Leikskólinn er lifandi samfélag í stöðugri þróun, þar sem börn og starfsmenn geta verið í góðu og jákvæðu sambandi hvert við annað. Í leiknum eru börn að skapa út frá eigin hugarheimi, þau taka ákvarðanir á eigin forsendum og læra að leita lausna. Leikur skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar. Til að þróa gagnrýna hugsun hjá börnum þarf að kenna þeim að skilgreina hluti, með því aðsjá þá innan frá og frá öllum hliðum. Veganesti barnanna út í lífið er byggt á reynslu þeirra sjálfra. Kennarar/starfsfólk hlúir að sköpunargáfu barnanna sem þau öðlast með vinnu sinni við að athuga umheiminn, ræða það sem upp kemur og vinna úr því.
Mikil áhersla er lögð á að hlustað sé á barnið af athygli og starfsmenn treysta getu og hæfni hvers barns til að efla eigin þekkingu og hvetja þau til að nýta hæfileika sína.
Í Baugi er lögð áhersla á að borin sé virðing fyrir upplifun barnanna, að hlustað sé á þau og þeim sýndur skilningur á bæði jákvæðum og neikvæðum tilfinningum. Börnin fá að vinna á sínum forsendum og áhuga og kennarar/starfsfólk skapar umhverfi þar sem í boði er mismunandi efniviður með það að markmiði að börnin uppgötvi og læri með því að prófa sig áfram. Þegar börnin vinna í hóp læra þau að þekkja hvort annað og treysta hvort öðru sem eflir sjálfstæði þeirra og virkni, eykur samskiptahæfni og byggir grunn að samvinnufærni og vináttu.
Til grundvallar starfinu í Baugi liggur Uppbyggingastefnan eða Uppeldi til ábyrgðar en hún miðar að því að ná samstöðu um þau lífsgildi sem markmiðið er að hafa að leiðarljósi í skólanum og fylgja þeim síðan með fáum og skýrum reglum. Stefnan miðar að því að kenna börnum sjálfsstjórn og sjálfsaga, jafnframt því að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum.
Námskrá leikskólans Baugs er í endurskoðun samfara breytingu á stefnu leikskólans.
Hér er að finna síðustu námskrá sem skólinn gaf út en hún ber keim af starfsaðferðum Reggio Emilia: Skólanámskrá Baugs