Sími  4415600 / 8666926

Tjörn

Deildin Tjörn

14. september 2015

Kæru foreldrar

Við fórum í vettvangsferð í september á Degi náttúrunnar og fundum skordýr og laufblöð sem við höfum verið að vinna með. Börnin völdu sér lauf sem þau stækkuðu og máluðu.

Elstu börnin fóru á tónleika hjá sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörðu um daginn og hlustuðu á söguna um Flumbru tröll, börnin hennar og kærasta. Sagan um tröllin vakti upp mikinn áhuga hjá elstu börnunum á tröllum, þessi áhugi kveikti áhuga hjá yngri börnunum líka.

Við hittum Hörðuvallaskólanemendur í Magnúsarlundi um daginn sem var mjög gaman, á heimleiðinni fundum við flotta steina sem eru orðnir að fínustu tröllum sem eru í glugganum hjá okkur.

Sjálfsmynd októbermánaðar verður saumuð út.

Á föstudaginn 16. september er bleiki dagurinn þá ætlum við að koma með eða í einhverju bleiku.

27. október er alþjóðlegi bangsadagurinn þá má koma í náttfötum með bangsa.

30. október er búningadagur þá má koma í búningum.

6. nóvember ætla elstu börnin að fara með krökkunum úr Hörðuvallaskóla í eineltisgöngu til að vekja okkur til umhugsunar um einelti. Vinnum með vináttu og samskipti okkar í tengslum við það.

Við erum að skyma fyrir lestrarhæfni barnanna þessa dagana og erum að ríma, klappa akvæðin, taka sundur orð og fleira þessu tengt í samverustundum.

Heimsókn slökkviliðsins vakti mikla lukku hjá börnunum enda þau orðin eftirlits-liðsmenn þeirra heima og í leikskólanum.

Alltaf líf og fjör og mikið að gera hjá okkur á Tjörn eins og sjá má.

 

Kær kveðja kennarar á Tjörn


10. febrúar 2015

Febrúar hefur verið viðburðaríkur sem af er. Við fórum á Gerðarsafn og skemmtum okkur vel, fórum með elstu börnin í Hörpu og komum við í alþingisgarðinum og ráðhúsinu/tjörninni og hengdum svo upp myndir í Salarlauginni í tilefni af degi leikskólans. Næst á dagskrá er að undirbúa komu bollu og sprengidags!  Endilega kíkið á myndirnar úr ferðunum á myndasíðunni okkar.

sjá fleiri myndir á myndasíðu


28 október 2014

Nýjar myndir úr starfinu


29. ágúst 2014

Síðustu dagana í ágúst höfum við verið að vinna svolítið með tölurnar. Börnin eru mjög áhugasöm og eru greinilega tilbúin að læra nýja og spennandi hluti eftir sumarfríið. Svo kom Leikhópurinn Lotta til okkar í garðinn og það mæltist vel fyrir. Nokkrir voru þó örlítið smeykir við Gilitrutt í byrjun.


kveðja Friðborg, Guðlaug og María

3.júlí 2014

Sumarhátíð Baugs var haldin með pompi og prakt föstudaginn 20.júní. Við vorum með hoppukastala, útistöðvar, sirkus Íslands var með skemmtiatriði og gæddum við okkur á pylsum.

Fimmtudaginn 26.júní héldum við loksins hið langþráða fótboltamót!  Við náðum að spila á gervigrasvellinum úti við Hörðuvallaskóla. Við vorum með 2 lið og i voru 9 börn í hvoru lið. Liðin voru blönduð af báðum Ævintýradeildunum, Fossi og Tjörn. Börnin spiluðu tvisvar sinnum 10 mínútur og þetta gekk framar vonum! Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með því hversu réttsýn börnin eru, það var sem sagt engin "Hönd Guðs" í þessum leik ;) Sumir eru með leikaraskapinn alveg á hreinu en við vorum nú fljót að sjá í gegnum það...

Eftir leikinn var frjáls leikur á skólalóðinni en sumir gátu ekki slitið sig frá fótboltanum og héldu áfram þar til haldið var til baka.

Föstudaginn 27.júní gengum við í Guðmundarlund þar sem við eyddum deginum í yndælis veðri. Við skemmtum okkur í skóginum, lékum við tjörnina og margt fleira. Við grilluðum pylsur og gengum svo aftur heim í Baug.

Leikskólinn lokar 11.júlí klukkan 13 og viljum við óska ykkur gleðilegs sumars og þökkum ykkur fyrir samstarfið á síðustu árum.

Kveðja
Margrét Hlín, Gerður, Hansi, Jóna Heiða og Kristín20.júní 2014

Síðasta fimmtudag fórum við í Hlíðagarð með Fossi. Við fengum frábært veður og lékum okkur í klifurgrindinni, fórum í Kubb og fleiri leiki. Við borðuðum hádegismatinn í  garðinum, samlokur og kókómjólk. Á heimleiðinni kíktum við í garðinn til Hansa og hann kynnti okkur fyrir hundinum sínum, Loka.

Hjóladagurinn fór fram á föstudaginn var. Við hjóluðum í Hörðuvallaskóla þar sem við lékum okkur og hjóluðum.

Við höfum verið með þemavinnu í tenglsum við HM. Á miðvikudaginn horfðu við á leik Þýskalands og Portugals. Við fengum fána málaða á okkur og borðuðum popp. En við erum búin að vera upptekin af fánum landanna í HM og teiknum þá mikið. Við gerðum einnig caxirola, sem er hljóðfæri HM (hrissta).


Fótboltaleik Foss og Tjarnar sem átti að vera í gær var frestað vegna veðurs og fer leikurinn fram þegar betur viðrarar.

Sumarhátið Baugs fer fram í dag og hlökkum við til að hitta ykkur foreldrana ,hoppa í hoppuköstulum, leika og borða pylsur.

Góða helgi!

Kennarar á Tjörn6.júní 2014 

Sæl,
Í stöðvavinnu höfum við verið að gera draumfangara og borðspil.
Einnig kom Hansi með fallegt fjörugull sem við skoðuðum.

Á fimmtudag fórum við í fjöruferð í Kópavogsfjöruna  og skemmtum okkur ótrúlega vel. Við sáum margt skemmtilegt eins og lifandi krabba og nokkra dauða, fjaðrir, fallega steina, skelja, kuðunga, fugla og margt annað.Í dag verðum við að mestu úti enda ekki oft sem við fáum svona bongóblíðu!

Í dag verðum við að mestu úti enda ekki oft sem við fáum svona bongóblíðu!

Við viljum biðja ykkur um að athuga aukafatakassa barnanna því sumum vantar aukaföt. Einnig er gott að hafa létta skó þegar vel viðrar og munið að bera sólavörn á börnin á morgnanna. Við berum svo á þau eftir hádegi.

Á fimmtudag (12.júní) stefnum við á Kópavogstjörn og Hlíðargarð. Á föstudaginn (13.júní) er hjóladagur þar sem börnin koma með hjól og hjálm.

Hafið það gott um helgina!

Kennarar á Tjörn30. maí 2014

Sæl,
Útskriftarferðin gekk mjög vel og skemmtum við okkur konunglega. Veðrið lék við okkur og nutum við þess að vera úti í Viðey í sól og „sumaryl“. Við skoðuðum fjöruna og nokkrir blotnuðu aðeins en það gerði ekkert til enda flest allir með aukaföt. Í hádeginu grilluðum við pylsur og fengum djús. Við fórum á leikvöllinn og lékum okkur og fengum okkur síðdegishressingu áður en haldið var heim með ferjunni.

Við viljum þakka fyrir útskriftardaginn sem var svo hátíðlegur og yndislegur. Ótrúlegt að „krílin“ okkar séu að útskrifast. Börnin stóðu sig með prýði og veitingarnar voru með eindæmum glæsilegar. Við viljum þakka ykkur fyrir frábæra útskriftargjöf og á IPADinn eftir að koma að góðum notum.

Frá með deginum í dag heitum við Ævintýradeild. Við munum vera áfram á Tjörn en bara til að gera lífið skemmtilegra breytum við um nafn.

Í dag hættir Inga Jóna og heldur til Noregs  og Emma Dís og Rakel Birta kveðja okkur líka í dag. Við þökkum þeim fyrir samveruna síðustu árin og óskum þeim velfarnaðar.

Góða helgi
Kennarar á Tjörn

 

Myndir úr Viðey, skógarferð og útskrift

12.maí 2014

Sæl,
Síðasta vika var mjög viðburðarrík. Við skelltum okkur m.a. í bæjarferð á miðvikudag. Við fórum í Hafnarhúsið að skoða árlega útskriftarsýningu nemenda Listaháskóla Íslands (myndlistardeild og hönnunar-og arkitektúrdeild). Þar fengum við leiðsögn um safnið og skoðuðum mörg áhugaverð verk: fatalínur, skrímslaverk, videoverk, bók, boltavideo og margt fleira.  Þar sem veðrið lék við okkur borðuðum við hádegismatinn á Arnarhóli og skelltum okkur að lokum inn í Hörpuna áður en við tókum strætó heim í Kópavog.

 

Í stöðvavinnu unnum við í að klára verk fyrir Opna húsið: augun, húsin, fiskamyndir og fleira.
Opna húsið gekk mjög vel og viljum við þakka ykkur fyrir komuna. Það er svo gaman að hafa uppskeruhátíð eftir veturinn og sýna hvað við höfum verið að vinna/læra.

 

Við höfum hugsað okkur að hafa miðvikudaga sem vettvangsdaga. Þannig að ef það viðrar vel til ferðar þá gætum við farið í stuttar eða lengri ferðir. Lengri ferðir reynum við að auglýsa með smá fyrirvara, annað hvort á töflunni fyrir framan deildina eða í tölvupósti.

 

Við höldum áfram að æfa Bokki sat í brunni og erum búin að bæta 3 síðustu erindunum við.

Bokki sat í brunni
Bokki sat í brunni,
hafði blað í munni,
hristi sína hringa,
bað fugl að syngja.

Grágæsamóðir
ljáðu mér vængi,
svo ég geti flogið
upp til himintungla.

Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja
þar situr hún móðir mín
og kembir ull nýja.

Það sitja nunnur,
skafa gulltunnur,
þar sitja systur,
skafa gullkistur.

Þar sitja sveinar,
skafa gullteina,
þar sitja freyjur,
skafa gulltreyjur.

Þar sitja mágar,
skafa gulltágar,
þar sitja prestar,
skafa gullfestar.

Þar sitja afar ,
skafa gullnafar,
þar situr hann faðir minn
og skefur gullhattinn sinn.

Kveðja Kennarar á Tjörn

 

25.apríl 2014

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn,
Við erum búin að hafa það gott í þessari stuttu viku og búin að njóta góða veðursins.
Á miðvikudag skelltum við okkur í vettvangsferð í  leikskólann Rjúpnahæð og lékum okkur úti með krökkunum þar. Við erum vön að fara í Kórinn á miðvikudögum en þeir tímar eru nú hættir.
Í stöðvavinnu vorum við m.a. að vinna í holukubbum, hlutverkakrók og vinna með fínhreyfingar.
Við erum að æfa Bokki sat í brunni. Við æfum fyrstu 4 erindin núna og æfum svo afganginn síðar.

Bokki sat í brunni
Bokki sat í brunni,
hafði blað í munni,
hristi sína hringa,
bað fugl að syngja.

Grágæsamóðir
ljáðu mér vængi,
svo ég geti flogið
upp til himintungla.

Tunglið, tunglið taktu mig
og berðu mig upp til skýja
þar situr hún móðir mín
og kembir ull nýja.

Það sitja nunnur,
skafa gulltunnur,
þar sitja systur,
skafa gullkistur.

 

Kveðja
Kennarar á Tjörn

 

15. apríl 2014

Sæl,

það eru komnar myndir á netið frá skólaheimsókninni í Hörðuvallaskóla og nokkrar úr starfinu okkar í apríl. Í vikunni hafa ýmsar stöðvar verið í boði t.d. leiklist, páskaföndur, listasmiðja, skólaverkefni og holukubbar. Við óskum ykkur gleðilegra páska og hafið það sem allra best í fríinu.

Páskakveðja

Margrét, Gerður, Hansi, Inga Jóna og Jóna Heiða

 

11.apríl 2014

Sæl,

Skólaheimsóknin gekk mjög vel og vöru börnin alveg til fyrirmyndar. Á mánudeginum kíktum við í heimsókn í heimastofuna og gerðum eitt verkefni og lékum við okkur úti á skólalóð í lokin. Á þriðjudeginum fórum við aftur í heimastofu þar sem lesin var saga fyrir okkur á meðan krakkarnir borðuðu nestið sitt. Börnin fengu svo verkefnahefti sem þau unnu í áður en við héldum heim aftur. Á miðvikudag fórum við í heimsókn í dægradvölina, fórum svo inn í matsal að borða nestið okkar og enduðum á bókasafninu þar sem Helgi skólastjóri sagði okkur sögu.

Í morgun voru teknar myndir af börnunum og gekk myndatakan mjög vel.

Eigið góða helgi

Margrét, Gerður, Hansi, Inga Jóna og Jóna Heiða

 

4.apríl 2014

Sæl,

Gerður Björk Harðardóttir verður í 50% deildastjórastöðu hjá okkur á Tjörn. Hún er lærður grunnskólakennari og mun hún taka við sem hópstjóri í Úlfahóp. Gerður er í undirbúning á þriðjudagsmorgnum 8:00-12:00. Póstfangið hennar er: gerdurbjork@kopavogur.is

Í þessari viku höfum við verið að vinna með stærðfræði, Numicon, Polydron, skuggaleikhús og fleira. Við tókum upp regluna að GANGA FRÁ aftur þar sem börnin virðast hafa gleymt hvernig það er gert ;) Við munum því leggja áherslu á  þá reglu aftur næstu 2 vikurnar J

Þá er komið að skólaheimsókn í Hörðuvallaskóla. Nemendur og kennarar í 1. bekk í Hörðuvallaskóla komu í heimsókn til okkar áðan og afhentu öllum boðskort í heimsóknina. Þau taka á móti okkur elstu börnum leikskólans dagana 7. – 11. apríl.
Þessa daga fá börnin að kynnast skólanum, dægradvöl, börnunum sem eru í 1. bekk og þeim börnum sem koma í skólann næsta haust. Þau fá vinnubók til að vinna í, gera páskaföndur og margt fleira. Við ætlum að taka pennaveskin með okkur í heimsóknina auk þess að koma með nesti þriðjudag og miðvikudag. (Ávextir, grænmeti og vatn í brúsa).

Dagskrá:

Mánudagur 7. apríl - Heimsækja skólann kl. 13.00

Þriðjudagur 8. apríl - mæta kl. 9.30 - 11.00 - KOMA MEÐ NESTI

Miðvikudagur 9. apríl - mæta kl. 9.30 - 11.00 - KOMA MEÐ NESTI

 

Góða helgi
Gerður, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Margrét Hlín 

 

 

Öskudagur

 

 

 28.febrúar 2014

Sæl,
Ferðin í Víkingarheima gekk mjög vel. Við skoðuðum víkingasýninguna og fengum að prófa víkingabúninga og fara í víkingaskip. Við borðuðum samlokur í hádeginu og fengum prinspóló í eftirrétt. Að lokum fórum við út að leika og vorum svo heppin að finna svell þar sem við skautuðum og staura til að klifra á. Börnin voru mjög ánægð með ferðina og voru þau að sjálfsögðu ótrúlega stillt og prúð.

Kórinn (HK) er kominn í frí næstu 2 vikurnar og var ekki heldur síðasta miðvikudag. Það þarf því ekki að koma með íþróttaskó næstu 2 miðvikudaga. Við fórum í vettvangsferð síðasta miðvikudag í staðinn en við gengum í Salalaug að skoða listaverkin okkar. Við ætlum að nota næstu 2 miðvikudaga í vettvangsferðir í stað Kórs. Erum ekki alveg búin að ákveða hvert við förum næst en börnin eru spennt að kíkja á leikskólann Fífusali hliðina á Nettó í Salahverfi. Okkur langar líka að kíkja á nýja leikskólann, Austurkór. Við látum ykkur vita þegar það er ákveðið.  

Í þessari viku höfum við verið að gera bolluvendi í stöðvavinnu og verða þeir tilbúnir í dag og þau fara með þá heim til að nota á mánudaginn.

Á miðvikudaginn er öskudagur og þá mega börnin koma í búningum. Við munum slá köttinn úr tunnunni og hafa gaman.

Og svona í lokin vil ég biðja ykkur um að kíkja á hólf barnanna og athuga aukaföt. Einnig þarf að passa að þau séu með fatnað sem hæfir veðri.

Eigið góða helgi
Margrét Hlín, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet

 

 

7.febrúar 2014

Sæl,
Við héldum áfram að vinna  „Buxur, vesti, brók og skór“ í stöðvavinnu í þessari viku. Börnin teiknuðu persónu og klipptu föt á hana og límdu á. Að lokum skrifuðu þau ljóðið „Buxur, vesti, brók og skór“. Myndirnar hanga upp í Salalaug í tilefni af Degi leikskólans sem var í gær, 6.febrúar. Gerið ykkur endilega ferð þangað og skoðið myndirnar frá Tjörn og hinum deildum leikskólans. Við munum svo fara í vettvangsferð í Salalaug við tækifæri að skoða myndirnar. Við látum ykkur vita hvenær við förum.

Við fórum aftur í Kórinn á miðvikudaginn þar sem HK-ingarnir tóku vel á móti okkur. Það var skemmtilegt eins og í hin skiptin og erum við mjög ánægð með þessa tíma. Við minnum ykkur á að börnin séu í þægilegum fatnaði og með íþrótta/götuskó þar sem það er óþægilegt að hlaupa og sparka í bolta í kuldaskóm eða stígvélum.

Það er komin dagsetning á Víkingaheima. Við förum þriðjudaginn 18.febrúar. Við auglýsum brottfaratíma síðar.

Við ætlum að biðja ykkur um að skoða aukafatakassann þar sem börnin blotna mikið í þessari hálku sem hefur verið að hrjá okkur  síðustu vikur. Það er mikilvægt að þau hafi auka buxur og sokka. Einnig mundi það flýta mikið fyrir ef þið gætum skoðað í þurrkskápinn í lok dags og sett vettlinga og föt barnanna í hólfin aftur, þ.e.a.s. ef þau eru orðin þurr.

Góða helgi!

Margét, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet

 

24.janúar 2013

Sæl,

Í þessari viku höfum við verið að vinna að skotthúfunum (dúsknum) sem við ætlum að hafa á þorrablótinu 30.janúar. Okkur vantar enn sokkabuxur/gammósíur til að klára þær. Það væri frábært ef þið fynduð a.m.k. einar „ónýtar“ eða sem þau/þið eruð hætt að nota. Það er í fínu lagi þó þær séu skræpóttar eða röndóttar, það gerir skotthúfurnar bara skrautlegri ;)  

Við erum að innleiða 4 reglur inn á Tjörn og tökum við eina reglu fyrir í 2 vikur í senn. Við byrjuðum á fyrstu reglunni okkar á mánudaginn: AÐ GANGA FRÁ. Við ræðum regluna í samverustund, höfum sýnikennslu með brúðum og nokkur börn ætla að sýna leikrit í vinastund (þar sem Rjóður, Foss og Mýri eru með okkur í samverustund á föstudögum) á eftir. Þið getið nýtt ykkur tækifærið og æft regluna heima :)

Bóndadagurinn er í dag og hlökkum við til að sjá bræður, pabba, afa og/eða frændur í kaffi klukkan 15.

Á döfinni:

·        Þorrablót 30.janúar þar sem börnin bragða á þorramat og við setjum upp skotthúfurnar okkar.

·        Dagur leikskólans er 6.febrúar og setjum við upp verk eftir börnin í Salalaug, eins og síðustu ár.

Að lokum vil ég biðja ykkur að athuga aukafatakassann. Það hefur verið ansi blautt upp á siðkastið og börnin blotna stundum í gegnum gallana (polla- og kuldagallana). Þá er nauðsynlegt að hafa auka buxur, sokka, nærföt, gammósíur og langermabol. Við eigum ekki mikið af aukafötum til að lána ef ekki eru aukaföt í kassanum.

Einnig er gott að hafa bæði pollagalla og kuldaföt því oft er svo blautt úti að við klæðum börnin í flísföt og pollagalla þó það sé snjór.

Hafið það gott um helgina

Kveðja

Margrét Hlín, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet

 

23. janúar 2014

Fyrir jólin 2013 fengu börnin á Tjörn að ráða alveg sjálf hvað þau myndu gefa mömmu og pabba í jólagjöf. Útkoman sýndi það og sannaði að fjölbreytileiki barnahópsins er mikill og að þeim er margt til lista lagt. Hver og einn hafði sínar hugmyndir að jólagjöf og fór svo að hæfileikar barnanna fóru í það að útbúa allt frá glerlistaverkum, jólakúlum, trefli, vefteppi, húsum, málverkum, sultu, kertastjaka, leirlistaverk og bækur.

Vinnuferlið var langt og strangt. Allt frá hugmynda- og skissuvinnu, hönnun og alveg að því að pakka gjöfunum inní jólapappír sem þau höfðu búið til sjálf. Meðfylgjandi eru myndir frá ferlinu.

 

 

17.janúar 2014

Sæl og gleðilegt ár!
Það sem er framundan hjá okkur á næstunni eru ferðir í Kórinn á miðvikudagsmorgnum og þurfa börnin að mæta klukkan 9:15 þá  morgna. Gott er að þau séu í þægilegum buxum og með íþrótta/götuskó til að vera í. Við eigum bakpoka til að nota í að ferja skóna yfir í Kórinn.

Það hafa orðið örlitlar breytingar á barnahópnum á Tjörn en Heiðar Magni er fluttur yfir á Foss þar sem það losnaði pláss þar. Við þökkum honum fyrir dvölina hjá okkur og eigum við eftir að sakna hans. En hann er sem betur fer ekki langt undan og eigum við eftir að rekast á hann oft á dag.

Börnin eru mjög spennt yfir dótadeginum í dag og eru þau að leika sér að dótinu sínu og eru mjög dugleg við að deila með félögum sínum.

Eigið góða helgi

Margrét, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet 

 

20.desember 2013

Sæl,
Í þessari viku höfum við verið að pakka inn jólagjöfum og föndra jólaskraut á jólatréð okkar á Tjörn. Við höfum reynt að hafa bara rólegt og notalegt hjá okkur. Við viljum minna á skipulagsdaginn þann 23.desember og er leikskólinn lokaður þann daginn.
Við á Tjörn óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Hafið það gott yfir hátíðarnar!

Jólakveðja
Margrét Hlín, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet

 

13.desember 2013

Sæl,

Síðustu tvær vikur höfum við haldið áfram að vinna í jólagjöfunum og jólaskrauti.
Tveir gestir hafa komið til okkar á Tjörn, Lúsin og Njálgurinn. Við viljum því biðja ykkur um að vera dugleg við að kemba börnunum og fylgjast með einkennum af Njálgnum. Af þessum sökum eru vatnsbrúsarnir í sóttkví og verða það þar til eftir jól.

Á þriðjudaginn  var brunaæfing. Viðvörunarkerfið fór í gang og við æfðum rýmingaráætlun leikskólans. Æfingin gekk vel og við komumst öll út á örskammum tíma.

Jólaballið er á eftir og eru börnin mjög spennt að dansa í kringum jólatréð og horfa á jólaleikrit sem nokkrir starfsmenn leikskólans sýna.

Hafið það gott um helgina!

Kveðja
Margrét Hlín, Inga Jóna, Jóna Heiða, Hansi og Saadet

 

29.nóvember 2013

Sæl veriði,
Í þessari viku höfum við verið að vinna að jólagjöfum og jólaskrauti sem við ætlum að hengja á jólatréð okkar. Það er dagatalið okkar á Tjörn og munu börnin skiptast á að setja jólaföndur á einn snaga (dag) fram að jólum. Á þriðjudaginn bökuðum við piparkökur en við fáum að gæða okkur á þeim eftir Ljósagönguna þann 6.desember.

Framundan er meiri jólagjafagerð og höfum við sett skógarferðirnar í frí á meðan við erum að vinna í þeim. Ljósagangan er föstudaginn 6.desember og munum við þá syngja nokkur  jólalag í bakgarðinum og ganga svo með vasaljós í kringum leikskólann. Að því loknu förum við inn á deildar og fáum okkur kakó og piparkökur. 

Við viljum þakka þakka ykkur fyrir skjót viðbrögð með útifatnað og aukaföt barnanna. Þau eru nú til fyrirmyndar!

Eigið góða helgi!

Margrét Hlín, Inga Jóna, Jóna Heiða, Hansi og Saadet

 

21. nóvember 2013

Börnin eru byrjuð að læra stærðfræði í gegnum Numicon kubba. Numicon kubbar eru ensk stærðfræði námsgögn sem eru hönnuð með meginstyrkleika barna í huga. Þeir eru lærdómur í gegnum leik, eftirtekt og sterk tilfinning fyrir mynstrum og það að börnin geti handleikið námsgögnin að vild og kannað mynstur þeirra. Á meðal verkefna sem börnin hafa þurft að glíma við er að læra að þekkja formin og tengja þau við tölustafi og einnig að hylja heila kubbaplötu með Numicon formum sem krefst gífurlegrar útsjónarsemi og hugsunar í lausnum.

IMG_0791    IMG_0773

IMG_0781  IMG_0775

 

13. nóvember 2013

Sæl,

Vináttugangan á föstudaginn gekk mjög vel. Börnin voru búin að búa til baráttuskilti um vináttu (Vinir leika hvorn við annan, vinir skilja ekki útundan o.fl.) Við marseruðum svo með Hörðuvallaskóla að íþróttahúsinu þar sem við fórum saman í leiki. Það var gaman að sjá þegar börnin hittu systkini sín og vini sem eru í skólanum. Þeim fannst það ekki lítið spennandi.

Drekahópur fór í skógarferð síðasta fimmtudag en við slógumst í för með Fossi sem fór einnig þann dag. Börnin voru upptekin við að finna felustaði, skoða skóginn með stækkunargleri og fannst þeim m.a. merkilegt hvernig „blæðir“ úr trjánum. Orri Freyr sá 2 járnstangir koma upp úr jörðinni og ályktaði að það væri til að halda uppi Magnúsartrénu.

Úlfahópur fór í skógarferð í gær og þá var áhuginn mestur á gömlum stiga sem er í Magnúsarlundi og trjástubbum. Þau voru dugleg við að príla upp á stubbana og halda jafnvægi. Hvað stigann varðar drógu börnin hann í sameiningu upp að tré til að príla í trjánum. Við fundum svo greinar og byrjuðum að búa til okkar eigin stiga. Einnig benti Kristinn Snær okkur á „Effelturninn“ sem reyndist vera rafmagnsmastur.

Hann Tómas er nýr starfsmaður hjá okkur á Baugi. Hann er íþróttafræðingur að mennt og mun vera með íþróttatíma með börnum leikskólans. Hann verður með okkur á Tjörn á fimmtudögum og gott væri ef börnin væru þá í sokkum (ekki sokkabuxum) og í leggings/gammósíum/íþróttabuxum.

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu, 16.nóvember, völdu börnin eitt ljóð eftir Þórarinn Eldjárn til að læra.

Kaffikerling

Gamla kaffikellingin
komin er úr straffi.
Vill hún út á vellinginn
væna slummu af KAFFI.

-Kannski er betra, kona góð,
að kanil ég þér skaffi...
Kerling svarar alveg óð:
-EKKERT NEMA KAFFI.

Býð ég vatn, þá vælir hún:
-Vonlaus ertu, Haffi.
Setur á sig ygglibrún,
áfram heimtar KAFFI.

Biður lúmsk um „brúnan drykk
sem byrjar ekki á vaffi...“
Innbyrðir svo í einum rykk
átján bolla af KAFFI.

Kveðja
Margrét Hlín, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða & Saadet

 

1. nóvember 2013

Sæl,

Við ætlum að leggja mikla áherslu á vináttuna og góð samskipti í starfinu okkar í vetur. Það gerum við m.a. með að tala um vináttuna í samverum, sitjum í hring og segjum eitthvað fallegt um hvort annað, ætlum að æfa samskipti og fleira. Einnig erum við farin að draga okkur vin til að leika með einu sinni í viku. Þannig kynnast þau hvort öðru betur og leika ef til vill við einhvern sem þau hefðu annars ekki gert. Þau þurfa að fara saman í stöðvavinnu og velja saman stöð til að vinna á, sem getur verið svolítið strembið fyrir þau.
   Við erum búin að vera að búa til hús í stöðvavinnu og ætlum að halda áfram með það verkefni og búa til þorp/samfélag og ræða um vináttuna í tenglsum við það. Einnig förum við að huga að jólagjöfunum, en þær verða algjört leyndarmál ;)
   Einnig höfum við gert breytingu á dagskipulaginu og erum hætt með hvíld (lesstund) eftir hádegismat og förum við beint í stöðvavinnu/útiveru eftir mat. Í staðinn förum við í lesstund eftir kaffi um 15:30.

Eigið góða helgi

Margrét, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet

 

27.september 2013  

Sæl,
Við höfum fengið auka kennara á deildina. Það er hún Saadet. Við viljum bjóða hana velkomna inn til okkar á Tjörn. 
Annars er allt gott að frétt af okkur á Tjörn. Úlfahópur hefur verið í stöðvavinnu þessa vikuna (á morgnanna) og Drekahópur í útiveru á meðan. Við höfum verið í Vísindastöð, Turni, Heimastöð, Tölvustöð, Textílstöð, Listasmiðju. Drekahópur fór svo í skógarferðina á miðvikudaginn. Í næstu viku skiptum við og Drekahópur fer í stöðvavinnu og Úlfahópur í útiveru og skógarferð á miðvikudag.

Hóparnir eru eftirfarandi:
Drekahópur: Freyr, Harpa Björg, Haukur Ingi, Hekla Rakel, Hilmar Kári, Orri Freyr, Rakel Birta, Sara Margrét, Sveinbjörn Már, Tinna Ósk, Vilhjálmur Árni, Yngvi snær. Kennarar: Margrét, Inga Jóna, Saadet.

Úlfahópur: Alex Árni, Daníel, Emma Dís, Guðrún Ásta, Hafþór Orri, Halldór Skúli, Heiðar Magni, Hulda Rún, Ívar Kári, Kristinn Snær, Róbert Máni. Kennarar: Jóna Heiða, Hansi.

Þriðjudaginn 1.október þurfa börnin að mæta fyrir 8:30. Við ætlum við að skella okkur í leikhús með Fossi. Okkur var boðið í Þjóðleikhúsið að sjá leikritið Skrímslið litla systir mín. Skrímslið litla systir mín var valin barnasýning ársins 2012. Litla skrímslið er listræn leiksýning fyrir börn þar sem leikkonan notar pappír, tónlist og ljós til að segja þeim sögu. Sögu um það hvernig maður getur lært að elska - jafnvel skrímsli. Leikkonan býður börnunum inní hvítan pappírsheim. Pappírinn lifnar smám saman við og verður að persónum sögunnar. Aðal söguhetjan er drengur sem hefur nýlega eignast litla systur. Hann kemst reyndar fljótlega að því að hún er ekkert venjulegt barn heldur skrímsli sem ætlar að éta mömmu hans upp til agna  og kannski bara allan heiminn.

CHARLOTTE BÖVING, leikstjóri
EIVÖR PÁLSDOTTIR, höfundur og flytjandi tónlistar
HELGA ARNALDS, höfundur, leikmyndahönnuður og flytjandi
PÁLL GUÐMUNDSSON hljóðfærasmiður
EVA SIGNÝ BERGER búningahönnuður
JÓHANN BIRGIR BJARNASON ljósahönnuður

Það eru nokkrir sem áttu eftir að fylla út bráðablað (eyðublað yfir hvern hægt er að hafa samband við ef eitthvað kemur uppá) og settum við það í hólf þeirra barna sem ekki höfðu fyllt það út. Við viljum endilega fá það aftur á mánudaginn.

En hafið það gott um helgina.

Kveðja
Margrét, Hansi, Inga Jóna, Jóna Heiða og Saadet.

 

5.júlí 2013

Sæl,
Við á Tjörn erum búin að vera mikið úti í þessari viku. Á þriðjudag gengum við yfir í Seljahverfið þar sem við lékum í garðinum hennar Margrétar og gæddum okkur á kexi, muffins og svala. Á miðvikudag fórum við með Foss, Mýri, Rjóðri og Hlíð í Guðmundarlund og áttum frábæran dag í yndislegu veðri.  Við lékum okkur þar í leiktækjunum, borðuðum grillaða hamborgara og fórum í skógarferð þar sem við tíndum köngla og heyrðum m.a. í „öpum og ljónum“.
Hann Fannar, sem var hjá okkur frá Bæjarvinnunni, er hættur og þökkum við honum fyrir samveruna í sumar.

Í næstu viku verður aðeins fótboltaþema hjá okkur og ætlum við að kíkja á fótboltavöll og hafa EM partý.

Góða helgi!

Margrét Hlín, Ellý, Inga Jóna og Jóna Heiða

 

 

25.júní 2013

Sæl,
Við á Tjörn erum búin að vera svolítið á farandfæti síðustu vikurnar enda svo gaman að fara í ferðalag. Það var mikið fjör í fjöruferðinni og tíndum við mikið af fjörugulli: skeljum, steinum, kröbbum og kuðungum. Við fórum líka í leiki og skemmtum okkur mjög vel. Við erum búin að skoða gullið okkar og bjuggum okkur til hálsmen og sameiginlega mynd af fjörunni.
Í næstu viku munum við fara i Guðmundarlund og gera okkur glaðan dag. Það fer aðeins eftir veðri hvenær við förum. Einnig áætlum við að kíkja í Breiðholtið í heimsókn til Margrétar og skoða kannski rólóvelli á leiðinni.
Að auki stefnum við á að hafa EM partý þar sem við hitum upp fyrir leik Íslands og Noregs í Evrópumóti kvenna sem fer 12.júlí.

Að lokum viljum við þakka ykkur fyrir komuna á sumarhátíðina. Það var gaman að sjá hve margir gátu mætt og skemmt sér með okkur í þessu yndislega veðri sem við fengum.

Við minnum á að maka vel af sólavörninni á börnin á morgnanna og bætum við svo á þegar við förum út eftir hádegi.

Kveðja
Kennarar á Tjörn

 

 

4 júní.

Sæl ,
Bíóferðin sem við fórum á á fimmtudag gekk ljómandi vel. Við skemmtum okkur vel í strætó, vorum eins og ljós í bíóinu og vorum ansi þreytt á bakaleiðinni. Enda sofnuðu ansi margir í strætó. 

Á fimmtudaginn ætlar Hestahópur að fara á Þjóðminjasafnið. Þau taka strætó rétt fyrir níu og þurfa þau því að vera mætt í síðasta lagi 8:30. Fiðrildahópur verður á Baugi að gera eitthvað spennandi á meðan.

Ég vil biðja ykkur foreldra að athuga hvort börnin séu með aukaföt því þau eiga það til að blotna í gegnum pollagallana í rigningunni. Þá er mjög vont að vera ekki með aukaföt.

Kveðja kennarar á Tjörn

 

Sæl,

Við höfum haldið víkingaþemanu áfram í stöðvavinnu og héldum áfram að sauma rúnir, sumir saumuðu öskupoka og svo teiknuðu börnin mynd af sér í búningnum sínum á Öskudag.  Börnin skemmtu sér vel á öskudaginn, slógu köttinn úr tunnunni og dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn á furðufataballi í Turninum.
Við fórum í vettvangsferð á þriðjudaginn þar sem við gengum niður í Salalaug og skoðuðum verk barnanna í leikskólanum. Það var frábært að sjá hvað börnin voru dugleg að ganga og ekki skemmdi þetta yndislega veður sem við fengum. Börnunum leiddist heldur ekki strætóferðin til baka, þótt stutt væri.

Miðvikudaginn 20.febrúar ætlum við í Minjasafn Reykjavíkur á Landnámssýningu  . Við tökum strætó klukkan 9:00 og því þurfa þau að vera mætt 8:30 svo við náum að klæða okkur í útifötin.

Góða helgi
Kennarar á Tjörn

 Öskudagur

Útivera í snjónum

Víkingaþema á þorranum

5. febrúar 2013

Sæl,
Leikfangadagurinn gekk vel og voru krakkarnir duglegir við að leika með leikföngin sín og leyfa öðrum að prófa.

Við höldum áfram með víkingaþemað í stöðvavinnunni enda hafa krakkarnir enn mikinn áhuga á víkingunum. Við kláruðum víkingahjálmana í síðustu viku sem við höfðum á Þorrablótinu okkar og voru krakkarnir dugleg að smakka þorramatinn, sem þau kölluðu víkingamat.
Í þessari viku erum við að skoða rúnir og höfum við skrifað nöfnin þeirra á pappa með rúnum sem þau eru að sauma í.

Í tilefni af Öskudegi,  miðvikudaginn 13.febrúar, verður furðufataball. Við ætlum að skella okkur á ball í Turninum og sláum svo köttinn úr tunnunni inn á Tjörn.   

 

29.janúar 2013

Sæl ,

Við erum enn að vinna með víkingaþema í tengslum við þorrann og erum að gera okkur víkingarhjálma sem við ætlum að nota á föstudaginn þegar við höldum upp á Þorrann með þorramat. Börnin hafa verið að skoða hvernig hjálma víkingarnir notuðu og hanna sína hjálma sjálf.

Á fimmtdag verður leikfangadagur þar sem börnin geta komið með leikföng að heiman.

Við viljum að lokum þakka fyrir góða mætingu feðra og afa síðasta föstudag. Það er alltaf gaman þegar foreldrar og aðrir ættingjar koma og líta í heimsókn.

Kveðja kennarar á Tjörn

 

12.janúar 2013

Sæl,
Nú er alveg að koma að Þorranum en hann hefst föstudaginn 25.janúar. Við erum því farin að vinna með Þorrann og víkinga í stöðvavinnu. Við ætlum að skoða hvernig víkingar lifðu hér á öldum áður. Þ.e.a.s. hvernig þau klæddu sig, vopnin þeirra, faratæki, húsin þeirra, matarvenjur og fleira.

Við erum byrjuð að búa okkur til víkingahjálma og einnig erum við farin að syngja Þorralög: Krummi svaf í Klettagjá, Krummi krunkar úti, Þorraþræll, Nú er úti Norðanvindur og fleiri lög.

Góða helgi!

Kennarar á TjörnÞetta vefsvæði byggir á Eplica