Sími  4415600 / 8666926

Klettur

Deildin Klettur

Síminn á Kletti er 4415613

Febrúar

Janúar og febrúar hafa sannarlega verið viðburðamiklir, bæði í tyllidögum, veikindum og veðurfari.

Við vorum með bóndadagskaffi og konudagskaffi og gaman var að sjá hversu margir mættu. Svo var haldið upp á þorrann og fengu börnin meðal annars að smakka hrútspunga, sviðasultu og hákarl. Sum létu smá smakk nægja en önnur fengu sér tvisvar og jafnvel þrisvar sinnum.

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur þann 6.febrúar víðs vegar. Börnin frá leikskólanum Baugi bjuggu til listaverk, mismunandi eftir hverri deild, og hengdu þau upp á vegg í húsnæði Salalaugar. Vegna manneklu gátum við ekki farið með listaverk barnanna á Kletti en í staðinn hengdum við þau upp á vegg inni í matsal leikskólans og eruð þið velkomin að fara þangað og skoða verkin. 

Í dag er svo bolludagur og fá börnin því bollur í kaffitímanum. 

Á miðvikudaginn er öskudagur og væri gaman ef börnin myndu mæta í öskudagsbúningum í leikskólann. Munið að merkja búningana.

Að lokum viljum við minna ykkur á að hringja ekki inn á deild milli kl.11 og 13 vegna hvíldar.

Kveðja frá kennurunum á Kletti,

Aldís, Ásdís, Dagný, Björg og Elsa


Janúar

Við tókum þessa fyrstu viku ársins í rólegheitum. Það er erfitt fyrir marga að koma úr fríi og tekur smá  tíma að koma sér aftur í fyrri rútínu.

Í næstu viku byrjum við aftur af krafti með Lubbastundirnar okkar, stöðvavinnu og annað í dagskipulaginu okkar.

Í ár eins og áður leggur Kópavogur áherslu á að efla læsi barna  og við á leikskólanum Baugi höfum verið með í því. Til þess að efla enn frekar undir lesturinn hjá okkur ætlum við að vera með nýjan lið í dagskipulaginu okkar sem kallast bókaormur vikunnar. Bókaormur vikunnar(sem eru börnin) kemur með bók að heiman í viku í senn. Bókin er lesin alla vikuna á mismunandi máta t.d. lesin staf fyrir stað, lesin með að skoða myndir, samræðulestur þar sem við m.a veljum orð úr sögunni og ræðum merkingu þess.

 

Bestu kveðjur frá okkur á Kletti


Desember

Desember er búinn að vera viðburðaríkur og skemmtilegur hjá okkur. Í byrjun desember fengu öll börnin að baka piparkökur og fannst þeim það mjög skemmtilegt. Svo héldum við ljósagöngu sem gekk mjög vel og buðu börnin foreldrunum sínum inn á deild að smakka á piparkökunum sem þau bjuggu til og heitu kakói. Loks var jólaball haldið inni í turni þar sem dansað var í kringum jólatréð og Magga leikskólastjóri sagði börnunum jólasögu.

Einnig var lögð lokahönd á jólagjafirnar, gluggarnir inni á deild skreyttir af börnunum, sungum og dönsuðum við jólatónlist og margt fleira skemmtilegt.

Nú fara jólin alveg að detta í garð og viljum við því óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þökkum ykkur fyrir árið sem er að líða. Sjáumst hress og kát og endurnærð á nýju ári.

Bestu kveðjur,  Aldís, Ásdís, Dagný, Björg og Elsa


Nóvember

Tíminn flýgur áfram hjá okkur á Kletti. Strax kominn nóvember og margt skemmtilegt búið að gerast. Við vorum með bleika viku þar sem við leiruðum, lituðum, máluðum og klæddumst bleika litnum. Við vorum með bangsa- og náttfatadag og var hann rosalega skemmtilegur eins og myndin hér að neðan sýnir. Einnig vorum við með furðufatadag og það var gaman að sjá hversu margir mættu í búningum og hversu fjölbreyttir búningarnir voru. Svo höfum við verið dugleg að mála, syngja, fara út og margt fleira skemmtilegt. Núna styttist í jólin og erum við byrjuð að föndra jólaskraut og undirbúa jólakomuna enda ekki seinna vænna þar sem tíminn flýgur 

Bestu kveðjur frá Kletti

p.s. Það eru komnar inn nýjar myndir á heimasíðuna.

September

Undanfarnar vikur höfum við á Kletti verið að einbeita okkur að því að kynnast og læra að vera saman í hóp og hefur það gengið vel. Aðlögunin hefur gengið mjög vel og er þetta allt að smella saman hægt og rólega hjá okkur. Núna höldum við bara áfram að aðlagast leikskólalífinu, kynnast og njóta þess að vera saman sem hópur.

Börnunum hefur verið skipt í 2 hópa, krókódílahópur og fílahópur. Sjáið hópskiptinguna á deildinni.

Í stöðvavinnu og útiveru munu börnin vera í þessum hópum, það er að segja ef krókódílahópur fer út þá er fílahópur inni í stöðvavinnu og öfugt.

Ef þið hafið einhverjar spurningar þá endilega hafið samband við okkur á Kletti.

Bestu kveðjur, Aldís, Ásdís, Dagný, Björg og Elsa

    

                            

  

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica