Sími  4415600 / 8666926

Stöðvavinna

Stöðvavinna

 

Leikskólinn Baugur byggir á hugmyndafræði Reggio Emilia og er stöðvavinnan m.a. okkar nálgun í þeirri starfsaðferð.

Farið er í stöðvavinnu allt að þrisvar í viku (mismunandi eftir deildum) og námsstöðvarnar unnar út frá áhuga barnanna.

Kennarar eru virkir í að fylgjast með leiknum og skrá hjá sér hvað vekur áhuga, gleði og er námshvetjandi. Út frá þessum skráningum eru stöðvarnar unnar. Starfsfólk deildarinnar heldur fund einu sinni í viku þar sem stöðvar vikunnar eru ákveðnar.

Stöðvavinnan hefst með því að börn og starfsfólk setjast á fund þar sem stöðvar eru kynntar og börnin velja sér stöð. Kennararnir eru virkir þátttakendur í stöðvavinnunni og þar með samverkamenn í þekkingarleit barnanna. Kennarinn kemur til móts við námsþarfir barnanna og veitir verkefni sem hæfir áhuga og þroska hvers og eins.

Með stöðvavinnu teljum við okkur ná megininntaki Reggio Emilia starfsaðferðarinnar þar sem notuð eru lýðræðisleg vinnubrögð, kennarinn er samverkamaður sem hlustar á rödd barnsins og einstaklingnum er gefið svigrúm til að uppgötva hæfni sína og getu. Leikskólakennarar þurfa að vera tilbúnir að grípa hugmyndir barnanna á lofti.

Lýðræði skipar stóran sess í stöðvavinnu vegna þess að þar er mikil samvinna. Með samvinnu, bæði fullorðinna og barna, fæst dýpri og betri þekking og skilningur á viðfangsefnum heldur en ella fengist.

Stöðvavinna stuðlar að sjálfstæði barnanna og gefur kost á fjölbreyttum viðfangsefnum og verkefnum fyrir börnin. Hún grundvallast á hugmyndum um áhugahvöt og virkni barnsins.

Stöðvavinna er:

·         Starfsaðferð sem hentar vel til að nálgast áhugasvið barna 

·         Starfsaðferð þar sem börnin vinna á sínum forsendum, út frá sínum áhuga.

·         Auðveld leið til að skapa umhverfi þar sem hægt er að hafa í boði mismunandi efnivið til að vinna með, rannsaka og finna úrlausnir.

·         „Verkfæri“ eða vinnuaðferð sem getur tekið á og þjálfað marga þroskaþætti í einu, það á meðal eru þeir námsþættir sem Aðalnámskrá leikskóla byggir á og leikskólarnir vinna eftir.

·         Góð leið til að minna börnin á hvað þau hafi sagt áður, rifja upp með þeim fyrri spurningar þeirra, tillögur og viðbrögð.

·         Gefur kost á að fylgjast með hvað börnin gera og hvernig þau gera það.

·         Eflir sjálfsstæði barna, virkni og sköpun.

·         Börnin læra að vinna saman, í stórum eða litlum hópum.

  

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica