Innan leikskólans á hverju barni að vera tryggðar aðstæður til náms og þroska samkvæmt íslenskum lögum. Í þessu felst að leikskólanum er ætlað að jafna uppeldis- og námsstöðu allra barna og er það gert  með sérkennslu.  Sérkennsla er því viðbótarúrræði handa þeim einstaklingum sem vegna aðstæðna sinna þurfa sérhæfðar leiðir til að þroskast og læra í samfélagi við önnur börn í skólanum.   Sérkennsla fer alla jafna fram í hópnum með öðrum börnum.

Sérkennsla í Baugi

Í Baugi er fjölbreyttur hópur barna með misjafnar þarfir. Í barnahópnum hverju sinni geta verið langveik börn, börn með fötlun, börn með málörðugleika, börn sem eiga við félagslega- eða tilfinningalega erfiðleika að stríða, börn sem koma frá ólíku menningarlegu umhverfi og  börn sem tala fleira en eitt tungumál. Sérkennsla í Baugi miðar að því leikskólinn mæti margbreytilegum hópi barna á jafnræðisgrundvelli með einstaklingsþarfir að leiðarljósi.

Sérkennsla í leikskólum byggir á lögum um leikskóla nr. 90 frá 2008 og reglugerðum þar að lútandi, aðalnámsskrá leikskóla sem og samþykktum leikskólaráðs.

Sérkennsla í Baugi byggist á markmiðum Kópavogsbæjar um sérkennslu í leikskólum bæjarins. Markmið með sérkennslu í leikskólum er að tryggja að börn með þroskaraskanir, tilfinninga- og/eða félagslega erfiðleika fái notið leikskóladvalar sinnar.

Lögð er áhersla á styrkleika barnsins með tilliti til þátttöku og virkni við dagleg störf svo barnið fái tækifæri til að upplifa og kanna á sínum forsendum. Sérkennslan tekur mið af þörfum hvers og eins og er unnin í nánu samráði og samstarfi við foreldra.

 

Leiðir í sérkennslu

Í Baugi er litið á sérkennslu sem eðlilegan hluta af öllu starfi í leikskólanum en ekki aðgreint úrræði. Unnið er eftir hugmyndum um skóla margbreytileikans. Skóli margbreytileikans er hugsaður sem ferli sem samþættir almennt skólastarf og sérkennslu með það að markmiði að öll börn séu virkir þátttakendur í samfélagi leikskólans þar sem fjölbreytni í barnahópnum er talið vera norm og menntun hvers nemanda er gæðamenntun þar sem stuðningur er í boði eftir þörfum hvers og eins.

Sérkennsla í Baugi fer að mestu leyti fram inni á leikskóladeildum en minni hópar (leikhópar) eru einnig teknir út af deild til að skapa rólegra umhverfi, draga úr áreiti og stuðla þannig að betri einbeitingu og úthaldi barnanna. Að öðru leyti fer sérkennsla fram í gegnum samvinnu innan leikskólans með tilliti til verkefnavals, aðlögunar á umhverfi og verkefnum með áherslu á að börnin upplifi vellíðan og hafi möguleika til virkar þátttöku, vaxtar og þroska í leikskólastarfinu.

 

Ef grunur vaknar um þroskafrávik barns í leikskóla

Ef grunur vaknar hjá kennurum um að barn víki frá ,,eðlilegum" þroska á einhverju sviði ber þeim lögum samkvæmt að hlutast til um málið. Þetta á einnig við ef kennari telur að félagslegar aðstæður barns hamli að einhverju leyti þroskamöguleikum þess.

Áhersla er lögð á að  markviss íhlutun hefjist strax og grunur vaknar, ekki sé beðið staðfestingar á þroskafráviki. Í samvinnu við foreldra eru lagðar línur um hvað leikskólinn og foreldrar geta gert  til að mæta hverju barni.

Hjá Kópavogsbæ eru starfandi talmeinafræðingar, iðjuþjálfi og sálfræðingar sem leikskólinn getur leitað til um frekara mat og ráðgjöf varðandi þroska og líðan barna. Beiðni um sérfræðiþjónustu fer alltaf fram í samráði við foreldra.

Kristín Arna Sigurðardóttir er sérkennslustjóri í Baugi. Hún ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar ásamt leikskólastjóra. Kristín er faglegur umsjónarmaður sérkennslunnar og ber ábyrgð á miðlun upplýsinga milli sérkennslufulltrúa leikskóla og starfsmanna leikskólans. Einnig hefur hún umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu. Hægt er að hafa samband við Kristínu símleiðis í 441- 5603 með netpósti kristinarna@kopavogur.is

Verklagsreglur talmeinafræðinga í leikskólum Kópavogs