Einkunnarorð Baugs eru: Skynjun – Uppgötvun – Þekking

 

Skynjun

Með áherslu á þjálfun skynfæranna eykst sjálfsvitund barna og trú þeirra á eigin getu. Þau geta frekar tjáð innri upplifun sína ef þau fá að prófa og skynja. Börnin fá tækifæri til að handfjatla hluti, kanna, prufa og gera tilraunir með þá, misheppnast og reyna aftur. Svæði sem gefa bæði kennurum og börnum tækifæri til að upplifa, rannsaka og gera tilraunir er grundvöllur náms og áhersla er lögð á fjölbreytt svæði innan leikskólans. Umhverfi leikskólans er einnig nýtt í nám barna og er náttúran endalaus uppspretta skynjunar og leikja.

 

Uppgötvun

Til að vekja börn til umhugsunar þarf að spyrja þau ótal spurninga og er lögð áhersla á að nota opnar spurningar, "hvað, hvernig og hvers vegna". Börnin öðlast reynslu með uppgötvun í leik án þess að kennarar gefi þeim lausnir. Endapunkturinn skiptir ekki máli heldur lærdómurinn sem börnin öðlast á leiðinni þangað. Upplifun barnanna er viðurkennd og opnar þeim frjálsa leið til náms, án þess að lögð er á hana dómur.

 

Þekking

Áhersla er lögð á að opna börnunum frjálsa leið til náms og þekkingar. Ný þekking leiðir til aukinnar þekkingar, því það sem börnin sjá og hugsa leiðir þau áfram til enn nýrri þekkingar. Hlustað er á börnin og kennarar gefa börnunum ekki þekkingu heldur hjálpa þeim við að byggja upp sína eigin.