Sími  4415600 / 8666926

Lundur

Deildin Lundur

Síminn á Lundi er 4415611

Sælir foreldrar og gleðilegt nýtt ár !

Þá er komið nýtt ár og komið að því að kynna hann Lubba fyrir börnunum.  Lubbastundir hefjast í næstu viku og fær hver hópur 1x Lubbastund á viku en við munum líka nýta samverustundirnar fyrir sönglögin. Lubbastundir byggjast á bókinni Lubbi finnur málbein, sem er eftir þær Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur. Lubbi er íslenskur fjárhundur. Hann er duglegur við að gelta og þá heyrist ,,voff-voff-voff“. Lubba langar mikið að læra að tala en þá vandast málið því þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Í bókinni er hvert hljóð táknað með litlum og stórum bókstaf. Hvert málhljóð er tekið fyrir á síðu eða opnu. Hverju málhljóði fylgir ákveðið lag og er sérstök áhersla á hvert hljóð fyrir sig. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn, í þeim táknum er oft á tíðum stuðst við tákn með tali. Með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfinguna er auðvelt að læra það og muna. Ætlum við að styðjast við táknin og hreyfingarnar til að auðvelda okkur að læra lögin betur. Vísurnar fjalla um hljóðin. Þær eru skemmtilegar og auðvelt að læra þær utan bókar. Það er gaman að syngja með og tákna hljóðin um leið. Í bókinni Lubbi finnur málbein er unnið með nám í þrívídd, þá er átt við sjónskyn, heyrnaskyn og hreyfi- og snertiskyn. Með því að vinna með hljóðnám í þrívídd er verið að æfa börnin í að tileinka sér íslensku málhljóðin, það brúar bilið milli stafs og hljóðs og að lokum kemur þetta börnunum á sporið í lestri og ritun. Á Lundi byrjum við á fyrsta málhljóðinu Aa,  eftir önnina verðum við búin að læra 5-6 málhljóð.  Ég vil taka fram að við erum ekki að kenna börnunum stafina heldur hljóðin sem þeir segja. Auðveldar það börnunum að tengja hljóðin við stafina þegar að því kemur. Lubbastundirnar verða á mánudags og miðvikudags morgnum. 3-4 börn í hóp. Einnig munum við bæta Numicon –kubbum og meiri listasmiðjuvinnu í dagskránna hjá okkur.  Í lokin vil ég minna á myndir á heimisíðunni og ef þið hafið einhverjar spurningar þá endilega sendið mér póst.

Minni á leikfangadag miðvikudaginn 11. janúar !

Bestu kveðjur frá Lundi.


Desember 2016

Nú fer þessari haustönn að ljúka og af því tilefni setjum við hér inn nokkrar myndir af starfinu í vetur.

Gleðileg Jól og farsælt komandi ár, þökkum samvinnuna, samstarfið og allar góðu stundirnar á árinu sem er að líða. Sjáumst hress (hraust) á nýju ári.

Hér að neðan finnið þið nokkrar skráningar:

Vid-erum-vinir

skapandi-efnividur

1

eg-get!

hreyfing


Okkar bestu jólakveðjur,

 Lundur

 


Fréttir febrúar 2016

Mig langaði til að segja aðeins frá starfinu okkar í þessum pósti. Haustönnin fór að mestu í aðlögun en síðasta aðlögunin okkar var núna í janúar þegar hún Talía byrjaði hjá okkur en Katla okkar sem var elst á deildinni flutti yfir á Brekku. Gengu báðar þessar aðlaganir mjög vel. Við finnum nú á þessu nýja ári hvað börnin okkar hafa þroskast mikið frá því í haust,ætlum við því að bæta aðeins við í stöðvavinnu og kynna Numicon fyrir börnunum. Numicon kubbar/form er sérstakt stærðfræði námsefni fyrir ung börn til að hjálpa þeim að skilja tölur og stærðfræði.  Er þá unnið með 3 þætti sem auðvelda börnum námið: að læra í gegnum í leik, áþreifanleg eða sýnileg viðfangsefni og sjónrænir þættir eins og mynstur og fyrirmyndir . Í byrjun snýst þetta bara um að þau kynnist efniviðnum og leika sér með hann á sem fjölbreyttastan hátt, eins í Bingó lóttói, stimpla í leir, nota formin  í vatni/snjó, setja formin í poka draga og para saman ofl. Smátt og smátt er svo hægt að auka kröfurnar. (Heimasíða Numicons http://www.numicon.com/). Við munum vinna með Numicon kubbana 1x í viku til að byrja með. Í samverustundum höfum við nú bætt við sögulestri og hafa tvær bækur verið vinsælastar; Hvar er Depill og Sokki og Bokki. Báðar þessar bækur fjalla um eitthvað sem er týnt eða í felum J. Einnig höfum við verið að lesa loðtöflusögur en það eru sögur með myndum sem við hengjum upp á vegg. Börnin ykkar eru sérlega dugleg að syngja og alveg hreint ótrúlega fljót að læra ný lög. Lögin sem eru vinsæl núna eru lög um litina, fingurna, höfuð herðar, við erum söngvasveinar og fullt af öðrum lögum en skemmtilegast er að syngja lög með hreyfingum.

Á föstudaginn er dagur leikskólans, það hefur verið hefð fyrir því hér á Baugi að hengja upp skráningar eða listaverk eftir börnin í andyri Salarlaugar. Munum við því hengja upp myndir og jafnvel líka skráningu á föstudaginn, endilega gefið ykkur tíma til að kíkja á það með börnunum ykkar.

Eldri börnin eru farin að fara meira út og stefnum við að því að þau fari 1x á dag meðan veðrið er svona gott. Yngri börnin bíða aðeins þar til þau ná að fóta sig betur.

Foreldraviðtöl verða svo í lok febrúar og munum við Guðlaug Helga skipta þeim á milli okkar eins og í haust. Ég minni svo á bollu, sprengi og öskudag í næstu viku boðið verður uppá bollur í drekkutímanum og saltkjöt og baunir á sprengidaginn. Á öskudaginn verður kötturinn (rúsínur og cherioos) sleginn úr tunnunni og allir mæta í þeim búningum sem þeir vilja (náttföt ef þau vilja það frekar).

Í lokin vil ég bara láta vita af því að hlaupabólan hefur verið í gangi á leikskólanum.

Læt þetta duga í bili, endilega hafið samband ef þið viljið ræða eitthvað.

Bestu kveðjur frá Lundi.


12. október 2015

Sælir kæru foreldrar,

Allt gengur vel hjá okkur á Lundi, rauði þráðurinn í starfinu okkar er að vinna með „ég sjálfur“. Börnin eru því búin að vera að gera ýmislegt tengt því eins og að teikna sjálfsmynd; fyrst skoðuðu þau sig í spegli athuguðu hvar augun væru og nefið osfrv. Og síðan teiknuðu þau sig sjálf á blað

Þá höfum við líka verið að syngja ýmis lög tengd líkamanum eins og : höfuð,herðar..., ég ætla að syngja (hérna eru augun, hérna eru eyrun...) og líka nafnalög eins og : hvar er Sigga? Börnunum finnst einnig ótrúlega spennandi að fela sig undir teppinu á meðan sungið er „hver er undir teppinu“ Þannig læra börnin nöfnin á öllum vinum sínum. 

Í stöðvavinnu var unnið með vatn, liti, ljós og farið í hlutverkaleik. Nokkur börn prófuðu sig í að fingramála, þeim fannst það mjög skrýtið og spennandi en áttu erfitt með að fá ekki að rannsaka málninguna með munninum.

Í síðustu viku byrjaði hjá okkur nýtt Lundarbarn, hún heitir Elsa Björg og gekk sú aðlögun mjög vel.

Þann 27 okt byrjar síðan hann Kristján Týr hjá okkur og þá eru öll börn komin í hús.

Í lokin vil ég minna á aðlögunarviðtölin sem byrja á þriðjudaginn, í þessum aðlögunarviðtölum er spjallað um líðan barnsins í leikskólanum, hvernig það borðar, sefur o.þ.h.

Bestu kveðjur, Sirrý, Guðlaug, Ízabela og Kolbrún


27. janúar 2014

Sælir kæru foreldrar,

Janúarmánuður hefur verið mikill innimánuður hjá okkur en þrátt fyrir það hefur verið nóg að gera hjá okkur eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.  Rauði þráðurinn eða þemað í starfi með yngstu börnunum er „ég sjálfur“ í því felst að börnin eru sífellt að kanna möguleika sína og  getu, kynnast nýjum efnivið og kanna nánasta umhverfið sitt.  Síðustu vikur höfum við því verið dugleg við að kanna ýmsan efnivið eins og : vatn, rífa og leika með pappír, æfa okkur með fínhreyfingar með því að leika með tangir og dúska og byggja með mjólkurkössum svo eitthvað sé nefnt. Einnig æfðum við okkur í því að klæða okkur í pollagalla í stöðvavinnu þar allir fengu nægan tíma til að æfa sig. Í dag fóru þó öll börnin í útiveru og þá vantaði ansi mörgum pollagallann sinn.

  

 

   


Mbkv. Sirrý, Freyja. Hulda og Þóra Birna.


12. desember 2014

Kæru foreldrar

Síðustu vikur hafa verið skemmtilegar í leikskólanum, við höfum verið að vinna að jólagjöfunum og jólaföndra. Einnig höfum við nýtt myrkrið og verið dugleg að leika okkur með ljós, börnunum þykir það afskaplega skemmtilegt. Einnig er í uppáhaldi að leika með endurnýtanlegan efniðvið sem eru ýmsar dósir, lyklar, perlur og fleira.

Í dag voru litlu jólin, Magga las jólasögu fyrir börnin og síðan var trallað á  jólaballi. Við fengum svo jólamat í hádeginu (hangikjöt og með því), svo fengu allir frostpinna í eftirrétt, sem vakti mikla lukku.

Að gefnu tilefni langar mig að minna á að sækja börnin á réttum tíma í leikskólann. Aðeins einn starfsmaður er eftir klukkan 16 á deildinni þar að leiðandi kemst annað starfsfólk ekki úr vinnu á réttum tíma. 

Þeir sem eiga eftir að koma í aðlögunarviðtöl, þá ætla ég að hafa þau næsta fimmtudag 18. desember. Ég mun hengja tíma blaðið upp í forstofunni á Lundi. Ef það eru einhverjar fyrirspurnir um breytingu á viðtalstímunum endilega látið mig vita.

Búið er að setja fullt af nýjum myndum og myndböndum inn á heimasíðuna https://www.flickr.com/photos/baugur/sets/72157647284405074/

Jólakveðja

Kennarar á Lundi


30.10.2014

Kæru foreldrar

Ýmislegt hefur drifið á daga okkar á Lundi upp á síðkastið. Brynhildur Katrín flutti sig um deild og er komin á Brekku. Ragnhildur Birta byrjaði á Lundi og bjóðum við hana velkomna í hópinn. Við héldum upp á bangsadaginn og þá komu allir í náttfötum og með bangsa. Börnunum þótti það skemmtileg tilbreyting. Einnig héldum við upp á bleika daginn og var einstaklega ánægjulegt að sjá drengina í bleiku jafnt og stelpurnar.

Nú er búið að setja fullt af nýjum myndum á heimasíðuna og einnig einhver myndbönd. Svo endilega kíkið á heimasíðuna: https://www.flickr.com/photos/baugur/sets/72157648158969428/

Kær kveðja

Kennarar á LundiKæru foreldrar

Nú hafa börnin ykkar dvalið á Lundi í að verða tvær vikur og hefur aðlögunin gengið vel.  Á mánudaginn 1 sept.  Byrja fjögur ný börn á Lundi, því verður mikið stuð hjá okkur í næstu viku. 

Við höfum notið þess að kynnast börnunum ykkar og hlökkum til að kynnast börnunum sem byrja á mánudaginn.

Búið er að setja nokkrar myndir inn á heimasíðuna: https://www.flickr.com/photos/baugur/sets/72157646550758218/

Kær kveðja Kennarar á Lundi

  

Kópavogur 4. apríl 2014

Nú er deildin orðin fullmönnuð og allt að komast í rútínu. Það helsta að frétta hjá okkur er að Kjartan Páll er farin yfir á Brekku og hún Írena Mist byrjaði hjá okkur.

Við erum að byrja undirbúa páskana og að búa til páskaskraut.

Að tilefni páskunum í apríl ætlum við að hafa gulan mánuð hjá okkur, við ætlum að leggja áherslu á að kynna gulan lit vel fyrir börnunum.

Með hækkandi sól stefnum við á að fara í gönguferðir um nágrennið okkar, gott að æfa sig að ganga.

Kveðja Harpa, Dagný, Kolbrún og Kristjana

 

Kópavogur 19.desember 2013

Nú nálgast jólin aldeilis. Allir hafa tekið heim jólagjafirnar og skrautið sem börnin gerðu fyrir jólin.

Við vorum snemma tilbúin með allar jólagjafir og höfum því getað haft mjög rólegt hjá okkur á Lundi. Þessa vikuna var byggingasvæðið okkar.  Dagarnir á milli jóla og nýárs og einnig  2. og 3.janúar eru ólíkir venjulegum dögum. Yfirleitt sameinum við deildarnar en börnin koma inn á sínum deildum eins og vant er.

Í dag var saltfiskur í matinn hjá okkur. Börnin fengu einnig smakk af Skötu og við erum búnar að setja inn myndir af því á netið og einnig frá jólaballinu.

Þessa dagana eru tveir strákar í aðlögun frá okkur og yfir á Brekku. Þeir fara svo alveg á Brekku 6. janúar. Við fáum svo ný börn til okkar 7. janúar í aðlögun.

Við vonum að þið njótið hátíðarinnar og sendum okkar bestu óskir um fögnuð og frið á jólahátíðinni.

 

Jólakveðjur ...

...  Sædís, Tinna, Flavía og Dagný.

 

 

 

Kópavogur  6.desember 2013

 

Í dag byrjuðum við daginn á ljósagöngu. Vegna þess að kuldinn var gríðarlegur þá var byrjað á mínútunni 8.15 og sungið eitt jólalag. Það var svo farið inn í heitt súkkulaði og smákökur. Við þökkum ykkur innilega fyrir komuna. Við vorum svo með sameiginlega söngstund í dag hjá okkur. Þá komu til okkar börnin af Brekku og Kletti og sungum við saman jólalög.

Þessa vikuna er listasmiðjan okkar svæði en í næstu viku verðum við með dúkkukrók. Öll börnin fóru í listasmiðjuna þessa vikuna og gerðu „jólakúlu“ hjá Jódísi.

Börnin á Lundi fædd 2011 hafa fengið tækifæri til að fara með strætó á Bókasafnið í Lindaskóla. Við fórum í samfloti með börnunum á Brekku og Kletti. Nú er þessum heimsóknum lokið. Strætóferðin var auðvitað stór hluti af upplifun barnanna. Á bókasafninu voru svo lesnar tvær sögur fyrir krakkana og í lokin fengu þau svo tækifæri til að skoða sjálf bækurnar í hillunum.

Börnin eru búin að búa til jólagjafirnar og við afhendum ykkur þær í næstu viku.

Nú í desember leggjum við mikla áherslu á að njóta aðventunnar í ró og næði.

 

Bestu kveðjur og góða helgi.

Sædís

 

Kópavogur  25. nóvember 2013

 

Því miður hefur dregist að setja hér inn fréttir af ýmsum ástæðum.

Tíminn líður hratt og fljótlega verður kominn desember. Við erum því byrjuð að undirbúa jólagjafirnar og desember mánuðinn. Við erum þó ekki byrjuð að syngja jólalögin en ég á von á því að það verði mjög fljótlega.

Breytingar hafa átt sér stað varðandi Turninn en í Baug hefur verið ráðinn íþróttafræðingurinn Tómas sem tekur til sín hópa. Við á Lundi erum í Turninum á miðvikudögum fyrir hádegi. Einnig erum við með frjálsan tíma í Turninum á mánudögum eftir hádegi.

Í listasmiðjuna höfum við svo fengið til liðs við okkur Jódísi, myndlistarkennara. Hún tekur hópa til sín inn í listasmiðjuna á þriðjudögum fyrir hádegi á Lundi.

Í dag, föstudag, byrjuðum við á yngri gangi á því að vera með sameiginlega söngstund. Þær verða alla föstudaga kl.10.45 og skiptast deildarnar á að bjóða til sín. Þá syngjum við saman og förum í ýmsa hreyfileiki.

Þessa vikuna hefur dúkkukrókurinn verið svæðið okkar.

Næsta þriðjudag ætlum við á Lundi að baka piparkökur. Piparkökurnar verða svo á boðstólnum 6.desember eftir ljósagönguna okkar.

Er búin að setja inn myndir á heimasíðuna okkar http://www.flickr.com/photos/baugur/collections/72157617457610377/

Í lokin langar mig til að minna ykkur á að hafa til taks í hólfum barnanna bæði kuldagalla og regnföt því eins og veðrið hefur verið þessa vikuna – þá veit maður aldrei

 

Bestu kveðjur

Sædís

 Kópavogur 3.október 2013 

Leikskólinn er 6 ára í dag. Við gerðum okkur glaðan dag vegna þessa og byrjuðum daginn á risuðu brauði. Síðan hittust allir, börn og kennarar, í útiveru og sungu afmælissönginn og fleiri lög. Veðrið lék alveg við okkur. Í hádeginu var svo pítsa í matinn og í kaffinu verður svo boðið uppá súkkulaðiköku. Ekki amalegt afmæli J

Nú er aðlögun lokið hjá okkur á Lundi. Alls eru börnin 14. Í síðustu viku vorum við með byggingasvæði. Öll börnin fengu tækifæri til að fara a.m.k. einu sinni á svæðið. Þessa vikuna vorum við svo með listasmiðjuna. Við notuðum tækifærið og fengum öll börnin til að spreyta sig á fyrsta verkefninu fyrir ferilmöppuna sína, sjálfsmynd. Þrisvar á hverju skólaári gera börnin sjálfsmynd sem fer í möppuna þeirra og sýnir þannig ferlið í teikningum þeirra. Einnig fengu allir að mála laufblað sem verður afmælisdagatal okkar á Lundi. Í næstu viku verðum við svo með dúkkukrókinn og þá fá allir tækifæri til að fara og prófa að leika þar.

Enn hefur ekki gefist svigrúm til að vera með aðlögunarviðtöl en það fer senn að koma að því. Ég læt ykkur vita þegar kemur að því. Almenn forledraviðtöl eru svo á vorönn.

Á morgun verður leikskólinn lokaður því að þá er skipulagsdagur hjá okkur.

 

 

Kópavogur  6.september 2013

Aðlögun er lokið í bili. Alls eru nú 13 börn komin á Lund og því á aðeins eftir að aðlaga eitt barn en við reiknum með að það verði í seinnihluta septembermánaðar. Þetta hefur gengið alveg ljómandi vel.  Börnin eru strax farin að læra dagskipulagið okkar og njóta sín í leik og starfi. Við munum nota næstu vikur til að stilla saman strengi okkar og kynnast vel.

Minnum ykkur á að vera dugleg að MERKJA ALLAN FATNAÐ barnanna og einnig snuð, bangsa o.þ.h.

Flavía verður í orlofi næsta hálfa mánuðinn og á meðan verða ýmsar afleysingar inni hjá okkur, sérstaklega seinni hluta dags.

Er búin að setja inn myndir frá síðustu viku á heimasíðu leikskólans http://www.flickr.com/photos/baugur/collections/72157617457610377/

 

Bestu kveðjur, Sædís.

 

Kópavogur 30. ágúst 2013

Sæl öll sömul.

Nú er fyrsta hluta aðlögunar lokið. Við byrjuðum 20.ágúst síðastliðinn og voru 6 börn í fyrsta aðlögunarhópnum. Okkur hefur fundist takast vel til en auðvitað er þetta mikil breyting fyrir flest þessara barna og því eðlilegt að það taki smá tíma að átta sig á þeim breytingum sem leikskóladvölin hefur í för með sér. Á næsta mánudag munu svo bætast við 7 börn. Það má því búast við því að næsta vika í það minnsta gæti orðið svolítið erfið fyrir þau sem fyrir eru en við reynum allt sem við getum til þess að öllum líði sem best.

Í þessari viku byrjaði hjá okkur á Lundi nýr kennari. Það eru hún Dagný. Einnig verður hjá okkur  tvo seinniparta í viku hverri Saida en hún er annars að vinna á Brekku. Hún kom einnig til starfa í Baug í síðustu viku. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar til okkar.

 

Á Lundi í vetur verða eftirfarandi kennarar :

Sædís, leikskólakennari með deildarstjórn - 80%

Tinna, leikskólakennari - 60%

Flavía, leiðbeinandi - 100%

Dagný, leiðbeinandi - 100%

Saida, leiðbeinandi - 10%

Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin og vonumst til að eiga gott samstarf í vetur.

 

 

Bestu kveðjur, Sædís.

 

 

Kópavogur  11.júlí 2013

Sæl öll sömul.

Nú er sumarfríið alveg á næsta leyti. Við lokum föstudaginn 12.júlí  kl.13.00. Þennan dag borða börnin kl.11 og fara svo í hvíld. Við vekjum þau svo kl.12.50.  Þegar við opunum leikskólann 12.ágúst kl.13.00 reiknum við með að byrja daginn á útiveru en það er þó ekki alveg klárt og kemur bara í ljós þann dag.

Guðmundur hefur ákveðið að halda á ný mið og er hættur á Lundi (Baugi). Í gær fengum við okkur göngu heim til Guðmundar til þess að kveðja hann. Börnin fengu að leika bæði úti í garði og inni með allt dótið hans Guðmundar og að auki höfðu foreldrar og systir Guðmundar útbúið „hlaðborð“ með ýmsum veitingum bæði fyrir börn og fullorðna. Sannir höfðingjar heim að sækja.  Búið er að setja inn nokkrar myndir á myndasíðuna okkar frá heimsókninni. Við kveðjum Guðmund og fjölskyldu með söknuði en um leið og við þökkum þeim fyrir samfylgdina þá óskum við þeim góðs  gengis á nýjum stað. Takk fyrir okkur.

Varðandi aðlögun barnanna yfir á nýjar deildar þá hefst aðlögunin fimmtudaginn 15.ágúst. Börnin fara þá með okkur kennurunum á nýjar deildar kl.9.00-15.00 – mæta og er sótt á Lund þennan dag. Á föstudeginum koma börnin svo áfram á Lund en fara í matsal í morgunmat (ristað brauð) og kennari frá okkur verður þeim innan handar þennan dag. Þau velja sér ný hólf á föstudeginum og því tímabært að sækja þau á nýju deildina á föstudeginum. Á mánudeginum fara svo börnin strax að morgni á nýju deildina sína og eru einnig sótt þangað. Við verðum þeim innan handar á nýju deildunum þennan dag. Aðlögun á að ljúka á mánudeginum en við verðum áfram til taks ef eitthvað er. Aðlögun nýrra barna hjá okkur á Lundi byrjar svo á þriðjudeginum.

Við erum afar sáttar við starfið okkar í vetur á Lundi. Það hefur verið einstaklega gefandi og nærandi fyrir okkur að fá með jöfnu millibili hrós frá þessum yndislegu börnum og  ykkur foreldrum, í tölvupósti og einnig í daglegum samskiptum. Við þökkum ykkur innilega fyrir samfylgdina og óskum ykkur alls hins besta.

 

Hafið það gott í fríinu

Sædís, Tinna, Flavía og Íris

 

 

Kópavogur 16.maí 2013

 Sæl öll sömul.

Það er hreint með ólíkindum að veturinn sé búinn. Tíminn er svo fljótur að líða.

Opið hús fannst okkur takast vel til þar sem við reyndum að sýna ykkur brot af þeirri vinnu sem við höfum unnið í vetur. Það var auðvitað kjörið tækifæri að sýna ykkur myndbandið úr tónlistarnámskeiðinu sem foreldrafélagið bauð okkur uppá og er nú lokið. Við vonum innilega að allir hafi haft gaman af því. Því miður voru ekki allir mættir þennan dag sem við tókum upp myndbandið en við vonum að það hafi ekki komið að sök. Ég ætla aðeins að reyna að bæta úr því með því að setja inn stutt myndbrot á myndasíðuna úr öðrum tónlistarstundum.

Eins og allir hafa orðið varir við þá er tími kuldagalla liðinn í bili. Í sumar þykir okkur gott að hafa í hólfunum.

·         Pollajakki og pollabuxur

·         Stígvél og ullasokkar

·         Flíspeysa (heilrennd) og flísbuxur

·         Sumarjakki og hlífðarbuxur

·         Buff (létt sumarhúfa), sumarhúfa, vettlingar

·         Strigaskór

Þessa dagana er í góðu lagi að hafa úlpuna með en við höfum mikla trú á því að hún geti fljótlega farið í „sumarfríið“

Í gær fórum við í vettvangsferð á lóð Hörðuvallaskóla. Ferðin tókst mjög vel. Vonandi höfum við tækifæri til að fara í fleiri vettvangsferðir í sumar. Við munum í það minnsta nýta góða veðrið vel og þó ekki sé nema að fara út á leikskólalóðina og leika þar.

Varðandi sólarvörn þá er það á „innkaupalistanum“ hjá leikskólanum að kaupa sólarvörn. Hún mun verða staðsett í forstofunni á Lundi. Foreldrar beri á börnin áður en þau komi í leikskólann (ykkur er velkomið að nota sólarvörnina þegar við verðum búin að kaupa) og svo bætum við á þau eftir hádegi ef við förum aftur út.

Í júní verða Sædís og Tinna í fríi í 2 vikur hvor. Við reiknum með að sumarafleysing, Kristín Heiða, muni verða á Lundi þegar þær eru í fríi.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með töflunni í forstofunni. Við reynum að setja þar inn upplýsingar varðandi hvern dag fyrir sig.

Það er nú ekki hægt annað en að þakka innilega fyrir hrós sem við á Lundi fengum í foreldrakönnun. Það var virkilega gaman að lesa margt sem þar var sagt – takk fyrir okkur.

Kveðja,

kennarar á Lundi.

 

Kópavogur 12.apríl 2013

Sæl öll sömul.

Eftir páskafríið vorum við flest nokkra daga að jafna okkur á því að við værum aftur komin í „rútínuna“ okkar. Við erum þó alveg komin yfir það núna þessa dagana og starfið komið á fullt að nýju.

Öll foreldraviðtöl hjá okkur á Lundi eru búin. Við erum yfir okkur hamingjusamar yfir góðum umsögnum ykkar á starfi okkar hér. Áfram höldum við að leggja metnað okkar í að hafa starfið faglegt og um leið skemmtilegt. Mætingin var alveg til fyrirmyndar – allt saman gekk þetta upp. Takk kærlega fyrir okkur.

Í gær settumst við kennararnir á Lundi niður og ákváðum að breyta borðaskipaninni. Það er bæði hollt fyrir okkur og börnin að breyta aðeins til. Í dag fóru svo öll börnin á wc fyrir hádegismatinn nema sá allra yngsti hjá okkur. Það gekk alveg svakalega vel – húrra.

Tónlistarnámskeiðið (Höfum gaman) sem foreldrafélagið býður okkur uppá í 6 vikur hófst síðasta föstudag. Börnin eru mjög spennt og virðast skemmta sér vel. Við fórum svo aftur í dag og það gekk aftur alveg rosa vel. Við höfum verið að læra ný lög hjá Lindu. Við erum að vinna í því að setja upp textana fyrir ykkur og að auki texta með vorlögum sem við erum að byrja að syngja þessa dagana. Ef allt gengur eftir þá verður það tilbúið í næstu viku og við sendum ykkur textana í tölvupósti.

Grænn er litur aprílmánaðar hjá okkur. Við höfum verið að syngja um grænann og sýna honum alveg sérstaklega athygli. Einnig förum við yfir hina litina sem við höfum lært fyrr á þessu ári, gulan, rauðan og bláan. Einnig hafa einhver barnanna byrjað á græna verkefninu okkar í listasmiðju en ekki næstum allir svo að næst þegar við erum með listasmiðjuna þá ætlum við að fara á fullt með græna listaverkefnið okkar. Opið hús verður svo hjá okkur 8.maí næstkomandi en það verður auglýst þegar nær dregur.

Eftir páskana kom tímabil þar sem veðrið lék sko aldeilis við okkur og á tímabili héldum við að vorið væri komið en…   …það er búið að vera aldeilis kalt þessa vikuna, bara vetrarkuldi. Svo það er gott að hafa til staðar í hólfunum á næstunni bæði vor og vetrarfatnað.

Þessa vikuna höfum við verið með dúkkukrók en í næstu viku verður skynjunarstöð okkar svæði á yngri ganginum.

 

Takk, takk og góða helgi.

Kennarar á Lundi

 

Kópavogur  14.mars 2013

Sæl öll sömul.

Við erum byrjuð að undirbúa páskana og höfum þessa vikuna verið í listasmiðjunni að búa til páskaskraut. Börnin hafa haft virkilega gaman af verkefnunum og þegar nær líður páskum fáið þið skrautið heim.

Í síðustu viku vorum við með skynjunarstöðina og þá kláruðu þeir sem ekki voru búnir að mála frá því fyrir þremur vikum. Börnin voru misjafnlega áhugasöm um þetta uppátæki og það sama átti við um baðferðina á eftir. Það þykir nú bara eðlilegt þar sem að yfirleitt þegar við erum að mála þá förum við í svuntu og notum pensil en þarna vorum við léttklædd og notuðum líkamann til þess að mála. Tinna er svo þessa dagana og sennilega næstu vikur að vinna úr þeim myndum sem við tókum á meðan á verkefninu stóð og setur upp skráningu af ferlinu. 

Í næstu viku verðum við með dúkkukrókinn.

Ákveðið hefur verið að hafa foreldraviðtöl 10.apríl næstkomandi, þegar leikskólinn er  lokaður fram að hádegi vegna skipulagsdags. Börnin eiga ekki að koma með en á morgun föstudag sendum við ykkur tímasetningar fyrir viðtölin. Ekki er alveg hægt að taka öll viðtölin þennan dag en þau verða þá strax dagana á eftir eða jafnvel á undan.

Í janúar ákváðum við að skoða rauða litinn vel og í febrúar var það svo sá blái. Í mars erum við svo að læra gula litinn. Við erum að syngja um gulan, skoða myndir af gulum og svo höfum við tekið saman helling af gulu dóti í gula „kassann“.

Heilsuvikan var skemmtileg að vanda. Veðrið setti þó strik í reikninginn en við létum það ekki á okkur fá. Bráðskemmtilegt var að fá ýmsa ávexti á hlaðborðið á föstudeginum sem við fáum ekki dagsdaglega, það þótti börnunum gaman.

„Húsið mitt“ fer nú að verða tilbúið hjá langflestum. Þetta kemur mjög vel út og börnin njóta þeirra alveg í botn. Þetta hefur verið alveg gríðarleg vinna en vonandi þess virði J

Við þökkum ykkur enn og aftur innilega fyrir að sækja börnin ykkar fyrr vegna árshátíðar okkar í síðustu viku. Þúsund þakkir.

Kveðja, Lundur.

 

Kópavogur   14.febrúar 2013.

Sæl öll.

Þessa vikuna var skynjunarstöð svæðið okkar á sameiginlega ganginum okkar. Tinna stjórnaði verkefni vikunnar á því svæði en börnin hafa fengið að mála léttklædd hjá okkur. Þetta hefur vakið mikla lukku hjá krökkunum. Börnin eru tvö og tvö í einu og er ætlunin svo að setja saman myndaskráningu úr þessu verkefni, þegar því líkur – en það er enn í gangi. Börnin hafa svo farið í létt „balabað“ hjá okkur á eftir.

Í síðustu viku vorum við dugleg að fara í dúkkukrókinn. Börnin hafa mjög gaman að því að fara á svæðin á ganginum enda svolítil tilbreyting í því. Annars reynum við að fara a.m.k. einu sinni út á dag.

Bolludagur var á mánudag og fengum við fiskibollu í hádeginu og svo rjómabollu í kaffinu. Á þriðjudag var svo boðið uppá saltkjöt og baunir. Börnin voru mjög duglega að borða það. Það var svo öðruvísi og spennandi dagur hjá okkur á miðvikudag eða öskudag. Allir skemmtu sér vel. Við fórum í „babú“ í Turninn og vorum þar á sameiginlegu balli með Brekku og Kletti. Síðan fórum við inn á Lund og allir fengu tækifæri til að slá köttinn úr tunnunni. Langflest barnanna voru mjög opin fyrir því en nokkur voru pínu feimin fyrst um sinn. Svo þegar tunnan (kassinn) gaf sig þá var eitt barnanna sem fór að hágráta en var fljótt að taka gleði sína á ný þegar kom í ljós að það var enginn köttur í tunnunni heldur glaðningur fyrir alla. Við settumst svo saman niður og fengum okkur að snæða og drekka.

Hlaupabólan hefur verið að hlaupa um leikskólann en hefur ekki komið við á Lundi. En við biðjum ykkur bara að fylgjast vel með.

Í næstu viku erum við svo með Listasmiðjuna. Enn á eftir að koma í ljós hvað við tökum okkur fyrir hendur þar.

Við hvetjum alla sem eiga eftir að fara á sýninguna okkar í Sundlauginni Versölum. Við reiknum með að myndirnar fái að hanga a.m.k. fram yfir helgi.

Í tilefni af konudeginum sem er sunnudaginn 24.febrúar næstkomandi ætlum við að bjóða mömmum og ömmum í kaffi  föstudaginn 22.febrúar kl.15-16. Boðið verður uppá nýbakað brauð, álegg, vatn, mjólk og djús. Gaman væri að allar dömur, stórar sem smáar, kæmu í pilsi eða kjól.

 

Bestu kveðjur,

Kennarar á Lundi.

 

Kópavogur 1.febrúar 2013

 

Sæl öll sömul.

Já nú er janúar bara búinn og febrúarmánuður hafinn.

Í dag vorum við með þorrablót hjá okkur hér í Baugi. Allir fengu tækifæri til að smakka t.d. sviðasultu, hrútspunga, hangikjöt, blóðmör, lifrapylsu, harðfisk, hákarl og fleira. Öll nema eitt vildu fá að smakka hákarlinn. Það voru nú ekki alveg allir sammála um ágæti hákarlsins!

Við höfðum útbúið víkingahatta sem börnin máluðu með fánalitunum og einnig límdu þau ull á hattana. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni. Börnin voru svo með hattana í dag á þorrablótinu.

Við höfum einnig unnið að verkefninu fyrir dag leikskólans sem er 6. febrúar næstkomandi. Á mánudag munum við setja upp myndirnar í Sundlaugina Versölum. Við hvetjum ykkur öll sömul til að kíkja þar við en sýningin mun sennilega standa yfir í 2 vikur.

Í gær vorum við með leikfangadag. Börnin komu flest með eitthvað dót að heiman en þó voru ekki öll sem vildu taka með sér leikfang. Við gáfum þeim tækifæri á að sýna hinum börnunum leikfangið sitt og jafnvel lána eða skiptast á. Þetta tókst vel hjá okkur.

Grunur er um inflúensutilfelli hjá okkur. Ekki er enn búið að staðfesta það en það er sýni í ræktun. Ég læt ykkur vita strax og við fáum það staðfest og sendi ykkur tölvupóst.

Í næstu viku er dúkkukrókur okkar svæði á ganginum. Við munum nýta okkur hann í stöðvavinnunni. En þessa viku vorum við með listasmiðju sem kom sér vel þegar við vorum að undirbúa sýninguna í sundlauginni og einnig að útbúa þorrahattana.

Við ákváðum að kynna aðeins betur fyrir börnunum litina. Í janúar skoðuðum við rauðan og sungum lög í tengslum við hann. En í febrúar ætlum við að skoða bláa litinn vel. 

Takk, takk og góða helgi.

Kennarar á Lundi

 

 

Kópavogur 18. janúar 2013.

Sæl öll.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Enn og aftur hafa orðið starfsmannabreytingar hjá okkur á Lundi. Lin sem er nemi í leikskólakennarafræðum verður hjá okkur þriðjudaga 14-17 og svo miðvikudag 8.30-16.30. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til okkar  Anna Marín kemur í febrúar í 100% starf í Baugi en fer á Brekku. Sædís, Tinna, Flavía og Íris Dögg standa áfram vaktina á Lundi.

Fyrstu vikur þessa árs hafa liðið hratt og nóg verið um að vera hjá okkur. Við höfum aðeins átt við forföll hjá okkur kennurum en það er vonandi allt að koma – allir að hressast. Börnin hafa verið mjög hress það sem af er ári.

Við vonum að allir hafi verið ánægðir með jólagjöfina sína.

Nú er starfið komið á fullt aftur. Þessa vikuna höfum við verið með dúkkukrók sem okkar svæði og í næstu viku er skynjunarstöð okkar svæði. Langflest börnin hafa gert sjálfsmynd í þessum mánuði en börnin gera sjálfsmynd í september, janúar og svo í apríl sem eru svo settar í ferilmöppurnar þeirra sem fylgja þeim í gegnum alla leikskólagönguna hér í Baugi.

Við erum búnar að gera nokkrar breytingar á hópunum en ég sendi ykkur þær í viðhengi í tölvupósti.

Við viljum endilega biðja ykkur að hafa alltaf til staðar bæði kuldagalla og tilheyrandi og pollagalla og tilheyrandi því að veðrið hér á fróni er svo fljótt að breytast. Svo er ósköp gott að hafa flísbuxur og flíspeysu til staðar. Einnig er stórsniðugt að hafa 2-3 pör af vettlingum í hólfinu. Munið svo eftir að MERKJA ALLAN FATNAÐ barnanna.

Síðast en ekki síst viljum við benda ykkur á að fara EKKI INN Á SKÓNUM því að börnin ykkar eru allan daginn á sokkunum á gólfunum hér og jafnvel skríðandi. Vinsamlegast virðið það.

 Bestu kveðjur,

Sædís, Tinna, Flavía, Íris og Lin.

 

 

 

Kópavogur 20.desember 2012

Nú styttist aldeilis í jólahátíðina. Allar jólagjafir eru komnar í réttar hendur eða alveg á leiðinni. Það er mikil vinna á bak við jólagjafirnar í leikskólanum og börnin hafa sjálf m.a. útbúið jólapappírinn og einnig merkispjaldið.

Dúkkukrókur er svæði vikunnar en við höfum ekki verið með börnin í hópunum sínum þessa viku né síðustu heldur hafa allir fengið að fara á svæði vikunnar en ekki endilega í hópunum sínum. Lítið hefur verið um útiveru hjá okkur að undanförnu en við fórum samt út í gær, í dag og vonandi á morgun.

Eins við höfum nefnt áður þá er það helmingur barnanna sem á afmæli í desember og því mikið að gera hjá okkur að útbúa kórónur og svo mála þau sjálf. Ekki eru allir jafn hrifnir í byrjun af þessari hugmynd að hafa kórónu og skikkju. En það hafa þó allir hingað til fengist til að prófa, alla vega eftir smá sannfæringu :o) og bara líkað vel, eftir allt saman !

Milli jóla og nýárs eru nokkur börn skráð í frí en við fengum ekki að vita hvaða börn það væru úr könnuninni og þess vegna þætti okkur vænt um ef þið létuð okkur vita hvaða börn það eru sem eru í fríi þessa daga svo við getum skráð það hjá okkur. Við reiknum með að yngri gangur verði sameinaður þessa daga.

Á þriðjudag var jólaleikrit í Turninum fyrir yngri gang. Leikritið byrjaði kl.9.30 og stóð til kl.10.00. Börnin ykkar voru svo stillt og alveg til fyrirmyndar á sýningunni - eins og alltaf :o)

Við erum alveg rosalega dugleg að syngja jólalögin og ég efa ekki að það skili sér heim.

Við á Lundi sendum ykkur og fjölskyldum hugheilar jólakveðjur og þökkum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.  Lifið heil.

Kveðja,

Sædís, Tinna, Flavía og Íris.

 

Kópavogur 14.desember 2012

 

Afsakið hvað er langt frá síðasta vikubréfi !

Í þarsíðustu viku fórum við ekki mikið út vegna hálku. Við vorum því dugleg að nýta okkur dúkkukrókinn sem var svæðið okkar í þeirri viku. Við erum líka afar ánægð með ljósagönguna í þeirri viku þó svo að við höfum þurft að bíða svolítið eftir að það væri sandað en við þorðum ekki að fara af stað nema það væri búið. Flestir ef ekki allir vorum líka fljótir að gleyma kuldanum þegar við komum inn í heita súkkulaðið, smákökurnar og piparkökurnar sem börnin höfðu bakað sjálf!

Þessa viku hefur vantað starfsfólk hjá okkur vegna orlofs og veikinda. Við höfum því lítið farið á svæðið okkar sem er listasmiðjan en eftir jólaballið í dag fengu þeir sem voru mættir að fara og mála í listasmiðjunni.

Ína hefur verið ráðin fram að jólum og var hjá okkur alla þessa viku og verður einnig á mánudag. Það var mikill fengur að fá hana til okkar.

Anna Marín okkar hefur fengið leyfi í Baugi til að klára BS ritgerð sína í Sálfræði. Hún verður í leyfi til 27.janúar og fer þá í 100% starf á Brekku. Við þökkum henni innilega fyrir samveruna og sjáum svo sannarlega á eftir henni.

Jólaballið gekk vel í dag. Eftir reynslu síðustu ára ákváðum við að börnin mættu dansa frjáls við jólalögin hjá jólatrénu. Sumir voru alveg steinhissa á þessu öllu saman og voru bara stjarfir á meðan að aðrir dönsuðu og sungu af öllum lífs og sárkröftum.

Jólagjafirnar eru að mestu tilbúnar til afhendingar. Það er þó ekki alveg búið en það mun klárast allra fyrstu dagana í næstu viku og við munum sennilega biðja ykkur að taka þær heim miðvikudag eða fimmtudag.

Nóg er að gera í desember að halda afmæli hjá okkur en 8 börn af 16 eiga afmæli í þessum mánuði.

Börnin eru mjög áhugasöm um að syngja og dansa með jólalögunum í söngstundinni – það er alveg unun að fylgjast með því.

Okkur þætti vænt um að þið létuð okkur vita ef börnin eru í fríi í kringum hátíðarnar.

 

Takk, takk og góða helgi.

Kennarar á Lundi

 

 

Kópavogur 30.nóvember 2012

 

Við fórum öll saman í gönguferð á þriðjudag. Það var alveg fljúgandi hálka og fórum við því hægt yfir. Við fórum upp fyrir leikskólann og niður með Samkaupum og þá var okkur litið á klukkuna. Hún var orðin 10.30 og þurftum því að fara strax aftur til baka. Við máttum hafa okkur öll við að standa í fæturna.

Á miðvikudag vorum við öll inni og fengum að baka piparkökur tvö og tvö í einu. Á meðan við vorum ekki að baka þá vorum við annað hvort á heimastofunni að leika í frjálsum leik eða í dúkkukróknum okkar.

Allir fóru í Turninn í þessari viku og einnig á svæði vikunnar sem var Dúkkukrókur. Í næstu viku erum við með Skynjunarstöð.

Nú er aðventan að ganga í garð. Við erum því aðeins byrjuð að undirbúa hana með því að syngja jólalögin. Núna í byrjun leggjum við áherslu á 3 jólalög en syngjum svo fleiri lög með. Þau lög sem við leggjum áherslu á eru Adam átti syni sjö, Jólasveinar ganga um gólf og Skín í rauðar skotthúfur. Þessi lög verða svo sungin í lok ljósagöngunnar sem verður í næstu viku eða 6.desember kl.8:15. Þá eiga börnin að koma með vasaljós með sér að heiman og nota þau til að lýsa upp skammdegið í göngunni. Að lokinni göngunni förum við svo í efri garðinn og syngjum þessi 3 jólalög saman áður en við förum svo inn og gæðum okkur á piparkökunum sem börnin hafa verið að baka þessa vikuna og heitu kakói.

Við erum vel á veg komin að klára jólagjafirnar og höfum verið að mála jólamynd með fingramálningu og einnig stimpluðum við hendurnar okkar á jólatré sem Flavía klippti út, til að skreyta svolítið hjá okkur. Það er því ekki ósennilegt að einhverjir séu með græna fingur í dag :o)

Í dag í samverustund tókum við upp stutt myndband þegar við vorum að syngja og gera hreyfingarnar við lagið Adam átti syni sjö. Munum svo að njóta aðventunnar :o)

 

Takk, takk og góða helgi.

Kennarar á Lundi

 

 

 

Kópavogur 22.nóvember 2012

 

Fyrsti snjórinn kom fyrir síðustu helgi. Auðvitað skelltum við okkur út í snjóinn og sendum svo foreldrum þeirra barna sem voru mætt mynd af barninu þeirra að leika úti í snjónum. Við fengum frábær viðbrögð frá langflestum foreldrum – takk fyrir það. Á mánudag var svo leikskólinn lokaður vegna skipulagsdags.

Á þriðjudag byrjaði Sólný Inga í aðlögun hjá okkur á Lundi. Við bjóðum hana og fjölskyldu hennar hjartanlega velkomna til okkar. Nú eru börnin orðin 16 á Lundi.

Svæði þessarar viku er listasmiðjan. Allir hafa fengið að fara í listasmiðjuna. Áfram erum við að undirbúa jólin.

Í gær fimmtudag var svo mikil hálka að við ákváðum að vera inni. Eplahópur og appelsínuhópur fóru í könnunarleik. Annars vorum við í frjálsum leik inni á heimastofu og einhverjir fengu að fara í listasmiðjuna. Í dag föstudag fer svo bananahópur í könnunarleik og enn fleiri fara í listasmiðjuna.

Svæði næstu viku er dúkkukrókur.

Erum búnar að bæta við myndum úr liðinni viku og prófuðum að setja inn eitt myndband úr söngstund í gær fimmtudag þar sem við ákváðum að standa aðeins upp og syngja Höfuð, herðar, hné og tær.

 

Takk, takk og góða helgi.

Kennarar á Lundi

 

 

Kópavogur 15.nóvember 2012.

 

Föstudaginn í síðustu viku vorum við með innidag á Lundi. Börnin fóru öll í dúkkukrókinn í litlum hópum og svo voru stöðvar í boði inni á heimastofunni okkar.

Þessa vikuna höfum við farið á skynjunarstöð í stöðvavinnunni. Flest öll börnin hafa farið tvisvar sinnum í vikunni á skynjunarstöðina. Í skynjunarstöðinni er m.a. segultafla og myndvarpi. Þessi stöð er alveg ný hjá okkur og því en í þróun.

Við höfum einnig farið út og fórum í gönguferð á þriðjudag. Við löbbuðum öll í þetta sinn, enginn í kerru. Á leiðinni fundum við polla og einnig var hálka á köflum. Pollarnir heilluðu og ekki var verra þegar Krummi sjálfur flaug framhjá okkur og krunkaði.

Af gefnu tilefni viljum við biðja ykkur að láta börnin ekki koma með neitt matarkyns með sér. Við byrjum daginn á hafragraut og svo eru ávextir um kl.9.

Á mánudag er leikskólinn lokaður. Þá er skipulagsdagur hér í Baugi. Við sjáumst svo hress og kát á þriðjudag en þá kemur Sólný Inga til okkar í aðlögun.

 

Bestu kveðjur,

Sædís, Tinna, Flavía, Íris og Anna Marín.

 

Kópavogur 8.nóvember 2012

 

Síðastliðinn föstudag vorum við inni vegna veðurs og einnig vegna skorts á kennurum. Við ákváðum við að prófa að búa til 4 stöðvar inni á heimastofunni og börnin gátu farið á milli að vild. Í boði var að leika með trélest, leika með dýrin, pinna eða lita. Þetta gekk ljómandi vel en var auðvitað alveg nýtt fyrir börnin. Við vorum tveir kennarar sem stóðum vaktina og skiptum okkur niður á stöðvarnar.

Því miður féll niður vettvangsferð sem áætluð var á þriðjudag. En áfram hafa forföll kennara sett strik í reikninginn og við því þurft að taka mið af því.

Nú er flestum aðlögunarsamtölunum lokið. Við erum aldeilis ánægðar með jákvæð viðbrögð og hrós í okkar garð. Takk fyrir það !  Þið eruð frábær og eigið svo yndisleg börn sem við njótum að fá að vinna með.

Dúkkukrókurinn er stöð vikunnar hjá okkur. Allir hóparnir hafa fengið tækifæri til að leika sér á þeirri stöð og einnig farið í Turninn eftir stundaskrá. Næstu viku prófum við svo nýja stöð sem er Skynjunarstöð.

Ég hafði skrifað á töfluna að það hefur komið upp njálgur á eldri gangi og í gær kom upp annað tilfelli. Við biðjum því alla að hafa það í huga og fylgjast vandlega með sínu barni.  Hægt er að lesa um hér um einkenni og meðferð við njálg  http://baugur.kopavogur.is/foreldrar/ganglegt/frodleikur/nr/3288  .

Svo minnum við á að leikskólinn er lokaður mánudaginn 19.nóvember næstkomandi því að þá er skipulagsdagur. Daginn eftir, 20.nóvember, byrjar hjá okkur Sólný Inga.

 

Bestu kveðjur,

Sædís, Tinna, Flavía, Íris og Anna Marín.

 

Kópavogur 1. nóvember 2012

Við enduðum síðustu viku á náttfata og bangsadegi. Allir mættu í náttfötum og með bangsa. Auðvitað byrjuðum við daginn eins og aðra föstudaga með ristuðu brauði.  Við borðuðum vel af því eins og alltaf. Allir fengu að sýna hinum börnunum sinn bangsa. Fyrir hádegismatinn horfðum við á „Bóbóbangsa bíó“. Börnin voru mjög stillt og áhugasöm. Þetta var skemmtileg tilbreyting.

Á þriðjudaginn fórum við í gönguferð hér í hverfinu og á leiðinni sáum við litla flugvél og einnig sáum við kisu. Við stoppuðum svo í „Kóngulóavefnum“ í miðjum Baugakórnum og fengum að leika okkur frjálst. Myndavélin var með í för en varð mjög snögglega batteríslaus og því fáar myndir úr ferðinni. Afsakið það. Við stefnum á að fara í vettvangsferðir út fyrir lóð leikskólans alla þriðjudaga.

Svo var komið að leikfangadeginum í gær miðvikudag. Börnin voru mjög hógvær þetta árið og komu öll með lítið dót og dót sem komst auðveldlega í skúffuna :o)  Þau fengu að leika með dótið fyrir hádegi. Í samverunni fyrir hádegismatinn settum við svo allt dótið að heiman í litla hrúgu og fórum í gegnum hana og leituðum að eiganda hvers og eins. Þá sáu allir dótið sem kom að heiman og hver átti hvað. Börnin tóku svo dótið sitt en prófuðu svo að skiptast á.

Í dag fimmtudag eru aðlögunarviðtöl vegna þeirra barna sem byrjuðu leikskólagöngu sína hjá okkur 10.september. Næsta fimmtudag eru svo komið að þeim sem byrjuðu 19.september. Í lok dagsins í dag verður kominn upp listi þar sem hægt er að skrá sig á tímasetningar sem í boði eru.

Þessa viku var listasmiðjan svæðið okkar. Öll börnin fóru í listasmiðjuna og nýttum við tímann til að undirbúa jólin – jebb – þið lásuð rétt við erum byrjuð að undirbúa jólin. Einnig fórum allir a.m.k. einu sinni í Turninn í vikunni. Að mestu var hægt að halda í skipulagið í Turninum en einn morguninn voru rafvirkar að vinna þar inni og þá gátum við ekki fengið að nota salinn á meðan.

Enn og aftur minnum ykkur á að láta okkur vita á hverjum degi ef um forföll er að ræða í síma 5704356. Hægt er að biðja um inniveru 1 dag eftir að börnin hafa verið heima veik en albest er að börnin séu búin að ná sér að fullu svo að þau geti tekið þátt í öllu starfinu. Ekki er boðið uppá fyrirbyggjandi inniveru.

 

Bestu kveðjur,

Sædís, Tinna, Flavía, Íris og Anna Marín.

Kópavogur 25.október 2012

Síðasta föstudag enduðum við Heilsuvikuna með sameiginlegu ávaxta- og grænmetishlaðborði. Við settumst öll saman í hring og létum skálina ganga á milli. Hvert barn tók sér einn ávöxt eða grænmeti og lét svo skálina ganga áfram. Fyrst um sinn tókum við eftir því að þau börn sem höfðu komið með að heiman fengu sér af sínu en hin fengu sér epli og banana sem við buðum uppá. Það breyttist svo eftir 2-3 hringi. Seinna um daginn fengum við okkur líka fleiri ávexti og grænmeti.

Á mánudag byjaði hjá okkur nýr kennari hún Íris. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna. Hún hefur kynnst krökkunum vel og fellur vel inní hópinn okkar :o)

Börnin hafa farið í Turninn þessa vikuna og njóta sín vel. Ég hvet ykkur því til að kynna ykkur hvenær ykkar barn á tíma í Turninum svo það missi ekki af „babú“.

Það hefur verið þó nokkuð um veikindi hjá okkur uppá síðkastið. Við vonum að það fari að lagast og að allir verði hraustir sem fyrst. Við minnum ykkur á að láta okkur vita á hverjum degi ef um forföll er að ræða í síma 5704356. Hægt er að biðja um inniveru 1 dag eftir að börnin hafa verið heima veik en albest er að börnin séu búin að ná sér að fullu svo að þau geti tekið þátt í öllu starfinu.

Í dag fimmtudag eru svo fyrstu aðlögunarviðtölin fyrir þau börn sem byrjuðu 20.ágúst. Það verða svo viðtöl fimmtudaginn næsta, 1.nóvember, fyrir þau börn sem byrjuðu hjá okkur 10.september. Í dag verður settur fram listi þar sem hægt er að skrá sig á tímasetningar fyrir viðtölin. Viðtölin fara fram milli kl.11.40 og 13.30.

Þessari viku líkur svo með BANGSA- OG NÁTTFATADEGI  á morgun föstudag í tilefni af alþjóðlega bangsadeginum sem er 27.október ár hvert. Við hvetjum alla til að koma með bangsa að heiman og að klæðast náttfötum. Við lesum bækur um bangsa og einnig ætlum við að skoða bangsana sem hvert og eitt kemur með að heiman.

 

Bestu kveðjur,

Sædís, Tinna, Flavía, Íris og Anna Marín.

 

Kópavogur 18.október 2012

 

Nú er heilsuvikunni senn að ljúka. Í heilsuvikunni höfum við lagt aukna áherslu á gildi þess að borða hollan mat og að hreyfa sig auk þess hve mikilvægt er að fá nægan svefn og hvíld. Við höfum fengið alveg sérstaklega hollan hádegismat. Við fórum í Turninn mánudag og þriðjudag auk þess að fara út alla daga vikunnar. Úti höfum við fengist við ýmis verkefni og áskoranir og þar eins og annars staðar hafa börnin verið hvött til sjálfshjálpar. Á dagskrá var að fara í vettvangsferð í vikunni en sökum forfalla hjá kennurum urðum við að fresta henni.

Á morgun föstudag ætlum við að ljúka heilsuvikunni og biðjum við öll börnin að koma með hálfan/heilan ávöxt eða grænmeti niðurskorið í poka eða íláti að heiman. Við setjum það svo á sameiginlegt hlaðborð, hver deild fyrir sig.

Jónína sem kom til starfa hjá okkur í síðustu viku hefur ákveðið að snúa sér að öðru. Við höfum ráðið í þá stöðu Írisi en hún hefur starfað sem dagmamma síðustu misseri. Hún hefur einnig 3ja ára starfsreynslu í leikskóla. Hún kemur að öllum líkindum til starfa 1.nóvember næstkomandi. Við hlökkum til og tökum vel á móti henni.

'iris-Dogg-2011 Íris Dögg

Foreldrafundurinn í gær gekk vel og mættu foreldrar 10 barna af 16. Takk fyrir það :o) Við áttum notalegt og skemmtilegt spjall auk þess að ræða hvað er framundan hjá okkur í vetur. Farið var yfir dagskipulagið og einstaka þættir útskýrðir. Á fundinum kom m.a. fram að foreldrum fannst þeir ekki þekkja nægilega vel nöfnin á hinum börnunum og þess vegna ætlum við að útbúa lítið skjal með mynd af öllum þeim og nöfnin þeirra við. Það ætti að auðvelda foreldrum að læra nöfnin á öllum börnunum.  

Aðlögun barnanna er nú lokið í bili og hefur gengið framar vonum. Eitt barn á eftir að aðlagast til okkar, 20.nóvember næstkomandi. Við kennararnir skynjum öryggi og vellíðan í barnahópnum. Lítið er um grát og allir virðast áhugasamir og spenntir fyrir starfinu okkar. Mikilvægt er að hafa „kveðjustundina“ á hverjum morgni stutta og hnitmiðað og ekki verra ef hún er alltaf eins.

Aðlögunarviðtölin hefjast í næstu viku fyrir þau börn sem aðlöguðust 20.ágúst síðastliðinn. Settur verður upp listi þar sem foreldrar geta skráð sig á tímasetningu sem henntar þeim best. Viðtölin fara fram milli kl.12 og 13.30 á fimmtudaginn.

Við minnum ykkur á að láta okkur vita fyrir kl.8:45 ef um er að ræða forföll í síma 5704356.

Föstudaginn 26.október, í næstu viku, ætlum við að gera okkur glaðan dag og vera með Bangsa- og náttfatadag í tilefni af alþjóðlega bangsadeginum 27.október. Allir eru hvattir til að koma með bangsa að heiman og að klæðast náttfötum. Við munum lesa bækur um bangsa og einnig skoða bangsana sem hvert og eitt kemur með.

 

Bestu kveðjur,

Sædís, Tinna, Flavía og Anna Marín.

 

Sæl öll sömul.

 

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar hjá okkur hér á Lundi. Við byrjuðum aðlögun 20.ágúst og hún stendur enn. Fljótlega kom upp sérkennileg staða þar sem við vorum búin að aðlaga börn en síðan breyttist biðlistinn inn í leikskólann svo að við þurftum að færa 3 börn sem voru nýbúin að alagast hjá okkur yfir á aðrar deildar. Fyrst voru það Arnar Bjarki og Brimir Björn sem fluttust á Brekku og síðan Guðrún Rósa sem fluttist yfir á Klett. Það hefur þó gengið vel og þau eru sátt á nýjum stað og það er nú fyrir öllu. Enn á eftir að aðlaga eitt barn á Lund, í nóvember.

 

Það hafa átt sér stað starfsmannabreytingar hjá okkur . Í heildina verða börnin 16 á Lundi i vetur og við reiknum með að kennarar verði Sædís leikskólakennari með deildarstjórn í 80%, Tinna leikskólakennari í 60%, Flavía Annis leiðbeinandi í 100%, Jónína BA í félagsráðgjöf í  100%  og Anna Marín leiðbeinandi og nemi í sálfræði við HÍ í 40%. Jónína hóf störf síðasta þriðjudag.

 

Við ætlum því að nota tímann vel á næstunni til þess að kynnast hvert öðru og stilla saman strengi okkar. Einnig nýtum við tímann til að kynnast nýju umhverfi og svæðum sem við höfum aðgang að hér í skólanum. Það er mjög mikilvægt að börnin upplifi sig örugg á nýjum stað. Sjálfshjálp er eitthvað sem við leggjum mikla áherslu á og hvetjum við foreldra til að tileinka sér það einnig t.d. við matarborðið.

 

Lögin sem við erum að syngja þessa dagana eru m.a. Ég ætla að syngja, 5 litlir apar, Litalagið, Fiskalagið og Allur matur . Tinna er búin að útbúa lagalista yfir helstu lögin og við sendum ykkur hann í tölvupósti allra næstu daga.

 

Nú er búið að leggja gríðarlega vinnu og tíma í að setja inn myndir af starfinu inn á heimasíðu leikskólans. Búið er að setja inn myndir frá október og einnig hluta af september og ágúst. Við hvetjum ykkur endilega til að kíkja á þær.

 

Svo eru nokkur skilaboð til ykkar :o)

Því miður er ekki hægt að skilja eftir kerrur, bílstóla eða annað þess háttar hjá okkur í forstofunni eða í garðinum fyrir framan deildina. Við höfum alls ekkert aukapláss og það hefur skapast slysahætta vegna þessa.Hægt er að geyma kerrur í matjurtagarðinum okkar.

Ekki inn á útiskóm! Við viljum benda ykkur á að fara alls ekki inn á deild á útiskónum. Börnin leika sér á gólfinu allan daginn og því þykir okkur alls ekki við hæfi að gengið sé inn á skítugum skónum.

Svolítið er um óskilamuni á kolkrabbanum okkar sem hangir í loftinu í forstofunni. Við minnum ykkur því á að merkja vel allan fatnað, skó, snuð o.þ.h. Það er einnig mikilvægt ef börnin taka af sér vettlinga o.þ.h. í garðinum.

Einnig viljum við hvetja ykkur til að virða vistunartímana. Bæði á morgnana og svo seinnipartinn.

 

Vinsamlega látið okkur vita á hverjum degi ef um er að ræða einhver forföll  í síma 5704356. 

 

Bestu kveðjur,

kennarar á Lundi.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica