Gagnlegt

Foreldrasamstarf

Gott samstarf við foreldra er mikilvægur þáttur í starfsemi hvers skóla og við reynum að leggja okkur fram við að koma til móts við þarfir foreldra eins og mögulegt er. Við höfum sameiginleg markmið sem eru almenn vellíðan og þroski barnsins.

Við leggjum áherslu á góð dagleg samskipti við foreldra þegar þið komið með og sækið börnin. Þá má gjarnan koma inn með börnunum og fylgja börnunum inn í leik eða hjálpa þeim að ganga frá eftir sig.

Foreldrafundur er a.m.k. einu sinni á ári að hausti, þar sem skipulag og markmið skólans eru kynnt.

Foreldraviðtöl eru einu sinni á ári, á vorönn, þar sem skipst er á gagnkvæmum upplýsingum. Kennari og ekki síður foreldrar geta ávalt beðið um viðtal þegar þeir telja þörf á því. Einnig hafa kennararnir boðið upp á aðlögunarviðtal, það er c.a. einum til tveim mánuðum eftir að barnið er byrjað í leikskólanum.

Gagnkvæmur trúnaður milli foreldra og kennara er forsenda þess að barninu líði vel. Daglegar upplýsingar um barnið heimafyrir og í skólanum eru mjög nauðsynlegar. Mikilvægt er að foreldrar láti vita þegar um breytingar er að ræða á högum barns, t.d. flutningur, skilnaður, missir, nýr einstaklingur inn á heimilið, langvarandi veikindi í fjölskyldu o.s.frv.

 

Umhverfið  

Vinsamlegast akið varlega í næsta nágrenni leikskólans og skiljið bílinn ekki eftir í gangi. Vinsamlegast kannið aksturstefnu inn á bílaplan leikskólans, inn og út. Skiljið hurðir og hlið leikskólans aldrei eftir opið og látið starfsfólk alltaf vita þegar komið er með barnið í leikskólann og þegar það er sótt.

 

Slys

Slasist barn í leikskólanum greiðist komugjald á slysadeild af leikskólanum. Kópavogsbær hefur samkvæmt lögum tryggingar er varða skaðabótaskyldu, þannig að öll börn eru tryggð í leikskólanum.

 

Vistunartími

Við biðjum ykkur um að virða keyptan tíma, komi upp atvik eða þörf fyrir lengri vistun þá er best að sækja um hann á völuappinu. Vilji foreldrar minni vistun þá er mánaðar uppsögn á tímanum eins og á leikskólaplássinu. Leikskólagjaldið er greitt fyrirfram. Gjaldskrá er endurskoðuð einu sinni á ári og taka breytingarnar mið af launa- og framfærsluvísitölu. Breytingar á gjaldskrá eru ákveðnar af rekstraraðila.

Baugur opnar kl:7:30 og lokar kl:16:30.

 

Veikindi og fjarvera barna

Ekki er hægt að fyrirbyggja veikindi í leikskólanum, ef barn er slappt og getur ekki farið í útiveru þá ber því að vera heima. Leikskólinn er ætlaður frískum börnum og gert er ráð fyrir því að þau taki þátt í starfi leikskólans úti sem inni. Þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni.  Í leikskóla er alltaf meiri hætta á smiti og útbreiðslu algengra umgangssjúkdóma. Ef barn veikist og fær hita, þarf það að dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í 1-2 sólarhringa. Fái barn smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá.  Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn.  Ef barn veikist í skólanum reynum við að ná í foreldra því er mjög mikilvægt að við höfum rétt símanúmer.

VINSAMLEGA TILKYNNIÐ FORFÖLL fyrir kl. 9:00. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir eldhúsið að vita þegar þau börn sem eru með ofnæmi koma ekki, því oft þarf að elda sérstaklega fyrir þau.

Hægt er að tilkynna forföll með því að hringja inn á deild, senda póst á baugur@kopavogur.is eða skrá beint inn í völuappinu.

 

Friðartími

Hann er frá 11.00 - 13.00 vinsamlega komið með börnin fyrir þann tíma eða eftir. Því erfitt er að fá börn inn í miðja matar- og hvíldartíma.

 

Fæðuofnæmi

Sé barn með fæðuofnæmi skal framvísa læknisvottorði frá sérfræðingi, þar sem tekið er fram um hvers konar ofnæmi sé að ræða.

 

Að koma og fara

Við leggjum áherslu á taka vel á móti barninu og láta það finna að það sé velkomið.  Í lok dags leggjum við áherslu á að barnið sé kvatt og þakkað fyrir daginn.  Mjög mikilvægt er að foreldrar fylgi barninu inn til starfsmanna og kveðji barnið þegar þeir yfirgefa leikskólann.

Það er gott að gefa barninu tíma til þess að ljúka við vinnu sína og kveðja starfsfólkið þegar það fer heim. Við óskum eftir því að börnin mæti reglulega og gott væri að börnin væru mætt fyrir klukkan 9:00 áður en skipulagt starf hefst. Það getur verið erfitt fyrir börnin þegar komið er inn í t.d. miðja stöðvavinnu.

 

Fatnaður

Nauðsynlegt er að yfirfara fötin reglulega og halda þeim í lagi, t.d. teygjum, smellum og rennilásum.  Einnig er gott að athuga af og til hvort að fötin passi stækkandi barni og tryggja þannig að barnið búi við bestu aðstæður í starfi og leik.  Leikskólinn er vinnustaður barnanna, þess vegna er mikilvægt að þau séu þægilegum ,,vinnufötum".  Unnið er með ýmis efni s.s. lím, leir, gifs og málningu, sem stundum vilja lenda í fötum barnanna. Takið því tillit til þessa.

Muna þarf að bæta við fötin ef aukafötin eru notuð í miðri viku. Nauðsynlegt er að  merkja allan fatnað barnanna, útiföt, regnföt, skó, stígvél og aukaföt. Það gagnar ekki kennurum að fötin séu merkt systkinum eða frændsystkinum, fötin verða að vera merkt leikskólabarninu sjálfu. Vel merktur fatnaður týnist síður.

 

Lyf

Samkvæmt ráði Heilsugæslulækna "Lyfjagjafir á leikskólatíma eru í flestum tilfellum óþarfar, því aðeins í undantekningartilvikum þarf að gefa lyf oftar en þrisvar á dag. Og þó að lyfið þurfi að gefa þrisvar, þá skiptir ekki máli þótt rúmir 8 tímar líði á milli gjafa. Undantekningar á þessu gætu verið sykursýkis-, asthma- og ofnæmislyf og hugsanlega lyf við ofvirkni. Í slíkum tilvikum er ráðlegt að fá skrifleg fyrirmæli frá lækni til að sýna leikskólastarfsmönnum".

 

Þagnarheit

Vert er að geta þess að starfsfólk leikskólans er bundið þagnarheiti.  Allar upplýsingar sem gefnar eru um barnið eru trúnaðarmál.  Þagnarheitið er í gildi þó starfsmaður láti af störfum.  Ennfremur bendum við góðfúslega á að foreldrum er ekki heimilt að tala um það sem þeir upplifa eða heyra sjálfir varðandi önnur börn, fjölskyldur þeirra eða starfsfólk þegar þeir koma í leikskólann.