Sími  4415600 / 8666926

Foss

Deildin Foss

Fréttir

Febrúar 2017

Lífið gengur sinn vanagang hérna hjá okkur á Fossi.

Börnin hafa verið upptekin við að gera verkefni, bæði fyrir bónda- og konudaginn og sýninguna í Salalaug.

Núna erum við að vinna að því að búa til bolluvendi, byrja á páskaskrauti og vinna verkefni sem tengist Vináttuverkefninu okkar og svo er Lubbi alltaf til staðar hjá okkur. Í þessari viku erum við að vinna með L-hljóðið og að auki höfum við verið að skoða andheiti og samheiti.

Við ætlum að fara í vettvangsferðir í næstu viku í Salalaugina til að skoða verkin sem eru til sýnis þar. Planið er að stelpurnar fari í ferð saman á þriðjudeginum og stefnum við að því að leggja af stað 9:30. Strákarnir fara svo á fimmtudeginum og leggjum við þá líka af stað 9:30.

Foreldraviðtölin munu síðan vera hjá okkur í lok mars og mun ég sendi ykkur bráðlega nákvæmar tímasetningar hjá hverju og einu barni.

Kveðja

Kennarar á Fossi


September

Komið þið öll sæl og blessuð.

Núna er haustið heldur betur farið að minna á sig hjá okkur.

Við erum því að fara út í alls konar veðrum og því mjög mikilvægt að börnin séu með viðeigandi fatnað.

Þau þurfa að hafa regngalla, regnvettlinga, hlýja vettlinga (sumir regnvettlingar eru með flís inn í og er það þá alveg nóg), hlýja sokka (sérstaklega ef stígvélin eru ekki fóðruð), hlýja peysu og hlýjar buxur. Góð úlpa og góðir skór eru einnig nauðsyn. Síðan þurfa þau helst að hafa bæði létta húfu og þykka góða húfu. 

Ég vil líka minna ykkur á að fötin þeirra geta oft verið inn í þurrkskápnum í lok dagsins og því gott fyrir ykkur að kíkja í hann þegar þið sækið börnin.

Einnig er mikilvægt að þau séu með nóg af aukafötum. Þau eru oft að blotna í gegn eftir útiveruna og því nauðsynlegt að þau geti skipt um föt. Það gæti líka verið sniðugt að merkja fötin þeirra (þá meina ég ekki bara útifötin) því sérstaklega sokkar og buxur eiga það til að lenda í þurrkskápnum ef það blotnar og erfitt fyrir okkur að muna hvaða börn eiga hvaða föt.

Bestu kveðjur,

Kristín Arna

Ágúst

Núna er nýtt skólaár að hefjast hjá okkur og erum við búin að vera upptekin við það að kynnast hvort öðru og nýrri deild.

Aðlögunin hefur gengið mjög vel og er þetta allt að smella saman hægt og rólega.

Það eru nokkur atriði sem ég vil koma inn á.

Það væri frábært ef börnin gætu verið með brúsa hérna í leikskólanum. Við leggjum mikla áherslu á að þau hafi alltaf aðgang að vatni yfir daginn og hefur því verið gott fyrir þau að hafa brúsa inn á deildinni. Það þarf að merkja brúsann vel.

Við erum ennþá að finna út hvernig er best að raða hólfunum og því getur verið að þau færist eitthvað til á næstu dögum. Það er aðallega gert í tilliti til í hvaða hóp barnið er upp á hvenær þau fara í útiveru. Þið afsakið þann rugling.

Við erum að prófa nýtt fyrirkomulag í sambandi við hólfin og er komið ský fyrir ofan myndina á barninu. Þar munum við skrifa skilaboð eins og ef það vantar eitthvað og annað. Þarna getið þið líka skrifað skilaboð til okkar (t.d. ef þið viljið að barnið sé klætt í eitthvað ákveðið og annað). Það mun vera penni þarna frammi sem er hægt að nota. Einnig erum við að prófa okkur áfram í því að notast við plásturlímmiða. Það er límmiði sem við hengjum á hólfið ef barnið hefur meitt sig yfir daginn (þá erum við að tala um meiðsli sem er ekki nauðsynlegt að hringja og tilkynna sérstaklega). Þetta gerum við til að reyna að tryggja það að upplýsingarnar komist örugglega til skila. Þið getið síðan komið með plásturslímmiðann til einhvers starfsmanns og fengið betri útskýringar á hvað gerðist.

Aukafatakassinn er frammi á gangi hjá okkur efst í hólfinu og ætlumst við til þess að þið sjáið að mestu um það að það vanti ekki neitt í kassana. Það er því gott ef þið gætuð kíkt í hann á föstudögum til þess að athuga hvort það þurfi að koma með eitthvað fyrir næstu viku.

Dagskipulagið er með aðeins öðrum hætti núna á þann hátt að við borðum hádegismat klukkan 12 núna og erum því ekki að fara í hvíldina fyrr en 12:40. Það er því allt í ró á deildinni frá 12:40 til sirka 13:30 og því hentar best ef það er ekki mikið verið að hringja eða koma á þeim tíma, þó það séu að sjálfsögðu stundum undantekningar

Kveðja Krístín

18. mars

Kæru foreldrar,

nú eru börnin búin að nefna bangsana sína og búa til hús fyrir þá úr mjólkurfernum. Við erum byrjaðar að vinna með spjöldin sem fylgdu í verkefnatöskunni og eru börnin mjög dugleg og áhugasöm að taka þátt í umræðum um þau. Við erum aðeins byrjuð með vinanuddið, þá les kennari stutta sögu og börnin eru tvö og tvö saman og gera léttar nuddhreyfingar á bak hvors annars eftir fyrirmælum kennara.

Í vetur höfum við verið að lesa Benedikt búálf fyrir börnin, rætt orð í sögunni og þau hafa teiknað persónur úr sögunni. Í gær enduðum við svo ævintýri hans með því að horfa á ævintýrið um Benedikt búálf og félaga í sjónvarpinu.

Síðustu daga höfum við verið að gera ýmislegt páskaföndur og svo er spilaæði hjá börnunum, þau velja sér mikið spil þessa dagana.

Á síðasta skipulagsdegi fengum við fyrirlestur frá Hugarfrelsi þar sem við fengum fræðslu um slökun fyrir börn. Við á Fossi erum því byrjuð að æfa okkur í djúpöndun og höfum slökunartíma einu sinni í viku. Þá leggjast börnin og hafa augu lokuð, kennari les slökunarsögu með slökunartónlist í bakgrunni.

Nú þegar snjórinn er að mestu farinn þá er gott fyrir börn að hafa létta vettlinga í hólfunum sínum, ullarvettlinga eða bómullarvettlinga. Munið svo að hafa ávallt aukaföt í boxunum þeirra (buxur sérstaklega).

Kveðja kennarar á Fossi

2. mars

Kæru foreldrar,

í dag fóru allir á Fossi í smá göngutúr til að finna litlu bangsavini Blæs. Við fundum þá alla í Baugakór rétt hjá klifurgrindinni. Hvert barn fann einn bangsa sem það fær að eiga en bangsarnir eiga heima hjá okkur á Fossi. Bangsarnir fara ekkert heim fyrr en leikskólagöngu barnanna líkur. Nú ætlum við að útbúa hús fyrir þá úr 1. líter mjólkurfernu svo ef þið eigið svoleiðis þá má endilega koma með fernuna í leikskólann.

Kær kveðja Gerður

18. febrúar

Ágætu foreldrar

Veturinn 2016 mun leikskólinn Baugur innleiða Vináttu - verkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í starf leikskólans. Við ætlum að byrja verkefnið á eldri gangi núna á vorönn. Um er að ræða forvarnarverkefni gegn einelti fyrir börn á aldrinum 3- 8 ára.

Efnið heitir á frummálinu Fri for mobberi og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út af Barnaheillum – Save the Children á Íslandi í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.  Vinátta eða  Fri for mobberi  byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu skólastarfinu auk raunhæfra verkefna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Efninu fylgir bangsinn Blær sem er táknmynd vináttunnar auk hjálparbangsa fyrir hvert það barn sem mun vinna með verkefnið.

Leikskólar sem vilja nota efnið þurfa að fara á námskeið til að fá leyfi til að nota það og fóru deildarstjórar á eldri gangi og leikskólastjóri á námskeið og fengu námsefnið í kjölfarið.

Foreldrar geta kynnt sér efnið nánar á vefsíðu Barnaheilla hér: http://www.barnaheill.is/Vinatta

og á dönsku vefsíðunni http://www.friformobberi.dk/fl/.

Kveðja kennarar á eldri gangi

5. febrúar

Kæru foreldrar,

á morgun, laugardag, er dagur leikskólans og í tilefni af því fóru börnin í strætó í dag með verkefni sem voru hengd upp í andyri Salalaugar. Við erum mikið að vinna með vináttuna og því ákváðum við að hafa verkefnið um það.  Endilega farið með börnum ykkar og kíkið á sýninguna, börnin eru mjög stolt af þessu. Allar deildir á leikskólanum eru með sýningu þar.

Börnin hafa verið að búa til bolluvendi fyrir bolludag og taka með heim í dag, föstudag.  Á öskudegi næsta miðvikudag munum við slá „köttinn“ úr tunnunni og skemmta okkur í búningum.

Við kennarar á Fossi viljum þakka körlunum kærlega fyrir komuna á Bóndadag og hlökkum til að sjá konurnar í konukaffinu þann 19. febrúar.

Kveðja kennarar á Fossi

22. janúar

Kæru foreldrar,

við ætlum að breyta smá á eldri gangi og leyfa börnunum að taka pennaveski með í leikskólann en geyma bangsana sína heima, s.s. ekki lengur í boði að vera með bangsa í leikskólanum. Síðustu ár hafa elstu börnin komið með pennaveski í leikskólann ef þau vilja, þá er alveg nóg að koma með það sem er til heima, tréliti, blýant, strokleður, skæri eða bara það sem er til. Þetta er góð leið til að læra að passa upp á hlutina sína. Muna bara að merkja allt. Það mega allir á eldri gangi koma með pennaveski, bæði börn fædd 2010 og 2011.

Næsta þriðjudag þann 26. Janúar er samstarf með Hörðuvallaskóla og börnum fædd 2010.

Þau börn sem fara í heimsókn í Hörðuvallaskóla eru:

Súkkulaðihópur á Mýri, Kanínuhópur á Fossi og Kisuhópur á Tjörn.

Hinir hóparnir verða í leikskólanum og taka á móti skólakrökkum og borða nesti með þeim í matsalnum.

ALLIR KOMA MEÐ NESTI. Börnin koma með nesti að heiman í bakpoka. Vatnsbrúsi (ekki fernudrykki), hollt brauð, grænmeti eða ávextir (má ekki innihalda hnetur).

Þeir hópar sem fara ekki í Hörðuvallaskóla núna fara næst, þriðjudaginn 16. febrúar, við minnum á það betur síðar.

Við viljum biðja ykkur um að kíkja í óskilamunakörfu (í matsal) við förum með það sem ekki er sótt í rauða krossinn næsta föstudag, þann 29. Janúar.

Í skáp við hliðina á þurrkskápum eru skúffur merktar deildunum fyrir óskilamuni úr þurrkskápunum.

Kveðja kennarar á eldri gangi.

11. janúar

Kæru foreldrar,

gleðilegt nýtt ár, börnin hafa haft það mjög gott þessa fyrstu daga á nýju ári og eru mjög kát með að hittast aftur eftir frí.

Í stöðvavinnu höfum við verið að gera áramótamyndir, búið til bækur með formum, leirað, lært um tölustafina og fleira.

Ég vil minna ykkur á að vera dugleg að fylla á aukafataboxin svo börnin þurfi ekki að vera í blautum fötum ef þau blotna í útiveru. Einnig minni ég ykkur á að passa að öll útiföt barnanna séu í hólfum þeirra á hverjum degi, það þarf að passa að þau séu ekki í þurrskáp eða óskilamunum. Börnin fara í þau föt sem eru í hólfum sínum. Föt sem skilin eru eftir í þurrkskáp eru sett í óskilamuni inn í skáp í forstofu.

Ég vil biðja ykkur um að passa upp á vistunartíma barna ykkar, það þarf að vera búið að sækja börnin inn á deild fyrir þann vistunartíma sem þið hafið. Við lokum kl. 16:30 og þá fara kennarar heim, svo það er mjög mikilvægt að börnin séu sótt af deildinni fyrir þann tíma.

Þau börn sem borða morgunmat verða að vera komin fyrir kl. 8:20 til að ná í morgunmatinn.

Samstarf barna fædd 2010 með Hörðuvallaskóla verður: 26. janúar, 16. febrúar, 15. mars og 12. apríl og mun ég minna ykkur betur á það þegar nær dregur.

Það er mikill spenningur hjá börnunum fyrir leikfangadegi sem er á föstudaginn en þá mega þau koma með dót að heiman.

Kær kveðja Gerður

22. desember

Kæru foreldrar,

við á Fossi höfum haft það mjög gott í desember og notið þess að hafa jólamánuð hér í leikskólanum. Við fórum í göngutúr í Magnúsarlund þar sem við kveiktum bál og fengum heitt kakó og piparkökur. Við horfðum á jólaleikrit í boði foreldrafélagsins og var það mjög skemmtilegt. Síðan héldum við upp á jólin hér í leikskólanum með jólaballi og jólahádegismat.

Ég vil minna ykkur á myndasíðuna okkar, við setjum reglulega inn myndir þar

http://baugur.kopavogur.is/myndefni/

Við kennarar á Fossi þökkum ykkur fyrir liðnar stundir og óskum ykkur gleðilegra jóla.

Kær kveðja kennarar á Fossi

4. desember

Kæru foreldrar,

takk fyrir heimsóknina í morgun. Í boði voru piparkökur sem krakkarnir á Baugi hafa verið að baka síðustu daga.

Við á Fossi ætlum að hafa það notalegt á aðventunni, spila jólalög, föndra og leika okkur.

Ýmisir atburðir verða líka og má sjá nánar um það í viðhengi.

Það var ekkert farið í kórinn í þessari viku sökum veðurs (á við börn fædd 2010).

Kveðja kennarar á Fossi

13. nóvember

Kæru foreldrar,

það er langt síðan ég hef sent ykkur tölvupóst og því er þetta langt en ég bið ykkur um að lesa í gegnum allan póstinn.

Bangsadagur og Hrekkjavökudagur í síðustu viku voru mjög skemmtilegir og skemmtu börn og kennarar sér vel.

Við vinnum mikið með náttúruna og erum mikið að vinna verkefni með steinum, greinum, könglum, laufblöðum  ofl. Síðustu vikur höfum við verið að vinna tröllaverkefni, hlustuðum á sögu um tröll,  náðum í steina, bjuggum til tröll og teiknuðum svo mynd af tröllunum.

Elstu börnin á leikskólanum fóru í heimsókn í Hörðuvallaskóla síðasta föstudag og gengu í göngu í hverfinu gegn einelti með öllum krökkunum í skólanum. Allir enduðu í leikjum í kórnum og gekk allt mjög vel. Öll börn fædd 2011 hittust á eldri gangi á meðan og léku sér saman.

Elstu börnin fara í íþróttatíma í Kórnum á þriðjudögum og miðvikudögum. Vegna þess förum við ekki í vettvangsferðir lengur á miðvikudagsmorgnum en bætum þeim þá bara inn á öðrum tímum þegar hentar. Stundum förum við eftir hádegi ef það hentar betur og er því mjög gott að láta okkur alltaf vita ef börnin verða sótt fyrir kl. 15 því stundum förum við með litlum fyrirvara og látum ykkur ekki vita fyrirfram J

Við fórum í gönguferð um daginn og kíktum á heimili barna sem búa í Baugakór, börnunum finnst alltaf mjög spennandi að skoða heimili hvors annars.

Við fórum í strætóferð síðasta fimmtudag í Póstinn á Dalvegi, við vorum að fara með jólamyndir fyrir strætó og einnig sendum við henni Theresu Lilju póst því hún er flutt og hætt í leikskólanum. Börnin fengu að kíkja bakvið og fræðast um starfsemi póstsins og fengu að hjálpa til við að flokka pakka og bréf.

Næstu tvo þriðjudaga (17. og 24. nóvember) verður samstarf við Hörðuvallaskóla og þá daga verða elstu börnin að koma með nesti, sendi nánari upplýsingar um þetta eftir helgi. Þessa daga ætla börn fædd 2011 í heimsókn á Rjóður og Hlíð og leika við jafnaldra sína þar.

Endilega kíkið í þurrkskápinn í lok dags og gangið frá fötum barnanna, hann er oft troðfullur af fötum á morgnana. Við setjum þá fötin í óskilamunaskápinn svo þurrkskápurinn sé tómur fyrir blaut föt dagsins. Munið að hafa vettlinga í hólfum barnanna á hverjum degi því ef það eru ekki vettlingar þar þá eru börnin vettlingalaus í útiverunni, ef þið hafið ráð á þá er gott að hafa aukapar til skiptanna. Einnig vil ég minna ykkur á að hafa alltaf aukaföt í boxunum þeirra, þau eiga það til að blotna mikið eftir útiveru og þá er vont að geta ekki skipt í þurr föt og þurfa að vera í blautum fötum inni.

Það eru smá breytingar á símanúmeralista barnanna og því sendi ég listann aftur með breytingum (eru í rauðum lit)

Ég vil minna ykkur á myndasíðuna okkar, við setjum reglulega inn myndir þar.

http://baugur.kopavogur.is/myndefni/

Kær kveðja kennarar á Fossi

26. október

Kæru foreldrar,

Í dag taka börnin með heim regluna að hlusta, þau lituðu hana í dag.

Við á Fossi erum að æfa okkur í að hlusta á hvort annað.

Þið megið endilega lesa textann á blaðinu með börnum ykkar og ræða regluna.

Ég læt einnig fylgja símanúmeralista barnanna á Fossi, ef eitthvað er vitlaust þá endilega látið mig vita.

Kveðja kennarar á Fossi

9. október

Kæru foreldrar,

Við á Fossi höfum verið að gera ýmislegt síðustu vikur. Leikskólinn okkar varð 8 ára á laugardaginn 3. október og héldum við upp á það síðasta mánudag og fóru þá allir út og sungu afmælissönginn.

Í vetur ætlum við að fara í gönguferðir og kíkja á heimili barnanna á Fossi og erum við búin að kíkja í Ásakór.

Í stöðvavinnu höfum við verið að æfa okkur í tölu- og bókstöfum en við vinnum verkefni tengt því í hverri viku. Við vinnum verkefni í gegnum leikinn og nýtum mismunandi efnivið við úrlausnir verkefna. Í vikunni vorum við að æfa okkur í að telja og notuðum til þess leir.  Einnig lékum við okkur með steina, bjuggum til bókstafi úr litlum steinum og máluðum bókstafi á steina með vatni.

Við kennarar á Baugi fórum á numicon námskeið í Brighton og ætlum við að vinna verkefni tengt því í hverri viku. Numicon er stærðfræðinámsgöng sem hjálpa ungum börnum að skilja hugtök stærðfræðinnar. Þið getið lesið um það hér http://serkennslutorg.is/throskastigin/vitsmunathroskirokhugsun/numicon-staerdfraedi/

Okkur er farið að vanta skyrdollur svo það væri frábært ef þið ættuð eitthvað heima og gætuð komið með, fínt að fá lokin líka.

Það eru smá breytingar á starfsfólki deildarinnar en hún Ásta hættir á Fossi og fer í afleysingar en í staðinn höfum við fengið Telmu til okkar.

Kær kveðja kennarar á Fossi

28. september

Kæru foreldrar

Á morgun þriðjudaginn 29. september ætla börn fædd 2010 að hitta yngstu börnin úr Hörðuvallaskóla í Magnúsarlundi.

Þetta verður fyrsta skipti af mörgum sem við ætlum að hittast vegna samtarfs milli skólastiga.

Börnin verða að vera komin í leikskólann í síðasta lagi kl. 8:30 og með nesti með sér. Nestið má vera ávextir og/eða
grænmeti og vatn í brúsa/flösku,einnig er leyfilegt að taka hollt brauðmeti.

Vinsamlegast passið að nestið sé hnetulaust vegna ofnæmis.

Börnin þurfa að koma með nestið í bakpoka/sundpoka þar sem þau þurfa að bera það sjálf.

Meðan á þessu stendur ætla börnin fædd 2011 að vera saman og njóta þess að leika sér í Turninum og gera fleira skemmtilegt.

Það hafði orðið ruglingur á tölvupóstnetföngum og sum ykkar dottið út. Það er vegna þess að ég fór að notast við sameiginlegan lista frá Guggu aðstoðarleiksstjóra sem var rangur.

Nú er ég búin að laga þetta og samræma svo þetta ætti að vera í lagi núna.

Kveðja kennarar á Fossi

21. september

Kæru foreldrar,

Sinfóníuhljómsveit Íslands býður skólum að sækja um og velja á milli nemendatónleika sem ætlaðir eru mismunandi markhópum. Við á leikskólanum Baugi erum að fara á sýninguna Ástarsaga úr fjöllunum og er sýningin  fyrir börn fædd 2010. Við förum á morgun þriðjudag 22. september með rútu kl. 10:00.

Kveðja kennarar á Fossi

10. september

Kæru foreldrar,

ég vil minna ykkur á leikhúsferð barna fædd 2010 á morgun, föstudag. Börnin þurfa að vera mætt í síðasta lagi kl. 8:30 í leikskólann.

Einnig vil ég biðja ykkur um að vera dugleg að fylla á aukaföt barnanna, svo óþægilegt fyrir börnin að vera í blautum fötum, þau blotna mikið þessa dagana.

Best er að hafa nóg af buxum og sokkum það blotnar helst.

Það þarf líka að passa að öll útiföt barnanna séu í hólfum þeirra á hverjum degi, ekki í þurrkskáp eða óskilamunum. Óskilamunir eru í skáp í fataherbergi og nú þegar er skápurinn fullur.

Ef föt barnanna eru blaut á morgnana t.d. eftir þvott þá er ykkur velkomið að nota þurrkskápinn en bara láta okkur vita að fötin séu þar.

Börnin eru mjög dugleg í útiveru. Þau njóta sín mikið í rigningunni og eru pollar, vatnssull, ormar og rifsber það vinsæla þessa dagana hjá börnunum.

Kær kveðja kennarar á Fossi

4. september

Kæru foreldrar,

nú erum við kennarar á Fossi búnar að gera grófa stundatöflu fyrir veturinn.

Á mánudögum erum við með flæði á eldri gangi þar sem börnin dreifast á milli deilda. Þá er skipt í stelpu- og strákahópa.

Á þriðjudögum erum við með listasmiðjuna.

Á miðvikudögum fara allir á Fossi í vettvangsferðir fyrir hádegi, stuttar eða langar.

Á fimmtudögum erum við með Turninn og Hlutverkakrók.

Á föstudögum erum við aftur með flæði á eldri gangi. Þá myndum við hóp með börnum fædd 2011 á ganginum og fá þau þá tækifæri til að kynnast betur. (Þau eru bara 11).

Við munum setja ljósmyndir af starfinu í vetur á myndasíðu Baugs: http://baugur.kopavogur.is/myndefni/

Síðastliðnar vikur höfum við verið að æfa okkur í nokkrum reglum sem skipta miklu máli í samskiptum barnanna og okkar kennaranna. Þær eru: passa hendur, ganga frá, skiptast á og hlusta. Einnig hafa börnin verið að æfa sig í að fylgja fyrirmælum kennara og erum við öll að hjálpast að við að láta okkur líða vel hér í leikskólanum.

Við höfum verið að vinna með blómin í umhverfinu okkar. Fórum í gönguferð og tíndum blóm. Börnin eru síðan búin að skoða myndir af blómum og læra hvað þau heita. Þau hafa teiknað þau og búið til blóm úr leir. Í hverri viku vinnum við ýmis verkefni tengt íslensku og stærðfræði eins og að læra stafina í nafninu sínu, æfa sig í að telja og spila ýmis spil. Í vikunni fórum við í Magnúsarlund þar sem börnin nutu sín vel í góðum leik. Þau tíndu fullt af könglum sem við notum svo í ýmisskonar verkefnavinnu.

Næsta föstudag munu börn fædd 2010 fara í heimsókn í Þjóðleikhúsið þar sem þeim er boðið að sjá sýninguna Brúðukistuna.

Kær kveðja Gerður, Guðlaug, Saida og Ásta

14. ágúst

Kæru foreldrar,

það er búið að ganga mjög vel á Fossi þessa viku þar sem börn og kennarar eru að kynnast.

Við höfum skipt börnunum upp í tvo hópa:

Kanínuhópur: Alma Rún, Arnar Bjarki, Árni Gunnar, Bjarki Fannar, Brimir Björn, Eydís Enja, Friðrik Þór, Lárus Orri, Natalía Sól, Rakel Heba og Theresa Lilja.

Kisuhópur: Aðalsteinn Egill, Bjarki Örn, Daði Gabríel, Einar Björgvin, Halldóra Salka, Hulda, Ívar Örn, Jón Þorkell, Kári Jökull, Klara Hlín og Viktor Örn

Við höfum bætt í afmælishefð okkar í leikskólanum og það er að börnin mega koma í búning/furðufötum í leikskólann á afmælisdegi sínum.

Börnin mega koma með bangsa, bók og geisladisk í leikskólann. Þau mega vera með þetta allt í einu en aðeins eitt af hverju.

Við viljum minna ykkur á að hafa nóg af aukafötum, þá helst buxur og sokka. Aukaföt eru geymd í skáp í baðherbergi á eldri gangi.

Kær kveðja kennarar á Fossi: Gerður, Guðlaug, Saida og Ásta

8. maí

Kæru foreldrar,

nú eru börnin á Fossi að leggja lokahönd á að búa til húsið sitt, þau ætla að hafa sýningu inni í Turni á opnu húsi þar sem þau endurbyggja hverfið sitt.  Þetta tengist þróunarverkefninu, upplifun og ævintýri, sem við á Baugi höfum unnið að í allan vetur. Við höfum verið að læra mikið um umhverfið okkar nær og fær. Lært um himintunglin, landið okkar og bæinn okkar.

Allir á Fossi fóru í vettvangsferð í Sorpu á Dalvegi þar sem við fengum fræðslu um endurvinnslu. Við á Fossi endurvinnum allan pappír og alla matarafganga. Börnin voru mjög áhugasöm og fannst spennandi á fá að sjá í alla ruslagámana.

Á vorin þá hafa elstu börnin breyst í ævintýrahóp sem Einhyrningahópur hefur nú breyst í. Það verða í raun ekki miklar breytingar í ár nema það að við ætlum að fara í fleiri ferðir út fyrir leikskólann og lenda í eins mörgum ævintýrum og við getum. Einnig mun hákarlahópur líka fara í ferðir og munu hóparnir bæði fara saman og í sitt hvoru lagi.

Varðandi geymslu á hjólum barnanna þá ætlum við að fara að opna hliðargarðinn meira fyrir börnin að leika í og því biðjum við ykkur um að geyma hjól barnanna fyrir utan lóð hjá litla Baug. Það er hlið þar og nóg pláss fyrir hjólin og hægt að læsa við girðinguna.

Kær kveðja kennarar á Fossi.

 

27. mars

Kæru foreldrar,

Í vikunni fóru börnin í Einhyrningahóp (þau eru öll að byrja í skóla í haust) í heimsókn í Hörðuvallakóla. Þar hittum við einn 1. bekk og fengum að vera með í tíma hjá þeim. Kennarinn las í lestrarbók og við gerðum verkefni um stafina í og s. Síðan fengu þau nesti og kennarinn las sögu á meðan. Eftir nesti unnu börnin stafaverkefni í verkefnahefti sem þau fengu. Í lokin fóru allir saman í útivist á skólalóðinni. Þessi heimsókn gekk mjög vel og var kennarinn mjög ánægður með hversu góð og dugleg börnin voru.

Allir á Fossi fóru í gönguferð um hverfið á miðvikudag og við kíktum á nokkur heimili barnanna. Síðar um daginn unnum við verkefni um hverfið okkar. Börnin teiknuðu húsið sitt, skoðuðu kort og bjuggu til hverfið sitt úr kubbum.

Í stöðvavinnu höfum við mest verið að útbúa allskonar páskaföndur.

Kær kveðja Gerður, Jóna Heiða, Saida og Sonja


20. mars

Kæru foreldar,

við höfum verið að vinna ýmis verkefni með plánetur og sólmyrkva síðustu daga. Allir eru mjög áhugasamir og hafa mjög gaman af að fræðast um þetta.  Í dag var svo mikil gleði yfir að dagurinn með sólmyrkvanum væri loksins kominn. Allir fengu að kíkja í sólmyrkvagleraugu og fengu að sjá með berum augum. Við vörpuðum einnig sólmyrkvanum á myndvarpa í matsalnum þar sem við fylgdumst með.

Í vikunni fórum við öll saman á Lindasafn og þar var starfsfólk með sögustund. Síðan fengu börnin að skoða bækur og fannst það mjög gaman.

Börnin eru byrjuð að búa til ýmislegt fallegt páskadót t.d. páskaunga, páskaperl og páskaegg.

Það eru komnar nýjar myndir á myndasíðuna, endilega kíkið og þá sjáið þið meira frá starfinu okkar: http://baugur.kopavogur.is/myndefni/

Nú þegar það er farið að hlýna í veðri og rigningin farin að láta sjá sig þá blotna buxur barnanna mikið í útiveru svo nauðsynlegt er að passa upp á að hafa alltaf aukabuxur í leikskólanum.

Kveðja Gerður, Jóna Heiða, Saida og Sonja

 

6. febrúar

Kæru foreldrar,

Í dag er dagur leikskólans og það má lesa nánar um það hér: http://www.samband.is/verkefnin/skolamal/frettir---skolamal/nr/2287.

Við á Baugi setjum upp sýningu á verkum barnanna í anddyri Salalaugar. Öll verk eru nú komin upp á vegg og hvet ég ykkur foreldra og aðra sem vilja að gefa ykkur tíma í að kíkja á sýninguna. Verkin munu hanga uppi á vegg í einhverjar vikur.

Við á Fossi höfum verið að gera ýmislegt síðustu vikur. Pabbar, afar, bræður og frændur komu í heimsókn á Bóndadag og viljum við þakka ykkur fyrir komuna. Við höfðum Þorrablót hér á leikskólanum þar sem börnin höfðu víkingahatta og skotthúfur  sem þau höfðu gert sjálf. Við vorum með samveru í Turni með eldri gangi og Rjóðri þar sem við fengum fræðslu um þorrann og sungum þorralög.  Í hádeginu var svo þorramatur.

Í stöðvavinnu höfum við verið að vinna að ýmsu:

Börnin bjuggu til kort fyrir pabba sem þeir fengu á Bóndadag. Þau bjuggu til víkingahatta eða skotthúfur. Þau hafa verið að búa til sig sjálf úr pappamassa s.s. litlar manneskjur. Þau hafa verið að þæfa ull og nokkur eru byrjuð að sauma nafnið sitt út með rúnastöfum.

Kær kveðja kennara á Fossi

 

9. janúar

Kæru foreldrar,

gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir liðnar stundir. Við höfum haft það mjög fínt þessa fyrstu viku á nýju ári og allir glaðir að hittast aftur eftir hátíðirnar. Í dag er leikfangadagur og eru börnin að njóta sín mjög vel í leik saman.

Í vikunni hafa börnin verið að æfa sig í bókstöfum og þau æfðu sig í nafninu sínu. Þau æfðu sig í að skrifa nafnið sitt og búa það til með hlutbundnum stöfum (töppum, segulstöfum og plaststöfum). Í útikennslu prófuðum við að setja vatn í form og erum að fylgjast með hvort það frjósi. Einnig fengu börnin litað vatn í brúsa og prófuðu að spreyja/lita snjóinn. Í listasmiðju voru þau að mála og gera áramótamyndir. Öll börnin fóru í Turninn þar sem þau fengu góða og skemmtilega æfingu með Örnu íþróttakennara.

Það kemur oft fyrir hjá okkur að börnin kvarti undan köldum puttum í útiveru. Þau eiga það til að bleyta vettlingana sína mikið og þá verður þeim mjög fljótt kalt á puttunum. Kulda og pollavettlingar eru mjög góðir í svona vetrarveðri og ef þið hafið tök á þá er mjög gott að hafa aukavettlinga í hólfunum. Svo viljum við minna á að aukaföt barnanna eru geymd inni í skáp í baðherbergi á ganginum.  Langoftast vantar börnunum aukabuxur svo það er nauðsynlegt að hafa nóg af þeim í skápnum.

Kær kveðja kennarar á Fossi.

 

19. desember

Kæru foreldrar,

við á Fossi höfum haft það ágætt í desember þrátt fyrir að það hafa verið mikil veikindi starfsmanna (og starfsmannabarna) hér á Baugi. Við erum búin að njóta þessa að hlusta á jólalög og jólasögur, gera jólaföndur og vinna í jólagjöfum til ykkar. Í ár fengu börnin að velja hvað þau vildu gera í jólagjöf til ykkar en þau notuðu öll sama efnivið í grunninn.

Við fórum í vettvangsferð með Rjóðri á Bókasafn Kópavogs og lærðum ýmislegt um jólaköttinn. Við kíktum svo á jólatréð á Hálsatorgi og dönsuðum smá í kringum það. Við héldum litlu jólin hér á Baugi, fórum inn í Turn og hlustuðum á Möggu lesa jólasögu og svo dönsuðum við í kringum jólatréð. Allir fengu jólamat í hádeginu og ís í eftirrétt.

Við kennarar á Fossi viljum óska ykkur gleðilegra jóla og þökkum fyrir liðið ár.

Kær kveðja kennarar á Fossi.

 

14. nóvember

Kæru foreldrar,

í dag heldum við upp á dag íslenskrar tungu sem verður á sunnudaginn. Dagbjört Ásgeirsdóttir leikskólakennari og rithöfundur kom á leikskólann og las upp úr bókum sínum.

Einhyrningahópur fór í fjöruferð í Kópavogsfjöru í síðustu viku og týndu þau fullt af skeljum og steinum í fjörunni. Við ætlum að nota steinana í útikennslu hér í leikskólanum. Gerður ætlar að vera með útikennslu alla fimmtudagsmorgna með Einhyrningahóp. Þá notum við leikskólalóðina bak við hús og gerum ýmis verkefni, Tjörn verður einnig með okkur.

Einhyrningahópur tók þátt í göngu gegn eineltis í síðustu viku. Fyrst fóru þau í heimsókn í 1. bekk í Hörðuvallaskóla og voru með þeim í ávaxtastund. Þar á eftir fóru þau í göngu með öllum frá Hörðuvallaskóla og gengu út í Kórinn þar sem allir fóru saman í leiki.

Börnin á Fossi teiknuðu jólamynd sem þau sendu síðan í pósti til strætó. Strætó mun síðan skreyta einn vagn hjá sér að utan með myndunum.

Við héldum áfram göngu okkar um hverfið okkar og skoðuðum Baugakór í vikunni. Í stöðvavinnu unnum við verkefni tengt hverfinu okkar.

Kær kveðja kennarar á Fossi

 

31. október

Kæru foreldrar,

við á Fossi höfum verið að gera ýmislegt síðustu daga.

Í stöðvavinnu:

Börnin hafa verið að vinna með mynstur og talnaskilning.

Í listasmiðju voru börnin að gera sjálfsmynd úr pappír, garni og pasta. Mála blóm með vatnsblöðrum og teikna beinagrindur.

Börnin í Einhyrningahóp gerðu leikrit/teiknimynd í  forritinu puppet pals í ipad.

Börnin í Hákarlahóp eru að æfa sig í að þekkja nafnið sitt og æfa sig í að skrifa það.

Bangsa- og náttfatadagur var í vikunni og unnu börnin verkefni tengt deginum. Þau leiruðu bangsa á leirstöð, teiknuðu bangsann sinn í listasmiðju og gerðu bangsastærðfræðiverkefni á verkefnastöð.

Allir á Fossi fóru í vettvangsferð í hverfinu okkar og ætlum við að fara og skoða hús/heimili allra barnanna á Fossi í vetur. Í þessari viku fóru við í Ásakór og kíktum á nokkur heimili þar. Í stöðvavinnu unnum við verkefni tengt því. Við vorum með kortastöð þar sem við skoðuðum kort af Íslandi og Kópavogi. Á kubbastöð byggðu börnin bæ, gerðu öll sitt hús og settu svo götur. Börnin í Ásakór skoðuðu húsið sitt og teiknuðu það.

Í dag föstudag voru við á Fossi með Hrekkjavökupartý. Börnin á Fossi hafa sýnt hrekkjavöku og búningum mikinn áhuga í haust svo við ákváðum að nýta þeirra áhuga og halda Hrekkjavökupartý. Börnin skemmtu sér mjög vel.

Kær kveðja kennarar á Fossi

17. október 2014

Kæru foreldrar,

slökkviliðið kom í heimsókn til elstu barnanna á leikskólanum í síðustu viku. Börnin lærðu ýmislegt er varðar öryggi vegna eldhættu og fengu svo að skoða slökkviliðsbílinn.

Í stöðvavinnu síðustu daga höfum við mikið verið að vinna með það sem við höfum tínt í vettvangsferðum, laufblöð, spítur, köngla og sveppi.

Við notum þetta mikið í stærðfræðivinnu og í listasmiðjunni. Í listasmiðjunni hafa börnin verið að búa til spítukalla, mála spítur og vefa garni utan um og setja augu á.

Öll börnin fóru í vettvangsferð hér rétt út fyrir leikskólann og tíndu allir fullt af laufblöðum.

Börnin prufuðu að teikna laufblöð í gegnum blað og mála á laufblöð og stimpla svo á blað. Einnig bjuggu þau til sig sjálf úr laufblöðum með því að raða laufblöðum á bókaplast.

Bleikur dagur var í vikunni og fannst öllum gaman að sjá alla sem mættu í einhverju bleiku.

Jóna Heiða er í fríi í 2 vikur og verður Gunnar hjá okkur á meðan.

Kær kveðja kennarar á Fossi

 

Vikan 29. september - 3. október 2014

Kæru foreldrar,

nú er farið að kólna í veðri og þá er kominn tími á hlýrri útifatnað. Þar sem við erum  oft úti í langan tíma þá skiptir miklu máli að vera vel klædd. Það sem er gott að hafa í hólfum barnanna er: Kuldagalli, regngalli, hlýjar buxur (t.d. flísbuxur), hlý peysa, ullarsokkar, hlý húfa (lambhúshetta eða húfu og þá klút/buff um hálsinn), pollavettlingar, ullarvettlingar, kuldaskór og stígvél (eða fóðruð stígvél). Passið vel upp á að þau passi í ullarsokkunum í stígvélin eða kuldaskónna.

Veðrið í vikunni bauð ekki alltaf upp á útiveru svo við höfðum þá smá videó og frjálsan leik á eldri gangi.

Í stöðvavinnu unnu börnin m.a. með ljósaborð, steina, máluðu í listasmiðju, fóru í holukubba og fóru í íþróttatíma í Turninum.

Afmælisdagur Baugs er 3.október, börnin fengu pizzu og köku í matinn. Þau komu með ýmsar gerðir af höttum og húfum og skemmtu sér mjög vel.

Kær kveðja kennarar á Fossi

 

Vikan 22. - 26. september 2014

Nú er skólaveturinn kominn vel af stað hjá okkur á Fossi. Við höfum notað síðustu vikur í að kynnast hvort öðru og læra hvort á annað, kennarar og börn. Það er oft þannig þegar það eru nýjir kennarar, ný börn og nýr staður að þá þarf að fara vel yfir reglur svo að öllum geti liðið vel. Þetta hefur gengið vel og ætlum við öll á Fossi að vera dugleg að halda áfram að æfa okkur í að vera góð hvort við annað og fylgja reglunum.

Reglurnar okkar sem við erum að læra eru: Hlusta, ganga frá, skiptast á og passa hendur og fætur.

Á miðvikudeginum fóru allir á Fossi og allir á Tjörn í vettvangsferð í Magnúsarlund. Við tíndum ýmislegt sem við fundum og tókum með okkur í leikskólann, t.d. laufblöð, greinar, köngla og sveppi. Í stöðvavinnu voru við með sveppastöð þar sem við rannsökuðum sveppi og könglastöð þar sem unnið var með textíl og stærðfræði.

Börnin fóru öll í íþróttatíma í turninum sem sló í gegn að venju. Börnunum þykir flestum þetta með því skemmtilegasta sem þau gera í leikskólanum.

Í listasmiðju var verið að mála á frauðplast, gera tilraunir með blek og pappír og tálga spítur og mála þær.

Í næstu viku, föstudaginn 3. október, á leikskólinn 7 ára afmæli og þá ætlum við að hafa hattadag þar sem allir mega koma með hatt í leikskólann.

Kveðja allir á Fossi

 

Vikan 15.-19. september 2014

Stöðvavinna í vikunni:

Börnin hafa verið að vinna ýmis verkefni tengt stærðfræði og stöfum.

Ljósaborðið hefur verið mikið notað.

Hákarlahópur var að vinna að klippa og líma verkefnum.

Einhyrningahópur var að vinna með mandölur sem eru hringlaga listaverk.

Arna Lind íþróttakennari var með íþróttir í turninum á fimmtudaginn og voru börnin mjög glöð með íþróttatímann.

Á miðvikudeginum fór Einhyrningahópur í Þjóðleikhúsið á Brúðukistuna. Börnin skemmtu sér mjög vel á sýningunni.

Á föstudeginum fóru allir á Fossi í heimsókn á Náttúrufræðistofu Kópavogs. Við ætlum að vinna úr þeirri ferð í stöðvavinnu í næstu viku.

Kveðja allir á Fossi

 

Vikan 8.-11. september 2014

Stöðvavinna á mánudögum: Þá velja börnin stöð með börnum á Tjörn og kynnast þannig öðrum jafnöldrum sínum. Þá velja börnin eina af eftirtöldum stöðvum: Listasmiðja, vísindasmiðja, skólaverkefni, leir, hlutverkaleikur og playmobil.

Stöðvavinna í vikunni:

Börnin fá að velja sér stöðvar og því er misjafnt hvað börnin eru að gera í stöðvavinnu og eru ekki öll börn að vinna að sömu verkefnum á hverjum degi.

Í vísindasmiðju gerðu börnin tilraunir í sambandi við eldgos og teiknuðum myndir tengdu því.

Í listasmiðju var verið að vinna við að búa til bækur og hanna og klipppa út límmiða (sjá í matsal).

Börnin lærðu stærðfræði með numicon kubbum, léku sér með ljósaborð, sandbakka og steina.

Þau fóru í holukubba í turninum.

Í næstu viku byrjar Arna Lind íþróttakennari með fasta íþróttatíma í Turninum.

Kveðja allir kennarar á Fossi.

   

5. september 2014

Kæru foreldrar,

leikfangadagurinn í dag hefur gengið mjög vel og öll börn dugleg að leika saman með öll leikföngin.

Í stöðvavinnu höfum við verið að vinna með leir, tölurnar, laufblöð og köngla.  Við fórum í vettvangsferð í Magnúsarlund sem gekk mjög vel. Börnin voru öll dugleg að ganga til og frá lundinum og höfðu mjög gaman af að leika þar. Við tíndum fullt af könglum sem við tókum með okkur í leikskólann og ætlum að nota í stöðvavinnu í vetur.

Magnúsarlundur er útivistarsvæði í Vatnsendahlíð og er í næsta nágrenni við Guðmundarlund. Þetta útivistarsvæði er notað í útikennslu í leik- og grunnskólum í hverfinu.

Við á Fossi munum nýta miðvikudagsmorgna í vettvangsferðir. Áætlað er að Einhyrningahópur (börn fædd 2009) fari í ferð á hverjum miðvikudagsmorgni. Áætlað er að Hákarlahópur (börn fædd 2010) munu fara með í ferð a.m.k. tvisar í mánuði. Þessa daga væri því gott að mæta snemma í leikskólann.

Breytingar hafa orðið á kennurum á Fossi.

Gunnar er farinn frá okkur yfir á Hlíð en í stað hans er kominn nýr kennari, hún Elín Ósk.

Elín Ósk er leiðbeinandi sem er í námi í uppeldis- og menntunarfræði og verður hjá okkur á Fossi að hluta til.

Kveðja allir kennarar á Fossi

 

27. ágúst 2014

Skólaárið er hafið af fullum krafti á Foss. Við erum byrjuð á stöðvavinnu sem og byrjuð að fara í vettvangsferðir. Í listasmiðju höfum við verið að skoða náttúruna. Við stúderuðum rifsberjarunna um daginn og teiknuðum litlar runnagreinar eftir fyrirmynd. Eftir að hafa klárað myndirnar gæddum við okkur á ljúffengum rifsberjunum sem voru á greinunum. Við fórum líka í vettvangsferð út fyrir skólalóðina í vikunni. Tíndum nokkrar plöntur sem við ætlum að vinna með og prófuðum að teikna úti í náttúrunni. Restin af vikunni fer svo í að vinna úr þessari fyrstu vettvangsferð vetrarins.

Foss ágúst 2014 - stöðvavinna

smellið á mynd til að sjá myndir.

Kveðja kennarar á Fossi 

 

Miðvikudagur 9. júlí 2014

Sælir kæru foreldrar

Mig langar að þakka ykkur innilega fyrir veturinn og fyrir það að við skulum hafa fengið að vera með þessi dásamlegu börn ykkar!

Þessi árgangur er alveg ótrúlega samheldinn og flottur og við vitum að þau eiga eftir að standa sig stórvel í skólanum J

Í gær fórum við í skemmtilega ferð í flugskólann Þyt og viljum við þakka Stefáni og Katrínu innilega fyrir það boð.

Börnunum fannst þetta skemmtileg upplifun og Gugga er að vinna í því að setja myndir frá ferðinni inn á heimasíðuna.  Hins vegar benti mamma Sigurþórs okkur á að það væri mynd af þeim í morgunblaðinu í dag!  Ég hringdi til þeirra en myndin er háð höfundarrétti, hins vegar fékk ég senda slóð inn á blaðsíðuna og sendi ykkur hana, ég vona að það virki!  Einnig prentaði ég blaðsíðuna út svo þið gætuð séð hana!

Enn og aftur, takk innilega fyrir veturinn og hafið það gott í sumar

Kær kveðja, Ásdís, Bogga, Stella og Aníta.

 

 

Fimmtudagur 26. júní 2013.

Í morgun héldum við loksins hið langþráða fótboltamót!  Við náðum að spila á gervigrasvellinum úti við skóla.

Vorum við með 2 lið og í hvoru liði voru 9 börn. Liðin voru blönduð af báðum Ævintýradeildunum, Fossi og Tjörn. 

Börnin spiluðu tvisvar sinnum 10 mínútur og þetta gekk framar vonum! Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með því 

hversu réttsýn börnin eru, það var sem sagt engin "Hönd Guðs" í þessum leik ;)

Sumir eru með leikaraskapinn alveg á hreinu en við vorum nú fljót að sjá í gegnum það...

Eftir leikinn var frjáls leikur á skólalóðinni en sumir gátu ekki slitið sig frá fótboltanum og héldu áfram þar til haldið var til

baka. Nokkrar myndir eru komnar inn á flickr.com


Kópavogur 20. júní

 Nú líður að lokum leikskólagöngu barnanna ykkar og hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með þeim í gegnum árin.

Flest börnin hætta um sumarfrí eða í þeirri viku og þess vegna sendi ég ykkur þennan póst!

Jóhann hefur sótt um nám í leikskólakennarafræðum í Danmörku og hættir þess vegna og verður síðasti dagurinn hans næstkomandi þriðjudagur 24. júní.

Bogga fer í sumarfrí 27. júní og ég fer í sumarfrí 7. júlí. Svo hættir Aníta hjá okkur um hádegi 9. júlí.

Svo ef það er eitthvað sem þið vilduð ræða áður en börnin hætta, þá vitið þið hvenær við förum!

Að lokum langar mig að þakka kærlega fyrir veturinn, það hefur verið frábært að vinna með börnunum ykkar, þetta er ótrúlega góður hópur.

Fyrir okkur starfsfólkið skiptir líka öllu máli að gott samstarf sé við foreldra og það hefur verið mjög gott í vetur.

Svo takk fyrir okkur, enn og aftur!

..... Við ákváðum að fresta fótboltamótinu sem vera átti í gær, þar sem okkur leist ekkert á það að börnin yrðu hundblaut allan tímann. Í staðinn verðum við í startholunum fyrsta góðviðrisdag í næstu viku! 

Þá er ekkert annað eftir en að biðja um SÓL, SÓL, SÓL!!!.....

 Kær kveðja, Ásdís, Bogga, Stella, Jóhann og Aníta.

 

 

Kópavogur 3. júní 2014

Myndir úr Viðey

 

30. maí 2014

Myndir úr Útskrift

 

 

Kópavogur 20. maí 2014

Í dag fórum við á barnamenningarhátið þar sem við skelltum okkur á Disney tónleika í Salnum, börnunum fannst það frábært. Það hefur eflaust staðið uppúr hjá mörgum að heyra lagið úr Frozen og fá að syngja með. Eftir það fórum við í Molann þar sem við fengum að föndra, börnin taka með sér verkefnið heim úr skólanum í dag. Þetta var vel heppnað í alla staði og endaði ferðin með því að Ármann bæjarstjóri kom og spjallaði við börnin þegar við vorum á leiðinni í strætó.

Það sem er svo á döfinni er það að nú fer í gang svokölluð ævintýradeild hjá okkur á Fossi og Tjörn. Þar af leiðandi breytist aðeins starfið þessar síðustu vikur fyrir sumarfrí. Við munum færa það mikið út og verðum meðal annars með stöðvar á skólalóðinni. Við ætlum einnig að vera mjög dugleg að fara í ýmsar ævintýraferðir. Við köllum þetta ævintýradeild þar sem markmið okkar er að hafa gaman og við ætlum okkur að lenda í ýmsum ævintýrum.

Við á Fossi erum búin að skipuleggja ýmsar ferðir í sumar og verða þær oftast á þriðjudögum og fimmtudögum. Þá daga er því gott að mæta tímanlega í leikskólann. Þetta er allt skipulagt með fyrirvara um breytingar svo endilega verið dugleg að skoða upplýsingatöflu við deildina til þess að fylgjast með ;)

Hér kemur dagsskráin:

22. maí                 Útskriftarferð í Viðey

Viðeyjarferðin – Börnin þurfa að hafa með sér góðan bakpoka. Sundpokarnir með böndunum eru ekki nógu góðir, börnin eiga erfitt með að hafa þá á bakinu. Börnin þurfa að hafa með sér aukaföt þar sem verður farið að vaða og við gætum lent í allskyns ævintýrum. Við viljum biðja ykkur að klæða þau vel eftir veðri þannig að þau séu vel búin í þessa ferð þar sem þetta verður allur dagurinn. Gott væri fyrir börnin að hafa með sér vatn en endilega gætið þess að brúsinn leki ekki ;)

27. maí                 Skógarferð í Magnúsarlund með Tjörn

3. júní                   Ferð á Rútstún og ætlum meðal annars að taka með okkur Kubb (víkinga) spilið.

5. júní                   Gönguferð og leikur á leikskólanum Rjúpnahæð

10. júní                 Elliðavatn

12. júní                 Hlíðargarður og Kópavogstjörn með Tjörn

13. júní                 Hjóladagur

19. júní                 Fótboltamót í Hörðuvallaskóla með Tjörn

24. júní                 Kirkjuholt og náttúrufræðistofa

1.Júlí                     Leikskólalundur (Digranessvæðið)

3. Júlí                    Magnúsarlundur

Bestu kveðjur

Kennararnir á Fossi

 

 

Kópavogur 12. maí 2014

Nú þegar farið er að hlýna viljum við minna ykkur á að setja ALLTAF sólarvörn á börnin ykkar áður en þau koma í leikskólann. Þetta þarf að gera alla daga nema það sé rigning. Við berum svo aftur á þau um hádegið. Þau þurfa líka að fara að koma með þynnri húfu eða buff svo þau séu ekki kófsveitt undan allt of hlýjum húfum!

Endilega kíkið á óskilafatnaðinn hjá okkur því við ætlum að fara með hann í Rauða Krossinn (eða gáminn úti við Samkaup) á mánudag, þann 19. maí!

Um helgina, eða á sunnudaginn klukkan 10 verður svo farið í hina árlegu sveitaferð á vegum foreldrafélagsins. Miðar eru seldir seinni partinn í dag og á morgun og svo aftur á föstudagmorgun, í matsalnum. Endilega kíkið á auglýsinguna! 

Kær kveðja, starfsfólk á Fossi.

 

Góðan dag og gleðilega hátíð öll sömul!

Mig langaði að láta ykkur vita að flest börnin á deildinni teiknuðu jólamynd sem við sendum svo til strætó og þeir skreyttu vagn frá sér með þeim.  Nú hafði ég samband við strætó ef þið vilduð sýna börnunum ykkar þennan ákveðna vagn, sem myndirnar þeirra eru á!

Þetta er svarið sem ég fékk:

Þetta er vagn númer 135, sem ekur leið 3.

Ef þið viljið fá nákvæmari tímasetningar um hvar vagninn er staðsettur yfir daginn er best að hringja sama dag í þjónustuverið okkar í síma 540 2700 

Þið getið einnig séð myndirnar með því að smella á myndina. 

Kær kveðja, Ásdís á Fossi.

 

27. nóvember 2013

Piparkökubakstur

 

24. september 2013

Nú er vetrarstarfið hafið af fullum krafti.  Við höfum skipt börnunum upp í 2 hópa sem heita Skjaldbökuhópur og Risaeðluhópur. 

Í Skjaldbökuhópnum eru:   Birkir Ísak, Birta Sóley, Bjarnheiður, Brynja Dís, Börkur Elí, Eydís Anna, Gísli, Gunnleifur Orri, Thomas Ásgeir, Þorkell og Þórdís Rós.  Hópstjórar eru Ásdís og Jóhann.

Í Risaeðluhóp eru:  Bjarni Gunnar, Hildur Eva, Óttar Örn, Rohan Hinrik, Róbert Ási, Róbert Ívan, Sara Fanný, Signý Rún, Sigurást Júlía, Sigurþór, Viktoría Björk og Þóroddur.  Hópstjórar eru Bogga og Stella.

Við förum á hverjum miðvikudegi í Skógarferð og þá fer annar hópurinn okkar með öðrum hópnum af Tjörn.  Við stílum á að geta farið í þessar ferðir í Magnúsarlund en það getur þó breyst eins og gerðist í síðustu viku.  Þá komumst við að því að leikskólinn Kór væri með 80 börn þar svo við hættum við en nýttum tækifærið til að fara í lúpínuskóg sem við vorum að ganga fram hjá.  Börnin kölluðu þetta „Álfaskóg“ og skemmtu sér konunglega við að leita að fótsporum og gera fleira skemmtilegt.

Við erum með stöðvavinnu þrisvar sinnum í viku þ.e. þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga fyrir hádegi.  Þar vinnum við einnig með einn hóp frá okkur og annan frá Tjörn.  Af þessum sökum eru börnin í stöðvavinnunni aðra hverja viku en svo nýtum við svæðin eftir hádegi hina dagana, eingöngu með okkar börnum.  Þar sem við erum með 46 elstu börn ákváðum við að vinna töluvert saman svo þau fengju sams konar viðfangsefni síðasta árið.

Við viljum endilega biðja ykkur um að vera dugleg að merkja fatnað barnanna ykkar, ekki bara með skammstöfun heldur öllu nafni barnanna ykkar svo allt starfsfólk geti áttað sig á hver á hvað, líka starfsfólk annarra deilda! Nú þegar allra veðra er von þurfa börnin að vera með hlýjan fatnað, hlýjar húfur, vettlinga, flísföt, pollaföt, hlífðarfatnað, kuldaskó og stígvél.  

Kær kveðja, Ásdís, Bogga, Jóhann og Stella á Fossi.

 

30. ágúst 2013 

Góðan dag kæru foreldrar.

Við hér á Fossi höfum átt fína viku þar sem börnin hafa verið í hinum ýmsu verkefnum og kennarar hafa verið með þeim og einnit skipulagt það sem fram undan er. 

Eitt af því sem kom í ljós þegar við vorum að skipuleggja var það að okkur vantar töluvert af litlum skyrdósum með loki.   Þess vegna ákváðum við að leita til ykkar

Svo ef þið eigið svona dósir, værum við afar þakklát ef þið gætuð komið þeim til okkar!

Í vikunni byrjaði líka hjá okkur nýr nemandi, það er hún Viktoría Björk og þá er deildin fullmönnuð. 

Eigið góða helgi og hlökkum til að sjá ykkur á mánudag!

Kær kveðja, Ásdís, Stella, Bogga og Jóhann á Fossi.

 

Kæru foreldrar

Nú styttist í sumarlokun á Baugi og opnar skólinn ekki aftur fyrr en mánudaginn 12. ágúst kl:13.00. Bogga tekur þá til starfa á Fossi sem deildarstjóri og Ásdís byrjar einnig eftir sumarfrí.  Í vetur voru þær báðar með útskriftarhóp á Mýri svo þær eru vanar að vera með elstu börn. Stella og Jóhann verða áfram á deildinni og ég (Ragna) verð með annan fótinn á Fossi  þar til ég  fer í fæðingarorlof. 

Þetta var klárlega viðburðarríkur vetur og börnin ykkar hafa skarað framúr í vinnugleði . Við erum afar stolt af þeim og efum ekki að þau taki síðasta árið með trompi og mæti vel undirbúin í grunnskóla á næsta ári. Við höfum svo sannarlega látið alla vita að um er að ræða einstaklega samheldan og góðan hóp þar sem gleðin hefur alltaf verið á hávegum höfð.

Við viljum að lokum þakka samstarfið í vetur og við vonum að þið eigið yndislegt og sólríkt sumarfrí framundan.

Bestu sumarkveðjur

Kennarar á Fossi

K

23. maí

Kæru foreldrar

Þar sem sumarið á víst að vera komið þá höfum við hugsað okkur að leyfa börnunum að gróðursetja fræ og fylgjast með vexti plantnanna.  Hvert og eitt barn góðursetur  í sinn eiginn „pott“ og ber þannig ábyrgð á sinni plöntu með okkar hjálp. Viljum við því biðja ykkur um að senda börnin ykkar með „pott“ í leikskólann sem hægt er að rækta í. Best hefur okkur fundist að nota skyrdollur (plastdollurnar litlu) undir plönturnar svo við mælum með því. Við útvegum mold og fræ. Einnig ætlum við að búa til „grasfræjahausa“ og þurfum við því nælonsokka/sokkabuxur (helst brúnar) að heiman. Börnin taka svo hausana og pönturnar með heim fyrir sumarfrí.

Vettvangsferðir:

Við erum alltaf að reyna að finna góðan tíma til að fara í vettvangsferð upp í Magnúsarlund og aftur í Árbæjarsafnið. Við teljum að börnin muni njóta ferðarinnar best ef veðrið er gott , engin úrkoma og þokkalega heitt. Því munum við líklegast taka ákvörðun um þær ferðir með stuttum fyrirvara þegar sumarblíðan er orðin stabýlli.  Í Magnúsarlundi ætlum við að skoða fugla- og plöntulífið, fara í leiki og grilla.  Við verðum þar stóran hluta úr deginum. Nánar auglýst þegar við finnum góðan dag.

Annars eru börnin ykkar dásamleg eins og alltaf J við erum klárlega með einstaklega vel samansettan hóp þar sem átök eru fátíð og börnin eru glöð og prúð. Til hamingju með vel heppnað uppeldi.

Bestu kveðja

Kennarar á Fossi

 

2. maí

Sæl öll og gleðilegt sumar

Við vorum að skella inn myndum frá heimsókn okkar á Árbæjarsafnið á heimasíðu Baugs. Vettvangsferðin var afar skemmtileg og passaði vel inn í verkefni okkar um lífið á Íslandi í gamla daga. Börnin fengu fyrst kynningu á lífinu á bæjunum hér áður fyrr m.a. í baðstofunni. Þeim var sagt frá hvernig heimilisfólkið vann úr ullinni, hvernig aðal afþreyingin  var samlestur á kvöldin, þau fengu að skoða leikföng barnanna (bein og steina sem notaðir voru í leik) , sýndir voru olíulampar þar sem lýsi var notað og fleira spennandi. Að því loknu fórum við í gamla íþróttahúsið sem hýsir barnaleikföng fyrri  tíma, skipt eftir tímabilum. Þar fengu börnin góðan tíma til að leika sér að gömlum leikföngum, leika leikrit, fara í búðarleiki og fl. Við vorum öll afar ánægð með ferðina og ætlum að fara aftur í vettvangsferð í Árbæjarsafnið fljótlega enda margt að sjá sem ekki var hægt að skoða í þessari ferð. Endilega kíkið á myndirnar á heimasíðunni.

Við erum enn  að fjalla um hýbýli fyrr á tímum og höfum m.a. skoðað og unnið verkefni með bustabæina.  Einnig erum við með ýmis vorverkefni í gangi og tókum okkur m.a. til og bjuggum til lóur úr jarðleir. Börnin fóru svo með hana í brennslu í Hörðuvallaskóla í síðustu viku og sóttu hana í þessari viku.  Við nýttum tækifærið og skoðuðum Hörðuvallaskóla vel, kíktum í tíma, á bókasafnið, tölvuverið og fl. Börnin eru greinilega orðin spennt fyrir grunnskólagöngunni.  Næsta skrefið í lóuverkefninu er að mála styttuna og setja hana svo aftur í brennslu. Í framhaldi ætlum við upp í Magnúsarlund og eiga þar góðan dag saman. Markmiðið verður að skoða hreiðurgerð fuglanna og í framhaldi geta þau jafnvel búið sjálf til hreiður. Vegna kulda höfum við ekki getað farið upp í Magnúsarlund en vonandi fer sumrið eitthvað að láta á sér kræla.

Við minnum að lokum á opna húsið í leikskólanum (8.maí) kl:15. Við vonumst til að sjá sem flesta ;)

 

Bestu kveðjur

kennarar á Fossi

8. apríl

Næstkomandi fimmtudag (11.apríl) ætlum við á Fossi að heimsækja Árbæjarsafnið þar sem við ætlum að skoða elsta hluta safnsins með leiðsögn. Við höfum verið að velta mikið fyrir okkur lifnaðarhætti fólks á Íslandi allt frá landnámsöld, höfum gert víkingaskála, heimsótt landnámssetur og nú erum við að nálgast nútímann. Börnin verða að vera komin í leikskólann ekki seinna en kl. 9.00 þennan dag, við ætlum að taka strætisvagn.

Þessa dagana erum við með foreldraviðtöl og allir eiga vera komnir með tíma í viðtal. Ragna, Jóna og Stella taka viðtölin að þessu sinni. Flest viðtölin eru miðvikudaginn (10.apríl) en önnur viðtölin eru síðar í mánuðinum eða búin. 

Nú á föstudaginn byrjuðu börnin í tónlistarnámskeiði í boði foreldrafélagsins og sló það heldur betur í gegn. Þau verða í námskeiðinu næstu 5 föstudaga svo allir verða að vera mættir í skólann fyrir kl. 10.00 þá daga.

Annars er allt gott að frétta frá okkur á Fossi og við erum byrjuð á ýmsum vorverkefnum. Börnin eru alltaf glöð og kát í skólanum og hópurinn hefur náð mjög vel saman.

Bestu kveðjur,

Kennarar á Fossi

 

13. febrúar

Sæl öll og gleðilegan Öskudag

Við vorum að setja myndir inn á heimasíðuna af yndislegu börnunum ykkar á Öskudegi. Börnin slógu köttinn úr tunnunni og úr henni kom snakk þeim til mikillar gleði. Síðan var haldið á ball inn í Turni.

Bestu kveðjur,

kennarar á Fossi

 

 

11. febrúar 

Í síðustu viku fórum við í vettvangsferð á landnemasýninguna í Aðalstræti og heppnaðist ferðin í alla staði vel. Við fengum leiðsögn um safnið og börnin virtust afar áhugasöm um landnámsbæinn sem þar var að finna og voru viss um að enginn annar en Ingólfur Arnarson hafi búið þar. Bærinn er þó aðeins yngri en sýnir vel hvernig landnemar bjuggu hér á Íslandi. Langhúsin voru algeng langt fram á miðaldir. Ástæðan fyrir því að við ákváðum að kíkja á landnemasýninguna var sú að við höfum verið að vinna með víkinga og landnámsþema undanfarið. Í framhaldi fannst okkur tilvalið að leggja áherslu á hýbýli og almenna lifnaðarhætti á Íslandi allt frá landnámi til nútímans en það verkefni mun ná fram á vor og munum við meðal annars heimsækja Árbæjarsafnið.

Hér getið þið séð nokkrar myndir úr ferðinni.

Kveðja kennarar á Fossi.

 

Sæl öll

Í gær fórum við í vettvangsferð á landnemasýninguna í Aðalstræti og heppnaðist ferðin í alla staði vel. Við fengum leiðsögn um safnið og börnin virtust afar áhugasöm um landnámsbæinn sem þar var að finna og voru viss um að enginn annar en Ingólfur Arnarson hafi búið þar. Bærinn er þó aðeins yngri en sýnir vel hvernig landnemar bjuggu hér á Íslandi. Langhúsin voru algeng langt fram á miðaldir. Ástæðan fyrir því að við ákváðum að kíkja á landnemasýninguna var sú að við höfum verið að vinna með víkinga og landnámsþema undanfarið. Í framhaldi fannst okkur tilvalið að leggja áherslu á hýbýli og almenna lifnaðarhætti á Íslandi allt frá landnámi til nútímans en það verkefni mun ná fram á vor og munum við m.a. heimsækja Árbæjarsafnið. Börnin hafa sýnt þessu mikinn áhuga og eru full af fróðleik um "gömlu dagana".

Við látum hér fylgja link á myndband um landnemasýninguna http://www.youtube.com/watch?v=kSN4QPH-aZg svo þið getið betur séð hvað fyrir augum bara í gær og jafnvel skoðað það með börnunum ykkar. Það er mjög dimmt þarna og því var erfitt fyrir okkur að taka myndband en við eigum myndir sem við setjum bráðlega inn á heimasíðuna.

Okkur langar líka að benda ykkur á að um helgina er Safnanótt og þá er frítt á söfn http://www.vetrarhatid.is/index.php þá er m.a. hægt að fara á landnemasýninguna en einnig á sögusafnið í Perlunni http://www.sagamuseum.is/sm_index_isl.html sem við teljum að sé tilvalið að kíkja á með börnunum.

 

Annað var það ekki í bili,

Bestu kveðjur

kennarar á FossiÞetta vefsvæði byggir á Eplica