 17 talsins í vetur (5 stelpur og 12 strákar).

Mig langar að minna ykkur á að koma með aukaföt.  Öll börn eru með kassa fyrir ofan hólfið sitt í forstofunni og verður sú nýbreytni á í vetur að þið foreldrar berið ábyrgð á að nóg sé af aukafötum. Við verðum ekki með föt til láns, þannig að ef það vantar í kassann verður hringt heim.

Í vetur munum við hafa starfið þannig að við verðum inni fyrir hádegi með stöðvavinnu og flæði með Hlíð og allir fara út eftir hádegi.  Á föstudögum erum við með Turninn/hreyfisalinn frá 9.30-12.00

Við borðum hádegismat kl. 12.00 og erum svo í hvíld/rólegum leik til kl. 13.00. Langar mig að biðja ykkur að virða þann tíma og koma ekki með börnin í leikskólann þá, nema um læknisheimsóknir sé að ræða þá er minnsta mál að taka við þeim. Gott er að vita af svoleiðis fyrirfram.

Símanúmer deildarinnar er 441-5617, gott væri ef þið tilkynnið veikindi eða frí þar.

Annars leggst veturinn mjög vel í okkur og er barnahópurinn ofsalega flottur.

Bestu kveðjur Arna Lind, Auður og Tinna

 Apríl 2016

Það er alltaf nóg að gera hjá okkur á Rjóðri, við erum mikið úti þessa dagana í góða veðrinu. Því er mikilvægt að hafa föt við hæfi, eins og þunna húfu/buff, létta skó, jakka/flíspeysu og flís/hlífðarbuxur.

Einnig er mikilvægt á sólardögum að börnin fái sólarvörn áður en þau koma í leikskólann svo berum við á þau eftir hádegi.

Í stöðvavinnu þessa dagana erum við að vinna verkefnið „Heimilið mitt“ . Við erum byrjuð að fara í vettvangsferðir að skoða húsin að utan hjá krökkunum. Við vinnu svo áfram verkefni út frá því.

kveðja

Harpa, Arna, Tinna, Guðrún og Barbara.  14. september 2015

Kæru foreldrar 

Búið að vera nóg að gera hjá okkur síðustu vikur, við höfum verið að vinna verkefni tengd haustinu (þau eru í glugganum  inni á deild, megið endilega koma inn fyrir og kíkja). 

Bangsaverkefnið er í fullu gangi og byrjaði Lundahópur að sauma sína bangsa í morgun, vonandi náum við að klára alla bangsana fyrir bangsadaginn í þar næstu viku. 

Halloween er svo í lok október og ætlum við að skreyta deildina okkar aðeins með myndum tengda því, erum byrjuð að mála drauga, leðurblökur og grasker.

Það er nóg framundan hjá okkur, næsta föstudag er bleikur dagur og hvetjum við alla að mæta í einhverju bleiku.

Þessa dagana er pollagallaveður og er því mikilvægt að börnin séu með hlý föt innan undir og auðvita tékka reglulega á aukafatakassanum.

                 Bestu kveðjur af Rjóðri Harpa, Arna Lind, Tinna og Guðrún Elín

 

16.október  Bleikur dagur  - hvetjum alla að mæta í einhverju bleiku

26.október  Bangsadagur - má mæta í náttfötum og með bangsa

30.október  Halloween (Búningadagur) – má mæta í búningJúlí 2015

Kæru foreldrar

Fréttir af Rjóðri eru þær helstar að Götuleikhúsið kom í dag. Á morgun förum við í Guðmundarlund kl. 9.00 og verðum komin heim um kl. 14.00.

Eftir sumarfrí hittumst við á Rjóðri kl. 13.00 og förum svo á Tjörn 11. ágúst, það koma 5 strákar af Hlíð til okkar þannig að það verða 22 börn á deildinni næsta vetur. Við starfsfólkið ætlum að halda áfram með börnin ykkar næsta vetur.

Höfum það gott í sumar

Kveðja starfsfólk Rjóðurs6. febrúar 2015

Góðan dag kæru foreldrar!


Í dag 6. febrúar verður dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins. 6 febrúar er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.

Leikskólar hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti. Gaman væri að sjá sem flesta segja frá á heimasíðu leikskóla og sveitafélaga hvað á að gera í leikskólum í tilefni dagsins. Einnig bendum við á hugmyndabanka á heimasíðu FL. Þar má sjá hvað gert hefur verið á degi leikskólans síðustu ár en jafnframt hvetjum við starfsfólk leikskóla til að koma með nýtt innlegg í hugmyndabankann.

 

Við á Baugi höldum upp á daginn með því að vera með sýningu í andyri Salalaugarinnar.  Þar eru verk frá öllum deildum og fá þau að hanga þar í minnsta kosti viku.  Gaman væri ef allir foreldrar gætu farið með börnunum sínum og skoðað sýninguna! 

 

Við höfum verið að vinna með þorrann upp á síðkastið og er þeirri vinnu að mestu lokið en þar sem dymbilvikan er á næsta leiti ætla börnin að fara í framleiðslu á bolluvöndum og gera eitthvað fleira skemmtilegt.

 

Nú er Bogga mætt aftur til starfa og þá hverf ég til annarra starfa í húsinu. Þá er loksins öllum starfsmannabreytinum á deildinni lokið og því verða Bogga, Perla, Anna Marín og Gugga á deildinni!

 

Kærar þakkir fyrir samvinnuna

 

Kveðja, Ásdís


8. október 2014

Við erum að vinna með þróunarverkefnið okkar erum að skoða og upplifa okkar nánasta umhverfi fórum t.d. í gönguferðir að heimilum barnanna. Í þeim ferðum er margt sem vekur óvænta athygli t.d. elti köttur okkur, ánamaðkar, rusl – þó að ruslafatan sé rétt hjá.

Fréttir af eldgosinu hafa vakið athygli barnanna, ræddum það og máluðum myndir.

Rigning undanfarna daga hefur gefið okkur tækifæri til að sulla og drullumalla í útieldhúsinu okkar. Við máluðum með bleki , sand og lími.

En umfram allt, alltaf jafn gaman hjá okkur þó svo veðurguðirnir séu okkur ekki sérstaklega hliðhollir.

Kveðja Rjóður


16. september 2014

 Nú er stöðvavinnan okkar farin af stað og er þannig að annar helmingurinn af börnunum er úti á meðan hinn er í stöðvavinnu. Stöðvavinnan byrjar upp úr klukkan 9 og skiptir miklu að börnin séu komin tímanlega!  Í Bangsahóp eru Árni Bergur, Brynjar Ingi, Emilía Rós, Eva María, Gústaf Emil, Kristín Míla, Óðinn Jarl og Tinna Líf.   Í Blómahóp eru svo Árni, Bryndís Eva, Gabríel Logi, Gunnar Bergvin, Elmar Smári, Inga Malín, Marten Leon, Sebastían Máni, Ástrós María.  Aðra vikuna er hvor hópur inni fyrir hádegi og eftir hádegi hina vikuna. 

Við erum líka byrjuð að fara í íþróttatíma alla föstudaga og skiptum börnunum í þrennt í þeim tímum svo þau geti notið sín betur. Við byrjum klukkan 8:30 og þá eru Óðinn Jarl, Ástrós María, Inga Malín, Gústaf Emil og Árni.  Klukkan 9:30 eru það Gabríel Logi, Gunnar Bergvin, Elmar Smári, Brynjar Ingi, Emilía Rós og Kristín Míla.  Síðasti hópurinn  byrjar klukkan 10:30 og þá eru það Árni Bergur, Eva María, Bryndís Eva, Marten Logi, Sebastían Máni og Tinna Líf.

Endilega verið komin með börnin tímanlega svo þau missi ekki af sínum hóp!

Að lokum er tvennt sem mig langar að tæpa á, annars vegar að allir verði duglegir að merkja fatnað barnanna sinna, hvort sem um ræðir úlpur, skó, stígvél, galla eða annað.  Ansi mikið af fötum eru með miðum sem hægt er að merkja beint inn á og svo er auðvitað alltaf hægt að kaupa sér miða til að setja inn í fötin.  Það seinna sem mig langar að ræða er það að þið virðið vistunartíma barnanna, þar sem við röðum starfsfólki inn á deildir eftir því hversu mörg börn eru.  Enginn starfsmaður á deildinni er t.d. að vinna til 17:00 þar sem ekkert barn á Rjóðri hefur lengri vistunartíma en til 16:30.  Ef eitthvað kemur upp á sem veldur því að þið komið of seint, endilega látið vita með því að hringja í okkur.  Það er því miður samt ekki hægt að hringja beint inn á deild svo best er að hringja í aðalnúmerið 5704350 og láta vita.

(Að sjálfsögðu eru flestir foreldrar að standa sig í þessu svo þið takið þetta bara til ykkar sem eigið) ;)

Kær kveðja, kennarar á Rjóðri

 

10. júní 2014

Sæl og blessuð!

Í síðustu viku vorum við mikið úti að leika. Veðrið var mjög milt og gott og var ýmislegt brallað, eins og að kríta, sulla, bílaleikur o.fl. 

Á fimmtudaginn(12. júní) ætlum við að skella okkur í vettvangsferð að skoða fuglana á Kópavogstjörninni. Börnin þurfa að vera mætt um 9:00 því við tökum strætó um 9:30.

Á föstudaginn(13. júní) er hjóladagur. Þá mega börnin koma með hjólin sín í leikskólann. Munið að merkja hjólin og hjálmana. 

Við viljum biðja ykkur um að athuga aukafatakassa barnanna því sumum vantar aukaföt. Einnig viljum við minna ykkkur á að bera sólarvörn á börnin á morgnana. Við berum svo á þau eftir hádegi. 

Með bestu kveðju, 

Kennarar á Rjóðri 


30. maí 2014

Myndir frá Ormadögum og fl.

 

 

14. maí 2014

Sæl og blessuð

Við erum búin að bralla ýmislegt eftir Páska t.d. fara í Tívolí og í stöðvavinnunni höfum við m.a. verið að skoða sólkerfið og himingeiminn. Veðrið hefur líka verið nokkuð gott svo við erum búin að vera mikið úti að leika og það er komin sumarstemmning í hópinn :) Í næstu viku stendur til að fara í vettvangsferð á fimmtudeginum þ.e. 22.maí, ætlunin er að kíkja á Bókasafn Kópavogs en þar standa yfir svokallaðir Ormadagar. Föstudagurinn 23. maí er skipulagsdagur og leikskólinn lokaður. 

Það eru komnar myndir inn á myndasíðuna frá m.a. Tívolíferðinni 

Með bestu kveðju, kennarar á Rjóðri

16. apríl 2014

Gleðilega páska. Hafið það gott í páskafríinu.
17.-21. mars 2014

24. janúar 2014

Sæl og blessuð!

Til hamingju með bóndadaginn kæru feður.

Nú er allt komið á fullt hjá okkur aftur. Í stöðvavinnunni höfum við verið að teikna og mála myndir af hestum og kanínum, en nýju nöfnin á hópunum okkar eru Hestahópur og Kanínuhópur. Við höfum einnig verið að föndra óróa til að skreyta leskrókinn okkar sem við breyttum aðeins í síðustu viku.  

Á næsta fimmtudag ætlum við að halda lítið þorrablót og höfum við verið að undirbúa það. Við erum búin að mála víkingakórónur og hefur lagið Þorraþræll verið alls ráðandi í söngstundum. Það er ekki langt í að börnin „masteri“ lagið, en þau eru ótrúlega söngelsk og fljót að ná bæði textum og laglínum.

Síðast en ekki síst viljum við minna á foreldraviðtölin sem verða 31. janúar og 7. febrúar. Timasetningar voru settar í hólf barnanna, en einnig má sjá tímana hjá samskiptatöflunni á Rjóðri.   

Með bestu kveðju,
Kennarar á Rjóðri

 

20. desember 2013

Sæl og blessuð.

Þessi vika er búin að vera mjög róleg og notaleg hjá okkur á Rjóðri. Við erum búin að jólaföndra, spila jólspil, syngja jólalög og gera margt fleira skemmtilegt.

Þann 23. desember er skipulagsdagur og er leikskólinn lokaður þann dag.

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hafið það rosalega gott yfir hátíðirnar.

Jólakveðja,

Gerður, Gunnar og Inga Dóra

 

11. desember 2013

Sæl og blessuð!

Kærar þakkir fyrir komuna í ljósagönguna, gengið var um garðinn og sungið eitt jólalag. Síðan var farið inn í heitt kakó og smákökur.

Þessa dagana erum við að klára jólagjafir barnanna til foreldra. Þær fara heim á næstu dögum.

Við erum með okkar eigið jóladagatal á Rjóðri þar sem við opnum glugga á hverjum degi og þar inn í er miði með jólalagi sem við syngjum svo saman.

Við ætlum að njóta næstu daga í rólegheitum og njóta aðventunnar.

Nýjar myndir eru komnar á heimasíðuna.

Með bestu kveðju,

Kennarar á Rjóðri

 

14. nóvember 2013

Sæl og blessuð!

Síðustu vikur hafa börnin unnið í því að búa til regnstokk. Nú hafa öll börnin klárað að búa sinn til og eru þau búin að prufa að nota regnstokkana saman á tónlistarstöð. Þetta er búin að vera mjög skemmtileg vinna og allir eru mjög glaðir með nýja hljóðfærið sitt. Regnstokkurinn mun síðan koma heim með þeim á næstu dögum.

Nú var að byrja hjá okkur á Baugi hann Tómas sem er íþróttafræðingur og mun hann sjá um tímana í Turninum. Við á Rjóðri höfum því fengið breyttan tíma í Turninum. Ljónahópur hefur tíma á föstudögum kl. 8:45-10:10 og kisuhópur á föstudögum kl. 10:15-11:35. Hádegsimatnum hjá okkur á föstudögum mun því seinka smá og verður framvegis klukkan 12:00.

Með bestu kveðju,

Kennarar á Rjóðri

 

 

18. október 2013

Sæl og blessuð!

Í stöðvavinnu í vikunni var í boði að gera regnstokk. Regnstokkur er hljóðfæri sem myndar rigningarhljóð. Börnin voru öll mjög áhugasöm og vilja þau öll gera regnstokk. Við munum því halda áfram að vinna með það næstu daga.

Það hafa orðið smá breytinar á tímasetningu í Turninn. Tíminn sem við höfum haft seinnipart fimmtudags færist fyrr á deginum. Nú munu bæði kisu- og ljónahópur fara í turninn fyrir hádegi á fimmtudögum í hverri viku.

Við viljum minna ykkur á að börnin mega taka bók, geisladisk eða bangsa í leikskólann. Biðjum við ykkur því um að geyma allt annað dót heima fyrir, ekki í hólfum eða skúffum barnanna.

Með bestu kveðju,

Kennarar á Rjóðri

 

26. september 2013 

Sæl og blessuð!

Nú hafa orðið starfsmannabreytingar hjá okkur á Rjóðri. Hún Hjördís er að hætta á Baugi og þökkum við henni kærlega fyrir samstarfið. Nýr starfsmaður er Gunnar og bjóðum við hann hjartanlega velkominn til starfa.

Í síðustu viku skelltum við okkur í göngutúr. Við röltum yfir á tún sem er rétt hjá leikskólanum og fórum í marga skemmtilega leiki, eins og "Í grænni lautu" og "1,2,3,4,5 Dimmalimm.

Í stöðvavinnunni æfði Ljónahópur sig í að klippa og skrifa nafnið sitt, en Kisuhópur skellti sér í tónlistarstund, þar sem spilað var á hin ýmsu hljóðfæri.

Með bestu kveðju,

Kennarar á Rjóðri

 

17. september 2013

Sæl og blessuð.

♫ Nú er úti norðanvindur, nú er hvítur Esjutindur ♫
Nú er farið að kólna og því væri gott ef allir mættu með kuldagallann, kuldaskóna og húfu. Muna að merkja allt vel og vandlega.

Í stöðvavinnunni höfum við verið að gera sjálfsmyndir og er virkilega gaman að sjá framfarirnar.

Í samverustund höfum við rætt mikið um daga, mánuði, árstíðir og klukkuna og skiptum við um dag og dagsetningu á hverjum degi á spjaldi sem er uppi á vegg hjá okkur.

Í söngstund vorum við að byrja læra lagið Lítill Fugl og nú förum við einnig að rifja upp haustlögin. Það er komið hljómborð á deildina og hafa börnin fengið að spila og þykir mjög gaman. Það er alltaf gaman að heyra í nýjum hljóðfærum og enn skemmtilegra að fá að spila sjálfur.

Bestu kveðjur,

Kennarar á Rjóðri

 

5. september

Sæl og blessuð,

í vikunni byrjuðum við í stöðvavinnu og gengur það mjög vel. Í stöðvavinnu er val um 2-3 stöðvar og velja börnin eina stöð eftir áhuga til að vinna verkefni á. Við höfum verið að vinna verkefni með nafnið okkar og fyrsta stafinn í nafninu okkar. Við höfum einnig verið að leika með polydron kubba sem börnunum þykir mjög skemmtilega að vinna með.

Í söngstund erum við að læra lagið Glaðasti hundur í heimi sem Friðrik Dór syngur. Þetta er mjög skemmtilegt lag og öll börnin strax farin að taka vel undir í söngnum.

Við viljum minna á töfluna okkar þar sem við skrifum ýmsar upplýsingar t.d. um hvað við erum að gera yfir daginn.

Bestu kveðjur,

kennarar á Rjóðri

 

28. ágúst

Sæl og blessuð!

Fyrstu vikurnar hafa gengið mjög vel á Rjóðri og er allt að komst aftur í rútínu. Það hafa orðið nokkrar starfsmannabreytingar. Sandra okkar hætti fyrir viku og þökkum við henni kærlega fyrir samstarfið. Nýr starfmaður hjá okkur er Gerður, en hún var að koma úr fæðingarorlofi og bjóðum við hana velkomna til okkar á Rjóður.

Síðustu tvo daga höfum við verið að aðlaga þrjú ný börn og hefur það gengið mjög vel. Við bjóðum Árdísi Emblu, Björgvin Nóa og Ernu Lind hjartanlega velkomin á Rjóður.

Hér eru myndir af börnunum í leik og starfi.

Með bestu kveðju,
Kennarar á Rjóðri

 

29. maí

Sæl og blessuð.

 ♫ Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag. Brosir veröld víða, veðurlagsins blíða eykur yndishag. ♫

Nú er sólin loksins farin að láta sjá sig og tími kuldagallans liðinn í bili. Í sumar væri gott að hafa þessa hluti í hólfinu: Pollajakka og pollabuxur, stígvél, strigaskó, flíspeysu og flísbuxur, sumarjakka, buff eða sumarhúfu og vettlinga.

Í síðustu viku fórum við í mjög skemmtilega vettvangsferð í menningarmiðstöðina Gerðuberg að skoða fuglasýningu. Þar var tekið gríðarlega vel á móti okkur og gengið með okkur um alla sýninguna. Við sáum fugla úr leir, pappír og vírum, ljósmyndir, vídeómyndir, uppstoppaða fugla og margt fleira spennandi. Ferðin gekk mjög vel og voru börnin til fyrirmyndar.

Það hafa orðið starfsmannabreytingar hjá okkur á Rjóðri. Unnur okkar er komin í leyfi fram að fæðingarorlofi og verður hennar sko sárt saknað. Helga verður í 100% starfi hjá okkur í sumar og bjóðum við hana hjartanlega velkomna til okkar.

Nú erum við loksins komnar með samskiptatöflu sem er staðsett strax þegar komið er inn á Rjóður. Þar munum við skrifa allar helstu upplýsingarnar um daginn og ef eitthvað er á döfinni. Verið dugleg að kíkja :)

Bestu kveðjur,
Kennarar á Rjóðri

13. maí

Sæl og blessuð

Það var reglulega gaman að sjá svona marga á Opna húsinu núna um daginn. En eins og sást á verkum barnanna þá er þemað í stöðvavinnunni undanfarið búið að vera fuglar. Okkur langar til að halda ef til vill eitthvað áfram með það ef áhuginn er fyrir hendi. T.d. væri gaman að fara í aðra vettvangsferð, þá jafnvel á Náttúrufræðistofu Kópavogs eða einhverja sýningu tengda fuglum.

Núna eru við öll rosalega glöð að sólin sé farin að láta sjá sig og erum mikið úti, það er svo gaman. Börnunum finnst líka mjög ánægjulegt að þurfa ekki að klæða sig í kuldagalla eins og þau hafa reyndar þurft síðustu vikur þó að fyrsti sumardagur sé löngu liðinn. Hægt er að sjá nýjar myndir á myndasíðunni, við verðum svo duglegar að setja inn skemmtilegar útimyndir á næstunni.

Í síðustu viku fannst börnunum kominn tími til að syngja, Ég á líf. Það verður eflaust sungið nokkrum sinnum í vikunni, enda styttist í stóru keppnina ;)

Bestu kveðjur

Inga Dóra, Sandra og Unnur Arna

22. apríl

Eftir að við fórum í vettvangsferð að gefa fuglunum á Kópavogstjörninni brauð um daginn, höfum við mikið verið að skoða og spjalla um fugla. Börnin skoða fuglabækur og búa til sinn eigin fugl, við ætlum að vinna áfram með þetta fuglaþema og sjá hvert það leiðir okkur. Börnin eru áhugasöm og vonandi sjáum við nú fleiri fugla á sveimi með hækkandi sól.

Nú eru börnin búin að mæta tvisvar á skemmtilegt tónlistarnámskeið og hægt er að sjá flottar myndir af þeim á myndasíðunni :)

Bestu kveðjur

Inga Dóra, Sandra, Unnur og Hjördís

  

11. apríl 2013

Það er búið að vera mikið um að vera þessa vikuna. Á mánudaginn byrjuðum við á tónlistarnámskeiði og skemmtu börnin sér mjög vel. Við lærðum ný lög, fengum að spila á hljóðfæri, ásamt því að hitta nokkra drauga og stóra svarta könguló. Við verðum á þessu námskeiði næstu 5 mánudaga kl. 10:00.

Í dag skelltum við okkur í strætóferð og fórum að gefa öndunum á tjörninni í Kópavogi brauð. Þetta var mikil ævintýraferð. Við sáum fullt af margs konar fuglum, skoðuðum íþróttavelli og lékum okkur í leiktækjunum fyrir utan Smáraskóla. Börnunum fannst æðislegt að gefa fuglunum brauð og voru frekar súr þegar brauðið kláraðist.

Bestu kveðjur,

Inga Dóra, Sandra, Unnur Arna og Hjördís.

 

 

25. mars

Tíminn flýgur áfram og vorið nálgast. Við erum farin að syngja vorlög í samverustundum í stað vetrarlaganna okkar, börnin njóta þess að fara út í sólina þó enn sé dálítiði kalt. Í síðustu viku var föndrað páskaskraut til að taka með heim og skreyta :) Allt gengur sinn vanagang hér á Rjóðri, báðir hóparnir fóru í göngutúr í þessum mánuði. Fiskahópur kíkti í Magnúsarlund og Fuglahópur gekk um hverfið og börnin léku sér í leiktækjunum við Hörðuvallaskóla. Við erum núna aðeins að brjóta upp skipulagið í matartímunum, börnin hafa nánast setið við sama borðið í allan vetur en núna stokkuðum við þessu upp til tilbreytingar. Nýjar myndir eru komnar á myndasíðuna, þar er m.a. hægt að sjá myndir frá göngutúr Fuglahóps, páskaföndri, stöðvavinnu og mörgu fleiru. 

Gleðilega Páska

Bestu kveðjur

Inga Dóra, Hjördís, Sandra og Unnur

 

23. janúar 

Sæl og blessuð!

Í gær fórum við í strætóferð upp á Lindasafn. Þetta var mjög skemmtileg ferð og stóðu börnin sig gríðarlega vel. Voru svo dugleg og góð. Fólkið á bókasafninu las fyrir okkur tvær skemmtilegar bækur og þegar sögustundinni lauk fengu allir að labba um og skoða bókakostinn á safninu.

Það er margt spennandi um að vera á næstunni. Í tilefni af bóndadeginum, föstudaginn 25. janúar, ætlum við að bjóða öllum pöbbum og öfum í heimsókn og þiggja síðdegishressingu með okkur á milli 15:00-16:00. Það væri mjög gaman ef allir karlmenn stórir sem smáir kæmu með bindi eða slaufu :D

Í næstu viku, 28. janúar-1. febrúar, ætlum við að hafa smá víkingaþema í tengslum við Þorrann. Við munum mála og skreyta víkingakórónur og skoða fatnað  og skart víkinga, syngja þorralög o.fl.  Á föstudeginum verður svo þorramatur með öllu tilheyrandi.

 

Með bestu kveðju,

Inga Dóra, Sandra, Unnur Arna og Hjördís

 

5. febrúar

Í síðustu viku héldum við upp á Þorrann með því að hafa víkingaþema alla vikuna. Við skoðuðum bækur og ræddum saman um fólkið í gamla daga og m.a. hvað það borðaði. Við enduðum síðan vikuna á að gæða okkur á þorramat, hangikjöti, slátri, sviðasultu, hrútspungum, hákarli, harðfisk og meðlæti. Börnin voru dugleg að smakka það sem var á boðstólnum og mörg hver báðu um meiri hákarl og sviðasultu :) Endilega kíkjið á myndirnar, þær segja meira en mörg orð.

Í dag fórum við með strætó upp í Salalaug og hengdum þar upp listaverk eftir börnin. Dagur leikskólans er á morgun 6. febrúar og var því sett upp sýning í Salalaug með verkum eftir öll börn leikskólans. Sýningin verður þar í tvær vikur. Strætóferðin gekk vel í dag og börnin voru stolt og ánægð með verkin sín. Það er alltaf gaman að fara í strætó, þó ökuferðin hafi verið stutt að þessu sinni :)

Í dag og í gær hafa börnin notið þess að leika úti í góða veðrinu og góða snjónum. Næstu dagar verða m.a. nýttir í að búa til bolluvendi fyrir næstu viku, en það er aldeilis spennandi vika: bolludagur, sprengidagur og síðast en ekki síst öskudagur. Á öskudaginn verður furðufataball og eru kennarar og börn þegar farin að ræða í hvaða furðufötum eða búning þau ætla að klæðast :) Svo vorum við að byrja æfa nýtt lag, eurovisionlag okkar Íslendinga í ár, Ég á líf. En það var greinilegt að margir höfðu horft á keppnina og höfðu sínar skoðanir á hvaða lag var best ;)

 

Bestu kveðjur

Inga Dóra, Hjördís, Sandra og Unnur

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica