Hljóm - 2

Hér má lesa grein eftir Ingibjörgu Símonardóttur talmeinafræðing sem birtist í Fréttabréfi Faghóps leikskólasérkennara. Ingibjörgu er umhugað um að leikskólakennarar framkvæmi fyrirlögn og eftirvinnslu HLJÓM-2 rétt.

Leikjaprófið HLJÓM-2 kom út haustð 2002. Að baki staðlaðra niðurstaðna prófsins liggur sex ára rannsóknavinna og prófniðurstöður 1540 barna. Mörg hundruð leikskólakennara hafa sótt námskeið í fyrirlögn og túlkun prófsins og prófið er lagt fyrir í flestum leikskólum landsins.

HLJÓM-2 er eingöngu ætlað til notkunar fyrir leikskólakennara/fagfólk leikskóla sem vinnur með elstu börnum leikskólans.

En hvað er HLJÓM-2 og hver er tilgangurinn með þessu leikjaprófi?HLJÓM-2 er greiningartæki, aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). Síðustu 30 ár a.m.k. hefur mikil áhersla verið á að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni til örvunar hljóðkerfis- og málmeðvitundar þeirra og að þeim sem virðist eiga í erfiðleikum sé sinnt sérstaklega. Leikskólaárin eru því sérlega mikilvæg fyrir snemmtæka íhlutun.

Niðurstöður þátttakenda í rannsókninni (268 börn) hafa verið bornar saman við niðurstöður sömu  barna í lestri í fyrsta, öðrum og fjóða bekk (samræmt próf í íslensku) og er fylgnin mjög há. Niðurstöðurnar eru marktækar vísbendingar um hvaða börn eru í áhættu fyrir síðari lestrarörðugleika.

Í HLJÓM-2 eru sjö mismunandi verkefni/leikir sem reyna á hljóðkerfisvitund og málmeðvitund barnanna og fleiri þætti málþroskans. Það er lagt fyrir í byrjun hauststarfs í september/október. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir er gert ráð fyrir að leikskólinn geri viðeigandi ráðstafanir samkvæmt handbók, (vísi þeim börnum áfram til nánari greiningar sem þurfa á því að halda, um 12-15 % barnanna). Jafnframt er gert ráð fyrir að unnið sé markvisst með börnin í leik og starfi  og í samvinnu við foreldra með að örva hljóð- og málvitund þeirra. Samkvæmt niðurstöðum HLJÓM-2 þurfa 15% börn til viðbótar  einnig svipaða aðstoð í leikskólanum. Sérstaklega ef þau hafa sýnt slaka færni í þeim verkefnum prófsins sem hafa sýnt sig hafa mesta fylgni við síðari lestrarfærni. Þetta eru verkefnin Rím, Samsett orð og Orðhlutaeyðing.  

 

Þegar viðeigandi úrræða hefur verið leitað og unnið hefur verið markvisst með börnin eftir haustfyrirlögnina í 10 -12 vikur er fyrirlögn endurtekin í janúar á nýju ári hjá þeim börnum sem sýndu slaka færni að hausti. Undirritaðri hefur borist til eyrna að það vilji brenna við að ekki sé nógu mikil festa á því í sumum  leikskólum hvenær HLJÓM-2 er lagt fyrir, haustið dragist fram á vetur og janúar jafnvel fram í mars. Þetta má ekki ske!

 

HLJÓM-2 er fyrir börn á aldrinum 4 .ára 9 mánaða og sextán daga til sex ára eins mánaða og fimmtán daga. Á þessum aldri er elsti árgangur leikskólans frá sept/okt og fram í janúar.  Niðurstöður prófsins miðast við að prófið sé lagt fyrir þá og tímabilið á milli fyrirlagna sé nýtt til að vinna marktækt og vel með börnunum. Niðurstöður eru ekki marktækar ef prófið er lagt fyrir á öðrum tímum eða fyrir börn í öðrum árgöngum þótt þau falli innan aldursbila prófsins.Heyrst hefur að október sé mjög annasamur mánuður í leikskólanum. Þá er hægt að byrja fyrirlögn hjá elstu börnunum í september og taka yngstu börnin þegar þau “komast á aldur” . Kæru leikskólakennarar með réttindi til að leggja fyrir HLJÓM-2 og túlka niðurstöður !

 

HLJÓM-2 er eitt fárra staðlaðra íslenskra prófa/skimana sem leggur mat á málþroska barna - og það var fengið ykkur í hendur til að vinna með. Berið virðingu fyrir vinnunni að baki stöðluðu niðurstöðunum og mikilvægi þeirra upplýsinga sem þær gefa ykkur til að stuðla að betri árangri nemenda ykkar með ykkar aðstoð.Munið:- Til þess að niðurstöður séu marktækar þarf HLJÓM-2 að vera lagt fyrir á réttum tímaskeiðum, þannig að tími gefist til að vinna með markvisst milli fyrirlagna með þeim börnum sem þess þurfa.

 

Ingibjörg Símonardóttir, talmeinafræðingur

 

TRAS skráningarlistinn

TRAS er skráningarlisti til notkunar fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna. Listinn er upprunalega kominn frá sérfræðingum við norskan háskóla og sérkennslustofnanir og er notkun hans nú orðin útbreidd á Norðurlöndum. Góður málþroski skiptir miklu máli fyrir andlegan þroska barna, félagslega líðan og seinni lestrartileinkun. Með TRAS skráningunni er hægt að skima eftir frávikum í mál- og félagsþroska barnanna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga.

TRAS skráningarlistinn er ekki málþroskapróf heldur athugun í skráningarformi á málhegðun og málþróun hjá börnum á ákveðnum aldri. Spurningarnar á TRAS skráningarlistanum eru byggðar á niðurstöðum þekktra atferlis- og málþroskakvarða og kenningum Chomsky´s um algildi tungumála.

Skráningin hefst þegar barn er rúmlega tveggja ára og lýkur við fimm ára aldur. Tvisvar á ári, með sex mánaða millibili skráir leikskólakennari á skráningarblöðin svör við ákveðnum spurningum um málþroska barnanna. Hvert barn á sitt skráningarblað sem fylgir því upp í gegnum leikskólann. Ekki er um eiginlega fyrirlögn að ræða heldur leitar sá leikskólakennari sem best þekkir barnið svara við spurningunum á skráningarlistanum með því að fylgjast með barninu í leik og starfi.

 

Spurningarnar á TRAS skráningarlistanum flokkast undir þrjú færnisvið sem hvert um sig á ákveðinn lit á skráningarblaðinu.

1. Samleikur, tjáskipti/ samskipti og athygli/einbeiting.

2. Málskilningur og málmeðvitund.

3. Framburður, orðaforði og setningamyndun.

 

Markmið með TRAS skráningarlistanum er:

· að unnt sé að grípa inn í með skjóta og markvissa aðstoð ef grunur vaknar um frávik.

· að foreldrar og aðrir fullorðnir í umhverfi barns fái ráðgjöf og leiðbeiningar. Það getur dregið úr áhyggjum og gefið innsýn í hvernig best sé að hjálpa barninu.

· að reynt sé að fyrirbyggja að önnur vandamál komi upp sem tengjast því að barn hafi ekki fengið aðstoð vegna málþroskafrávika.

 

Hverjir mega nota TRAS skráningarlistann?

TRAS er ætlað til notkunar í leikskólum.

Aðeins þeir sem hafa sótt námskeið í TRAS hafa leyfi til að nota tækið.

 

Gerd Strand


Gerd Strand listi


Færni – geta – hæfni


Könnunin tekur á flestum færni- og getuþáttum sem hafa áhrif á gengi nemenda í skólastarfi. Könnunin er byggð upp með 4 ára „meðalnemanda“ í huga. Könnuninni er skipt í 10 spurningaflokka og er reynt  að hafa hvern flokk eins tæmandi og mögulegt er.


1. Eftirtekt/einbeiting


2. Fljótfærni/hvatvísi


3. Virkni


4. Samskipti


5. Grófhreyfingar


6. Fínhreyfingar


7. Sértækir erfiðleikar


8. Mál


9. Tal


10. Almennur skilningur og þekking


Niðurstöður matsins: Gefa skýra mynd af stöðu nemanda, er um að vanda að ræða eða ekki og hvers eðlis er vandinn.


 


EFI - 2 málþroskaskimun


EFI-2 er málþroskaskimun fyrir börn á fjórða ári. Barn og kennari eiga rólega stund og skoða saman myndabók. Svör barnsins gefa vísbendinu um hvar það er statt í málþroskaferlinu. Þessi skimun kannar málskilning og tjáningarfærni barnsins og tilgangurinn er að finna þau börn sem þurfa á stuðningi að halda. Með því að finna börn með málörðugleika er hægt að bæta úr með snemmtækri íhlutun.


EFI-2 er eftir Elmar Þórðarson, Friðrík Rúnar Guðmundsson og Ingibjörgu Símonardóttir en þau eru öll talmeinafræðingar.


Góður málþroski er nauðsynleg undirstaða lestranáms í grunnskóla en ekki síst fyrir lífið sjálft.